| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Næsti leikur er gegn Tottenham í London. Flautað verður til leiks klukkan 16:30.

Leikurinn er aðeins einn af fjórum leikjum sem eru á dagskrá í þessari umferð en búið er að fresta sex leikjum vegna Covid smita í deildinni. Tottenham hafa sjálfir ekki spilað síðan þann 5. desember en síðustu þrem leikjum hjá þeim hefur verið frestað. Þeir náðu ekki í lið gegn Rennes í Evrópuleik og þurfa líklega að gefa þann leik þar sem ekki tekst að spila hann áður en nýtt ár gengur í garð. Leikjum þeirra gegn Brighton og Leicester var einnig frestað en Leicester leiknum reyndar vegna þess að þeir voru komnir í Covid vandræði en Spursarar klárir í slaginn. Orðrómur hefur verið um að fleiri Liverpool leikmenn séu smitaðir núna og er Jordan Henderson helst nefndur þar á nafn. Ljóst er að okkar menn verða án Virgil van Dijk og Fabinho og sem fyrr eru þeir Divock Origi, Curtis Jones, Adrián, Nat Phillips og Harvey Elliott ekki tiltækir. Við vonum innilega að fleiri smit hafi ekki komið upp því það er alveg nóg í bili að vera án tveggja hryggjarstykkja í vörn og miðju. Tottenham menn eru með níu leikmenn skráða á meiðsla- og veikindalista fyrir leikinn og því ekki gott að segja til um hvernig Antonio Conte stilli upp sínu liði. Þessir níu leikmenn eru Emerson Royal, Sergio Reguilion, Bryan Gil, Heung-Min Son, Oliver Skipp, Lucas Moura, Lo Celso, Dane Scarlett og Christian Romero. Samkvæmt því sem Antonio Conte sagði á blaðamannafundi býst hann við að Reguilion nái einni æfingu fyrir leikinn og þá hefur Lo Celso einnig æft eitthvað eftir meiðsli.

Okkar mönnum hefur gengið alveg ágætlega á útivelli gegn Tottenham síðustu ár og ef við förum sex leiki til baka (allir leikir með Klopp síðan hann tók við) má sjá að síðustu þrír leikir hafa unnist, einn tapast og tveir endað jafnir. En Klopp hefur sennilega aldrei verið eins óviss með mótherjana og nú og viðurkenndi það á blaðamannafundi fyrir leikinn að undirbúningur fyrir leikinn er nánast vonlaus enda svo langt síðan mótherjinn hefur spilað leik. Maður veltir auðvitað fyrir sér hvernig heimamenn koma undan þessari Covid bylgju og það er mjög erfitt að sjá hvort menn séu 100% klárir og hungraðir í að byrja að spila á ný eða hvort þeir séu kannski ekki alveg búnir að ná sér og þurfi tíma til að koma sér í gang. Það er allavega ljóst að staðan er ansi ójöfn því Liverpool hafa jú spilað þétt í þessum mánuði og töluverð orka fór í leikinn gegn Newcastle síðastliðinn fimmtudag.

Eins og áður sagði vonum við innilega að fleiri smit hafi ekki greinst og miðað við þær upplýsingar spái ég óbreyttu byrjunarliði frá síðasta leik. En látum ekki koma okkur á óvart ef Klopp gerir breytingar. Til dæmis gæti Firmino alveg byrjað enda fékk hann nokkrar mínútur í síðasta leik, auk þess er hann með ágætis nef fyrir því að skora gegn Tottenham. Svo gætu þeir Keita og Tsimikas alveg komið inn líka til að gefa Robertson og Thiago hvíld. En þetta kemur jú allt í ljós.

Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool vinnur 1-2 sigur af miklu harðfylgi. Heimamenn verða sprækir frá fyrsta flauti en gestirnir verjast vel og standast áhlaupið, ná svo að skora fyrsta markið í fyrri hálfleik. Í þeim seinni verður forystan tvöfölduð og þegar heimamenn minnka muninn verður of lítið eftir til að þeir nái að jafna metin.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna með 15 mörk í deildinni.

- Heung-Min Son hefur skorað sex mörk í deildinni fyrir Tottenham.

- Sadio Mané spilar líklega sinn 180. deildarleik fyrir félagið.

- Alex Oxlade-Chamberlain gæti spilað sinn 90. deildarleik fyrir félagið.

- Liverpool eru í öðru sæti deildarinnar með 40 stig eftir 17 leiki.

- Tottenham eru í sjöunda sæti með 25 stig eftir 14 leiki.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan