| Sf. Gutt

Áfram í undanúrslit!

Liverpool mætir Leicester City í Deildarbikarnum annað kvöld. Hér er hægt að rifja upp þegar liðin mættust síðast í keppninni. Það vissi á gott því Liverpool fór alla leið og vann keppnina! 

Liverpool vann Leicester City á Anfield 5:3 í vítaspyrnukeppni eftir að liðin höfðu skilið jöfn 3:3 í eldfjörugum leik. Spennan var mikil frá upphafi til enda.

Gestirnir byrjuðu vel og Jamie Vardy kom þeim yfir á 9. mínútu. Hann fékk þá boltann hægra megin í vítateignum og skoraði með öruggu skoti neðst í fjærhonrið. Jamie bætti svo um betur fjórum mínútum seinna og kom Leicester í 0:2. Eftir hraða sókn kom sending frá vinstri inn í vítateiginn. Jamie var eldsnöggur mætti fyrstur á svæðið og skoraði rétt utan markeigs. 

Mörkin komu á færibandi og Liverpool kom sér inn í leikinn á 19. mínútu. Roberto Firmino fékk boltann í vítateignum og sendi út á Alex Oxlade-Chamberlain sem skoraði með þrumuskoti rétt innan vítateigsins. 

Fjórir ungliðar byrjuðu leikinn og það hafði áhrif á leik Liverpool. Sérstaklega var vörnin óörugg. Refirnir færðu sér þetta í nyt og komust aftur tveimur mörkum yfir á 33. mínútu. James Maddison tók við boltanum lengst frá marki, lék á einn og þrumaði boltanum svo upp í þaknetið af um 25 metra færi. Þetta mark dugði Leicester til að hafa tveggja marka forystu í hálfleik. 

Þrjár breytingar voru gerðar á liði Liverpool í leikhléinu. Ungliðarnir Billy Koumetio, Conor Bradley og Tyler Morton fóru af velli og í þeirra stað komu Ibrahima Konaté, Diogo Jota og James Milner. Leikur Liverpool varð strax betri og á 69. mínútu lagaðist staðan. Takumi Minamino kom boltanum inn í vítateiginn vinstra megin á Diogo Jota og Portúgalinn skoraði með viðstöðulausu skoti út hornið fjær. 


Liverpol sótti látlaust til leiksloka. Sex mínútum var bætt við leiktímann. Um mínúta var eftir þegar kraftaverkið gerðist. James Milner sendi háa sendingu í átt að vítateig Leicester. Varnarmaður missti boltann yfir sig. Takumi var á næstu grösum, tók boltann niður með bringunni og skaut honum svo út í hægra hornið. Allt gekk af göflunum. Liverpool hafði bjargað leiknum og komið honum í vítaspyrnukeppni! 

Vítakeppnin fór fram fyrir framan Anfield Road end stúkuna þar sem stuðningsmenn gestanna voru. Liðin skoruðu úr fyrstu þremur spyrnum sínum. James Milner, Roberto Firmino og Alex Oxlade-Chamberlain tóku fyrstu þrjár. Luke Thomas tók fjórðu spyrnu Leicester. Spyrna hans var föst en Caoimhin Kelleher henti sér til vinstri og varði glæsilega. 

Naby Keita skoraði örugglega úr fjórða víti Liverpool með skoti upp í vinstra vinkilinn. Leicester hélt sér inni með því að skila sínu í markið. Takumi tók fimmtu spyrnu Liverpool en í stað þess að skjóta Liverpool áfram skaut hann boltanum í slána og yfir. Boltinn endaði uppi í stúku. Ryan Bertrand var sjötta skytta Refanna. Hann miðaði neðst í hægra hornið en Írinn ungi endurtók leikinn frá vítinu sem hann varði frá Luke og varði aftur neðst í sama horninu. Diogo var sjötta skytta Liverpool. Hann lék ekki happ úr hendi sleppa og skoraði með skoti neðst út í vinstra hornið! Liverpool áfram í undanúrslit! 

Liverpool: Kelleher, Bradley (Jota 45. mín.), Gomez, Koumetio (Konaté 45. mín.), Tsimikas (Beck 80. mín.), Henderson (Keïta 59. mín.), Morton (Milner 45. mín.), Oxlade-Chamberlain, N. Williams, Firmino og Minamino. Ónotaðir varamenn: Pitaluga, Gordon, Quansah og Woltman.

Mörk Liverpool: Alex Oxlade-Chamberlain (19. mín.), Diogo Jota (68. mín) og  Takumi Minamino (90. mín.). Mörk Liverpool í vítakeppninni: James Milner, Roberto Firmino, Alex Oxlade-Chamberlain, Naby Keita og Diogo Jota.

Gult spjald: Tayler Morton.

Áhorfendur á Anfield Road: 52.020. 


Maður leiksins: Caoimhin Kelleher. Það er eiginlega ekki annað hægt en að velja írska strákinn sem varði tvö víti í vítaspyrnukeppninni. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan