| Grétar Magnússon

Lykilbaráttur

Framundan er úrslitaleikur í Meistaradeild og leikmenn munu ekki gefa tommu eftir. Á liverpoolfc.com má lesa skemmtilega greiningu Fabio Aurelio á því hvar hann telur lykilbaráttu leiksins fara fram.

Varla þarf að kynna Aurelio fyrir fólki en Brasilíumaðurinn lék með Liverpool frá 2006-2012 við ágætan orðstír þó svo að meiðsli hafi nú oftar en ekki takmarkað spilatíma hans hjá félaginu. Hér má lesa hvaða leikmenn hann telur koma til með að eigast hvað mest við á Stade de France í París.


Alisson Becker gegn Karim Benzema

Tveir af þeim bestu í heimi í sinni stöðu. Benzema hefur heldur betur verið á skotskónum á tímabilinu en Alisson er einnig frábær í að koma í veg fyrir mörk. Benzema hefur skorað 44 mörk í 45 leikjum á tímabilinu og Alisson hefur haldið markinu hreinu í 27 skipti.

,,Stór hluti af því að Real eru í úrslitum núna er Benzema og tímabilið sem hann hefur átt. Hann þarf ekki að fá dauðafæri til að skora. Þegar hann er kominn einn í gegn er staðan erfið fyrir markvörðinn en ég hef séð að Alisson er sífellt að bæta sig í þessari stöðu. Hann þrengir að sóknarmanninum og gerir honum eins erfitt og mögulegt er að skora."

,,Ég vona innilega að Benzema komist ekki einn í gegn í þessum leik en ef sú staða kemur upp verður það mjög áhugavert."

Trent Alexander-Arnold gegn Vinicius Junior

Ekki er ólíklegt að boltinn verði oft sendur upp vinstri kantinn þar sem reynt verður að herja á Alexander-Arnold í hægri bakverði. Allir vita hversu góður hann er sóknarlega en hann verður að vera tilbúinn í mikla baráttu við Vinicius í þessum leik. Brasilíumaðurinn er með sex stoðsendingar í Meistaradeildinni á tímabilinu, hefur yfir gríðarlegum hraða að ráða og þarf oft ekki mikið pláss til að skapa hættu. En ekki má gleyma því að Vinicius gæti þurft að verjast meira til þess að koma í veg fyrir að Alexander-Arnold skapi hættu upp við mark Real.

,,Þetta er ekki ósvipað stöðunni sem mikið var rædd fyrir úrslitaleikinn árið 2018. Þá voru það Salah og Marcelo sem áttust við og umræðan var svipuð. En nú snýst dæmið við. Trent hefur undanfarin ár verið lykilmaður í liðinu, samhliða því að sinna varnarhlutverki þá fer hann mikið upp völlinn, leggur upp mörk, skorar og aukaspyrnur hans eru oft hættulegar."

,,Við sáum svo í útsláttarkeppninni hversu góður Vinicius er einn gegn einum. Ég held að Alexander-Arnold þurfi að vera meira varkár þegar hann fer fram völlinn því hann veit hver bíður fyrir aftan hann. En Vinicius mun þurfa að passa sig taktískt einnig til að skilja ekki eftir pláss, ef hann gerir það þá mun Alexander-Arnold geta búið til færi og hjálpað Liverpool mikið sóknarlega."

,,Þetta verður áhugaverð barátta bæði tæknilega og taktískt séð."



Jordan Henderson gegn Luka Modric

Þessir tveir eru hjartað í sínum liðum, innan og utan vallar og sýna engin merki um að þeir séu að hægja á sér.

Enginn leikmaður hefur spilað fleiri leiki á tímabilinu en fyrirliðinn Jordan Henderson. Modric, sem er 36 ára gamall, hefur lítið gefið eftir þrátt fyrir að vera að eldast og hefur hlaupið 114 kílómetra í Meistaradeildinni á tímabilinu (sá níundi hæsti) og gæti unnið sinn fimmta sigur í keppninni.

Aurelio þekkir ágætlega til þessara leikmanna en hann spilaði með Henderson á sínum tíma, nánar tiltekið fyrsta tímabil Henderson hjá félaginu og mætti Modric þegar hann var hjá Tottenham.

Aurelio segir: ,,Við sjáum að Henderson sinnir þeim skyldum sem hann á að sinna mjög vel, innan vallar og utan. Hans framlag er yfirleitt mikið og hann er gríðarlega mikilvægur fyrir liðið. Hlutverk hans og Modric er hinsvegar ólíkt því ég myndi segja að Modric er meira skapandi leikmaður fyrir Real. Það er mikilvægt að hafa auga með Króatanum því hann getur skapað færi sem enginn annar sér. Sendingagetan og sýn hans á leikinn, hvernig hann hreyfir sig út um allt, sýnir fram á að leikur Real Madrid fer í gegnum fætur hans."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan