| Sf. Gutt

Niðurtalning - 6. kapítuli


Nú styttist í leik á Wembley þar sem ekkert má fara úrskeiðis. Nú er rétt að rifja upp úrslitaleiki Liverpool í F.A bikarnum meðan beðið er eftir leiknum.

+ 1914. Liverpool - Burnley 0:1.

Það var mikil hátíð í Liverpool þegar liðið tryggði sér sæti í úrslitaleik F.A. bikarins í fyrsta skipti. Liðið fór úr borginni nokkrum dögum fyrir úrslitaleikinn til undirbúnings. Þetta var síðasti úrslitaleikurinn sem leikinn var á Crystal Palace leikvanginum en þar fóru úrslitaleikir keppninnar fram um árabil. Í fyrsta skipti á úrslitaleik var Englandskonungur heiðursgestur. Hét sá George og var fimmti í röð þeirra konunga sem það nafn báru. Leikurinn var jafn og hart var barist. Liverpool þótti óheppið að tapa leiknum. Eina markið kom í upphafi síðari hálfleiks og ekki bætti úr skák að það var fyrrum leikmaður Everton Bert Freeman sem skoraði. Liverpool liðið fékk höfðinglegar móttökur þegar það sneri aftur til heimaborgar sinnar þrátt fyrir tapið.

+ 1950. Liverpool - Arsenal 0:2.

Þetta var í fyrsta skipti sem liðið lék á Wembley en þangað átti liðið oft eftir að koma síðar. Liverpool lék í hvítum peysum og dökkum buxum. Rigningarsuddi var í lofti. Nokkrar vangaveltur urðu um uppstillingu Liverpool. Niðurstaðan varð sú að Bob Paisley, seinna framkvæmdastjóri liðsins, fékk ekki sæti í byrjunarliðinu. Í hans stað fékk Bill Jones, afi Rob Jones sem síðar lék með Liverpool, tækifæri. Það þótti eftir á veikja Liverpool að Bob skyldi ekki leika. Liverpool lék ekki vel í leiknum og tvö mörk frá Reg Lewis í sitt hvorum hálfleik réðu úrslitum. Við heimkomuna til Liverpool hylltu 100.000 manns liðið.


+ 1965. Liverpool - Leeds United 2:1.

Loksins tókst Liverpool að vinna bikarinn eftirsótta. Það rigndi mikið og nú var það góðs viti. Liverpool lék í alrauðu búningunum sem voru teknir í notkun á þessari sömu leiktíð. Gerry Byrne vinstri bakvörður Liverpool viðbeinsbrotnaði á fyrstu mínútum leiksins. Hann lét ekki á neinu bera og lék til loka leiks og framlenginguna líka. Vann hann sér þar með ævarandi hylli stuðningsmanna Liverpool. Það var hart barist en ekkert var skorað í venjulegum leiktíma en í framlengingunni fóru hlutirnir að gerast. Roger Hunt skoraði fyrsta mark Liverpool á Wembley með skalla af stuttu færi. Billy heitinn Bremner jafnaði. Sigurmarkið skoraði Ian St John með því að henda sér fram og skalla boltann í markið á glæsilegan hátt eftir fyrirgjöf Ian Callaghan. Allt fór á annan endann meðal stuðningsmanna Liverpool á Wembley og hvar sem þeir voru staddir. Margir stuðningsmenn Liverpool segja þennan leik þann eftirminnilegasta í sögu félagsins.

+ 1971. Liverpool - Arsenal 1:2.

Bill Shankly var í miðju kafi við að byggja upp nýtt lið og tefldi fram ungu liði og margir leikmanna liðsins voru að spila sinn fyrsta úrslitaleik af mörgum. Aðeins tveir leikmenn léku líka í leiknum gegn Leeds sex árum áður. Glampandi sól og steikjandi hiti. Leikurinn var jafn og spennandi en ekkert var skorað í venjulegum leiktíma. Hinn mikli hiti gerði leikmönnum erfitt fyrir. Í upphafi framlengingar skoraði Steve Heighway eftir góða rispu og skoti á nærstöng. Arsenal jafnaði með heppnismarki frá Eddie Kelly. Boltinn þvældist milli fjölda leikmanna og lak í markið. Charlie George skoraði svo sigurmarkið með bylmingsskoti utan vítateigs. Arsenal tryggði sér þar með Tvennuna eftirsóttu. Hinir ungu leikmenn Liverpool voru niðurbrotnir eftir leikinn og Tommy Smith fyrirliði sagði að sér hefði verið óglatt.

 

+ 1974. Liverpool - Newcastle United 3:0.

Nú átti ekkert að fara úrskeiðis. Sólarlaust veður en Liverpool lék skínandi knattspyrnu. Eftir markalausan fyrri hálfleik komu mörkin. Kevin Keegan skoraði með skoti frá vítateig og kom Liverpool á bragðið. Steve Heighway skoraði sitt annað mark í úrslitaleik bikarins eftir langt útspark frá Ray Clemence. Undir lokin tættu leikmenn Liverpool vörn Newcastle í sig og Kevin Keegan skoraði af stuttu færi undir dynjandi flutningi stuðningmanna Liverpool á You´ll Never Walk Alone. Sjaldan höfðu eins miklir yfirburðir sést í úrslitaleik bikarins. Tveir leikmanna Newcastle þeir Alan Kennedy og Terry McDermott léku síðar með Liverpool. Þetta reyndist síðasti titill Bill Shankly. Hann sagði óvænt af sér um sumarið.

+ 1977. Liverpool - Manchester United 1:2.

Liverpool stefndi á Þrennu. Liðið var búið að tryggja sér Englandsmeistaratitilinn. En sólskinið virtist ekki fara vel í leikmenn Liverpool sem náðu ekki sínu besta í hvítu peysunum og svörtu buxunum. Öll mörkin komu á stuttum kafla í upphafi síðari hálfleiks. Stuart Pearson kom United yfir en Jimmy Case jafnaði með glæsilegu þrumuskoti frá vítateig. Ekki dugði það lengi og United tryggði sér sigur með einu mesta heppnismarki í sögu Wembley. Lou Macari skaut að marki boltinn stefndi framhjá en rakst í Jimmy Greenhoff og lak í markið. Liverpool sótti mjög til loka en lánið elti liðið ekki.


+ 1986. Liverpool - Everton 3:1.


Loksins vann Liverpool í sólskini og steikjandi hita á Wembley. Mikil hátíð var á Wembley og Liverpoolbúar lögðu höfuðstaðinn undir sig. Liverpool tryggði sér enska meistaratitilinn viku fyrir leik og nú skyldi Tvennan nást. Enginn leikmaður Liverpool hafði leikið áður í úrslitaleik F.A. bikarins og enginn úr byrjunarliðinu var enskur. Ekki leit það vel út í hálfleik og Everton leiddi með marki Gary Lineker. Í síðari hálfleik fór að ganga betur og á skömmum tíma sneri Liverpool leiknum sér í hag. Ian Rush jafnaði eftir frábæra sendingu Jan Mölby og Craig Johnston kom Liverpool yfir og aftur átti Daninn hlut að máli. Everton menn voru búnir að vera og stuttu fyrir leikslok skoraði Ian Rush aftur eftir hraða sókn. Kenny Dalglish lék með og varð fyrsti spilandi framkvæmdastjórinn til að leiða lið til stórtitla á Englandi. Hann vann um leið þann eina titil sem hann vantaði í safnið á glæsilegum leikferli.

+ 1988. Liverpool - Wimbledon 0:1.

Liverpool stefndi á Tvennu eftir að hafa unnið enska meistaratitilinn með glæsibrag og miklum yfirburðum. Enn buðu veðurguðirnir upp á sólskin og steikjandi hita. Díana heitin var heiðursgestur en hún færði Liverpool ekki lán. Liverpool lék sinn slakasta leik á leiktíðinni og ekkert gekk upp. Dómarinn dæmdi löglegt mark af Peter Beardsley og litlu síðar kom Lawrie Sanchez Wimbledon yfir með skalla. Í síðari hálfleik fékk Liverpool vítaspyrnu. Dave Beasant varði frá John Aldridge. Aldrei áður hafði vítaspyrna farið forgörðum í úrslitaleik bikarins og þetta var eina spyrnan sem John misnotaði á ferli sínum með Liverpool. Ekkert gekk hjá Liverpool og ein óvæntustu úrslitin í úrslitaleik F.A. bikarins voru staðreynd. Því miður.


+ 1989. Liverpool - Everton 3:2.


Tilfinningaþrunginn dagur í sólskini og brakandi þurrki. Hillsborough harmleikurinn setti svip sinn á daginn og í raun var leikurinn minningarleikur um fórnarlömb harmleiksins. Það var við hæfi að þessi lið skyldu leika til úrslita. John Aldridge var ákveðinn að bæta upp vonbrigðin frá síðasta ári og skoraði eftir eldsnögga glæsisókn snemma leiks. Liverpool var lengst af sterkari aðilinn en þeir Bláu gáfust ekki upp og jöfnuðu á síðustu mínútunni þegar varamaðurinn Stuart McCall skoraði eftir mikinn barning í teignum. Framlenging varð staðreynd en örþreyttir leikmenn beggja liða héldu áfram að bjóða upp á frábæran leik. Ian Rush hafi komið inn sem varamaður seint í venjulegum leiktíma fyrir John Aldrigde og í framlengingunni tók hann að hrella þá Bláu. Hann kom Liverpool yfir með snilldarmarki úr teignum eftir að hafa snúið vin sinn Kevin Ratcliffe af sér. Aftur jafnaði Stuart nú með þrumuskoti utan vítateigs. Aldrei áður höfðu tveir varamenn skorað í úrslitaleik. En Ian átti síðasta orðið þegar hann stýrði boltanum hárfínt framhjá Neville Southall með skalla. Liverpool verðskuldaði sigurinn og fögnuðurinn var mikill meðal Rauðliða. Frábær leikur!


+ 1992. Liverpool - Sunderland 2:0.

Afmælisveisla í skini og skúrum á gamla leikvangnum. Liverpool hélt upp á aldarafmæli félagsins með fimmta sigri sínum í keppninni. Ronnie Moran leiddi liðið út á völlinn því Graeme Souness var nýkominn úr hjartaaðgerð. Graeme mætti þó á varamannabekkinn í læknisfylgd og þótti sýna hugprýði með því. Liverpool var sterkari aðilinn allan leikinn. Ekkert var þó skorað í fyrri hálfleik. En strax í upphafi síðari hálfleiks skoraði Michael Thomas með glæsilegu bogaskoti frá vítateig eftir sendingu frá Steve McManaman. Ian Rush gulltryggði sigurinn þegar nokkuð var liðið á leik með nákvæmu skoti úr teignum. Sigurinn hefði getað verið stærri. Vel heppnuð heimsókn í höfuðstaðinn.


+ 1996. Liverpool - Manchester United 0:1.

Líklega versti dagur Liverpool á Wembley. Það er meira að segja erfitt að rifja upp hvernig verðrið var. Liverpool lék í grænhvítu varabúningum sínum. Liðið náði sér alls ekki á strik. United lék ekkert betur og það skapaðist varla færi í leiknum. Ian Rush kom inn á í kveðjuleik sínum og Liverpool virtist vera sterkara undir lokin. Allt stefndi í framlengingu en þá fór allt í vitleysu. Eric Cantona skoraði eftir hornspynru þegar stutt var eftir. Þetta reyndist síðasti leikur Liverpool á gamla Wembley.

 
+ 2001. Liverpool - Arsenal 2:1.

Liverpool vann bikarinn í fyrsta sinn í varabúningum. Gulu búningarnir nutu sín vel í sólinni en leikmenn Liverpool náðu sér lengi vel ekki á strik. Fyrri hálfleikur var tíðindalítill. Skytturnar komust yfir um miðjan síðari hálfleik þegar Freddie Ljungberg komst inn í vítateignn og skoraði. Leikmenn Arsenal fengu í kjölfarið nokkur gullin tækifæri til að gera út um leikinn en færin fóru forgörðum. Það virtist ekki ætla að koma að sök þar til sjö mínútur voru til leiksloka. Michael Owen jafnaði þá metin af stuttu færi eftir aukaspyrnu. Leikmenn Arsenal voru nú slegnir út af laginu og þegar tvær mínútur voru til leiksloka sneri Liverpool vörn í sókn. Patrik Berger sendi langa sendingu fram á Michael Owen sem stakk vörn Arsenal af og sendi boltann í markið með hnitmiðuðu skoti. Stuðningsmenn Liverpool trylltust endanlega. Þetta var ævintýralegur sigur og Michael var krýndur sem Prinsinn af Wales.


+ 2006. Liverpool - West Ham United 3:3 - Liverpool vann 3:1 í vítaspyrnukeppni.  

Þetta var síðasti úrslitaleikurinn um F.A. bikarinn í Cardiff og Liverpool fór heim með bikarinn eins og eftir þann fyrsta 2001. En það átti mikið eftir að ganga á í sól og hita á Árþúsundaleikvanginum. Það gerðist eiginlega allt sem getur gerst í einum leik í þessum frábæra leik. Liverpool var talið mun sigurstranglegra liðið en það var West Ham sem gaf tóninn og komst tveimur mörkum yfir. Fyrst skoraði Jamie Carragher sjálfsmark og svo bætti Dean Ashton við marki. Djibril Cisse minnkaði muninn og snemma í síðari hálfleik jafnaði Steven Gerrard leikinn með fallegu marki. Flestir töldu að Liverpool mundi nú klára málið en Hamrarnir komust aftur yfir þegar Paul Konchesky skoraði með ótrúlegu skoti lengst utan af kanti. Liverpool sótti og sótti en það virtist ekki ætla að ganga að jafna. Um leið og vallarþulurinn tilkynnti viðbótartíma jafnaði Steven metin með ótrúlegu þrumuskoti lengst fyrir utan vítateig! Algjörlega stórkostlegt mark og það þrufti að framlengja. Ekki gekk að gera út um leikinn og vítaspyrnukeppni tók við. Livedrpool vann hana 3:1. Dietmar Hamann, Steven Gerrard og John Arne Riise skoruðu fyrir Liverpool og Jose Reina varði þrjár vítaspyrnur! Leikurinn var nefndur ,,Gerrard úrslitaleikuirnn" og víst var það við hæfi eftir stórfenglega framgöngu hans í Cardiff!


+ 2012. Liverpool - Chelsea. 1:2. 

Liverpool byrjaði illa í hæglætisveðri og Ramires kom Chelsea yfir eftir að vörn Liverpool opnaðist illa. Jose Reina hefði átt að geta varið. Eftir sjö mínútur í síðari hálfleik bætti Didier Drogba við forystu Chelsea og allt stefndi í öruggan sigur. Kenny Dalglish sendi Andy Carroll á vettvang og hann breytti leiknum. Hann skoraði af miklu harðfylgi úr vítateignum níu mínútum seinna og eftir það tók Liverpool völdin. Sókn Liverpool var linnulítil þegar leið að leikslokum og Liverpool taldi Andy hafa jafnað leikinn undir lokin en Petr Cech varði skalla hans á ótrúlegan hátt. Ein af ótrúlegri markvörslum í sögu keppninnar. Liverpool mátti þola tap sem ekki hefði þurft að vera.

+ 2022. Liverpool - Chelsea. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan