| Sf. Gutt

Fernan er enn möguleiki!


Það er kominn sauðburður og ennþá er möguleiki fyrir Liverpol að vinna Fernuna. Það eitt að eiga möguleika á að vinna Fernuna um miðjan maí er gríðarlegt afrek!

Fernan felst í því að vinna Englandsmeistaratitilinn, FA bikarinn, Deildarbikarinn og Evrópubikarinn. Engu ensku liði hefur tekist að vinna Fernuna. Ef rétt er vitað er Celtic eina liðið í heiminum sem hefur unnið Fernu. Liðið vann allar þessar keppnir á keppnistímabilinu 1966/67. Sem sagt skosku deildina, báðar bikarkeppnirnar og Evrópubikarinn. Liverpool hefur auðvitað tryggt sér Deildarbikarinn sem liðið vann eftir vítaspyrnusigur á Chelsea í febrúar. Það er því einn bikar í höfn. Liverpool leikur til úrslita um FA bikarinn við Chelsea á morgun. Liðið er svo komið í úrslit Meistaradeildarinnar og leikur til úrslita við Real Madrid í París 28. maí. Sæti í úrslitaleikjunum sem til þarf eru tryggð. Segja má að það sé orðið svolítið langsótt að vinna Englandsmeistaratitilinn. Englandsmeistarar Manchester City eru með öll spil á hendi. City er með þriggja stiga forskot á Liverpool. Meistararnir eru með 89 stig en Liverpool 86. Markatala City er sjö mörkum betri og svo hefur liðið skorað fleiri mörk en Liverpool. Bæði lið eiga tvo leiki eftir. Manchester City á eftir að spila við West Ham United á útivelli og Aston Villa heima. Liverpool á útileik við Southampton og svo Wolverhampton Wanderes í síðustu umferð á Anfield Road. Manchester City þarf að verða illa á í síðustu tveimur leikjunum og Liverpool að vinna sína báða. 

Sem fyrr segir þá er einn bikar kominn í bikarageymsluna á Anfield. FA bikarinn gæti bæst við á morgun. Svo kemur í ljós seinna í mánuðinum hvernig fer með Englands- og Evrópubikarinn.  Liverpool hefur tvívegis unnið Þrennu. Á leiktíðinni 1983/84 varð liðið Englandsmeistari og vann að auki Deildarbikarinn og Evrópubikarinn. Liverpool vann svo annars konar Þrennu á keppnistímabilinu 2000/01 en þá vann liðið FA bikarinn, Deilarbikarinn og Evrópukeppni félagsliða. 


Hvort sem titlarnir verða einn, tveir, þrír eða fjórir er það gríðarlegt afrek hjá Liverpool að eiga ennþá möguleika á Fernunni og það er komið fram á sauðburð. Það eitt og sér er stórmerkilegt og nýtt hjá ensku liði!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan