| Grétar Magnússon

Suðurstrandarsigur

Liverpool vann góðan 1-2 sigur á Southampton í síðasta útileik tímabilsins. Eins og í síðasta deildarleik komust heimamenn yfir en okkar menn sneru leiknum sér í hag og fögnuðu sigri.

Jürgen Klopp gerði níu breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik, eitthvað sem við var að búast. Joe Gomez, Joel Matip og Kostas Tsimikas komu í vörnina, Curtis Jones, James Milner og Harvey Elliott voru á miðjunni og fremstu þrír voru Diogo Jota, Roberto Firmino og Takumi Minamino. Þrátt fyrir allar þessar breytingar voru það gestirnir sem byrjuðu vel og liðið hélt boltanum vel innan liðsins. Southampton voru sáttir við að liggja til baka og beita skyndisóknum og náðu einni slíkri snemma leiks þegar Broja komst inní teiginn hægra megin en Matip gerði vel og þrengdi að honum. Broja náði skoti að marki sem Alisson varði. Á 13. mínútu gerðist svo umdeilt atvik þegar heimamenn unnu boltann af Jota uppvið eigin vítateig. Það var klárlega brotið á Portúgalanum en ekkert dæmt, boltinn barst upp völlinn og út til vinstri á Redmond. Hann lék inná völlinn, skaut að marki og boltinn hafði viðkomu í Milner og sveif í fjærhornið. Ekki alveg uppskriftin sem við vildum og annan deildarleikinn í röð voru okkar menn lentir undir eftir mark sem hefði ekki átt að standa ef dómarar leiksins væru að sinna sínu starfi almennilega.

En liðið sem við styðjum lætur svona mótlæti lítið á sig fá og spilaði sinn leik áfram. Firmino skoraði með skalla eftir aukaspyrnu skömmu síðar en var réttilega dæmdur rangstæður. Á 27. mínútu dró svo til tíðinda þegar Minamino fékk boltann frá Jota hægra megin í teignum. Skotfærið var ekki mjög gott en skotið hinsvegar fullkomið hjá litla Japananum þegar hann þrumaði boltanum upp í nærhornið. Frábært mark og staðan jöfn á ný. Eftir þetta litu nokkur hálffæri dagsins ljós hjá gestunum sem ekki tókst að gera alvöru úr. Undir lok hálfleiksins meiddist svo Gomez en hann þraukaði til hálfleiks. Jordan Henderson kom inná í hans stað í upphafi seinni hálfleiks sem þýddi að Milner fór í hægri bakvörðinn.

Leikurinn spilaðist áfram á sama máta og í fyrri hálfleik. Fyrsta færið fékk Jota þegar hann skaut rétt framhjá úr markteig eftir sendingu frá Tsimikas. Divock Origi kom svo inná til að reyna að auka sóknarþungann og manni fannst nú eins og að markið myndi nú detta inn hjá okkar mönnum. Það gerðist á 67. mínútu þegar Matip skallaði boltann í átt að marki í baráttu við varnarmann Southampton. Boltinn sveif í boga upp í hægra markhornið, ekki fallegasta mark sem sést hefur en telur alveg jafn mikið og öll hin. Eftir þetta jafnaðist leikurinn og heimamenn settu meiri kraft í sinn sóknarleik en skemmst er frá því að segja að þeim tókst ekki að jafna metin. Lokatölur 1-2 og því ljóst að úrslit deildarinnar ráðast ekki fyrr en í lokaumferðinni á sunnudaginn.



Southampton: McCarthy, Walker-Peters, Lyanco, Stephens, Salisu, Redmond, Elyounoussi, Ward-Prowse, Diallo (Romeu, 71. mín.), Tella (S. Armstrong, 71. mín.), Broja (Adams, 82. mín.). Ónotaðir varamenn: Caballero, Long, A. Armstrong, Djenepo, Bednarek, Valery.

Mark Southampton: Nathan Redmond (13. mín.).

Gul spjöld: Stephens og Tella.

Liverpool: Alisson, Gomez (Henderson, 45. mín.), Matip, Konaté, Tsimikas, Elliott (Origi, 65. mín.), Milner, Jones, Minamino, Firmino (Keita, 83. mín.), Jota. Ónotaðir varamenn: Kelleher, R. Williams, Robertson, Thiago, Oxlade-Chamberlain, Díaz.

Mörk Liverpool: Takumi Minamino (27. mín.) og Joel Matip (67. mín.).

Jürgen Klopp: ,,Þetta var ótrúleg frammistaða eftir níu breytingar á byrjunarliðinu. Ef við hefðum ekki náð sigri hefði það verið á minni ábyrgð. En það gekk upp og það er á ábyrgð strákanna því ég get beðið um mikið en þeir verða að framkvæma hlutina. Ég sá ótrúlega frammistöðu í kvöld, ég sá hópinn bregðast við áfalli því mér fannst vera brotið á Jota áður en Southampton skora. Í þannig stöðu getur maður orðið taugaóstyrkur en þeir sem voru inn á vellinum brotnuðu ekki og héldu bara áfram."

Fróðleikur:

- Takumi Minamino skoraði sitt þriðja deildarmark á leiktíðinni og það 10. í öllum keppnum.

- Joel Matip skoraði sömuleiðis sitt þriðja deildarmark.

- Þetta var fyrsti leikur Minamino í byrjunarliði síðan í desember 2020 þegar 0-7 sigur vannst á Crystal Palace. Þar skoraði hann einnig.

- Sigurmark Matip í leiknum var deildarmark númer 550 undir stjórn Klopp og hafa 250 af þeim verið skoruð á útivelli.

- Sigurinn var sá 13. á útivelli á leiktíðinni.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan