| Sf. Gutt

Harðsóttur sigur í London!


Liverpool vann í dag harðsóttan 1:3 sigur á Crystal Palace í höfuðborginni. Liverpool náði því aðeins að draga á Manchester City. 

Alex Oxlade-Chamberlain kom inn í liðið eftir að hafa misst af Deildarbikarleiknum á móti Arsenal vegna meiðsla. Ungliðinn Kaide Gordon fór á bekkinn í hans stað. Þar var Caoimhin Kelleher því Allisson Becker tók stöðu sína í markinu.

Liverpool tók öll völd á vellinum frá upphafi leiks. Fyrsta markið kom á 8. mínútu. Andrew Robertson tók þá hornspyrnu frá vinstri. Spyrna hans fór beint á höfuðið á Virgil van Dijk og Hollendingurinn skallaði beinustu leið í netið. Vörn Palace algjörlega sofandi því Virgil var óvaldaður þegar hann hljóp á móts við boltann. 

Liverpool réði í kjölfarið lögum og lofum og næsta mark kom á 32. mínútu. Andrew var enn á ferðinni vinstra megin. Hann sendi hárnákvæma sendingu yfir á fjærstöng. Þar fékk Alex Oxlade Chamberlain boltann, lagði hann fyrir sig og skoraði frá markteigshorninu. Frábært samspil var á undan stoðsendingunni frá Andrew. Hugsanlega hefði verið hægt að dæma markið af því Roberto Firmino var fyrir innan þegar Andrew gaf fyrir og reyndi að skalla boltann áður en hann barst til Alex en ekkert var dæmt. 

Það var ekki fyrr en fimm mínútum fyrir hálfleik sem heimamenn ógnuðu. Alisson Becker varði þá frá Michael Olise sem var kominn inn í vítateiginn. Rétt á eftir varði Alisson aftur nú af stuffu frá Jean-Philippe Mateta. Alisson kom aðeins við boltann sem rann svo framhjá fjærstönginni. Þar skall hurð nærri hælum.

Vörn Liverpool virtist eitthvað sofandaleg í lok fyrri hálfleiks og það sama var uppi á teningnum eftir hlé. Conor Gallagher fékk upplagt skallafæri af stuttu eftir nokkur andartök en hitti ekki boltann almennilega. Rétt á eftir var atgangur uppi við mark Liverpool og Odsonne Édouard átti hælspyrnu af stuttu færi en Alisson sýndi eldsnögg viðbrögð, kastaði sér niður og varði. Á 55. mínútu minnkaði Palace muninn. Odsonne skoraði þá fyrir opnu marki eftir að hann og Jean-Philippe Mateta höfðu spilað sig í gegnum vörn Liverpool. 

Heimamenn voru nú komnir með vind í seglin og gerðu harðar atlögur að vörn Liverpool sem var á köflum opin og óörugg. Á 83. mínútu fékk Michael sendingu fram völlinn. Hann sá að Alisson var framarlega og skaut í átt að markinu en Brasilíumaðurinn var vandanum vaxinn í markinu, skutlaði sér til hægri og náði að slá boltann í horn. Mögnuð markvarsla. 

Markvarslan var sannarlega mikilvæg því hún varði forystuna. Forystu sem Liverpool náði að auka þegar mínúta var eftir. Trent Alexander-Arnold sendi langt fram völlinn á Diogo Jota sem komst inn í vítateiginn. Markmaður Palace kom út á móti honum og Diogo féll við. Dómarinn dæmdi ekkert sem rétt var en sjónvarpsdómgæslan tók völdin. Eftir langa skoðun var dómaranum sagt að skoða atvikið og eftir mikla rýningu sneri hann inn á völlinn með þann úrskurð að dæma skyldi víti. Léleg vinna hjá sjónvarpsdómaranum. Fyrst að taka óratíma í að skoða atvikið og svo var varla hægt að segja að brotið hefði verið á Diogo því hann var búinn að missa boltann frá sér. Fabinho Tavarez tók vítið, skoraði af öryggi og innsiglaði harðsóttan sigur Liverpool!

Sigurinn var geysilega mikilvægur því Manchester City tapaði stigum í gær. Það er ennþá langt í ensku meistarana en hver veit nema hægt verði að draga betur á þá!

Crystal Palace: Guaita, Ward, Andersen, Guéhi, Mitchell, Gallagher, Hughes (J. Ayew 77. mín.), Schlupp, Olise, Mateta (Benteke 77. mín.) og Édouard (Eze 68. mín.). Ónotaðir varamenn: Butland, Milivojevic, Clyne, Kelly, Ferguson og Riedewald.

Mark Crystal Palace: Odsonne Édouard (55. mín.).

Gul spjöld: Conor Gallagher, Will Hughes, Jeffrey Schlupp og Joel Ward.

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold (Gomez 90. mín.), Matip, van Dijk, Robertson, Henderson, Fabinho, Jones, Oxlade-Chamberlain (Minamino 60. mín.), Firmino (Milner 90. mín.) og Jota. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Konaté, Tsimikas, Gordon, N. Williams og Morton.

Mörk Liverpool: Virgil van Dijk (8. mín.), Alex Oxlade-Chamberlain (32. mín.) og Fabinho Tavarez, víti, (89. mín.).

Gult spjald: Roberto Firmino.

Áhorfendur á Shelhurst Park: 25.002.

Maður leiksins: Alisson Becker. Brasilíumaðurinn var frábær í markinu og lagði grunn að sigri Liverpool. 

Jürgen Klopp: Við sýndum hvað við getum verið rosalega góðir. En líka hvað við getum verið slakir. 

Fróðleikur

- Virgil van Dijk skoraði annað mark sitt á leiktíðinni. 

- Alex Oxlade-Chamberlain skoraði í þriðja sinn á sparktíðinni. 

- Fabinho Tavarez skoraði sitt fimmta mark á keppnistímabilinu.

- Hann er þar með búinn að skora fleiri mörk en á öllum ferli sínum hingað til hjá Liverpool. Hann var áður búinn að skora þrjú mök samanlagt!

- Þetta var tíundi deildarsigur Liverpool í röð á móti Crystal Palace. Þetta er í fjórða sinn í sögu Liverpool sem liðið vinnur sama liðið tíu sinnum í röð eða oftar. Félagsmetið er 12 sigrar í röð á móti West Bromwich Albion. Liverpool hefur svo unnið Crystal Palace, Notts County og Bolton Wanderes tíu sinnum í röð.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan