| Sf. Gutt

Til hamingju!


Terry McDermott, fyrum leikmaður Liverpool, á afmæli í dag. Hann var lykilmaður í liði Liverpool á sínum tíma og braut blað í ensku knattspyrnunni.

Terry fæddist í Liverpool 8. desember 1951 og er því sjötugur í dag. Hann hélt með Liverpool frá unga aldri. Terry hóf feril sinn með Bury 1969 og spilaði þar til 1973. Þá gekk hann til liðs við Newcastle United. Hann spilaði eina heila leiktíð með félaginu. Síðasti leikur hans á þeirri leiktíð var úrslitaleikurinn í FA bikarnum og það gegn Liverpool af öllum liðum. Liverpool vann 3:0. 

Það hljóp á snærið hjá Terry í nóvember sama ár þegar Liverpool keypti hann. Segja má að hann hafi þar með komið aftur heim. Honum gekk illa að festa sig í sessi hjá Liverpool fyrstu tvær leiktíðirnar en á keppnistímabilinu 1976/77 sló hann í gegn. Í síðasta leik keppnistímabilsins varð Terry Evrópumeistari þegar Liverpool vann Borussia Mönchengladbach 3:1 í úrslitaleik í Róm. Terry skoraði fyrsta markið í leiknum. 

Terry varð betri og betri á næstu keppnistímabilum. Besta leiktíð hans var 1979/80 en þá var hann kosinn Knattspyrnumaður ársins bæði af fréttamönnum og leikmönnum. Hann braut með þessu blað því leikmaður hafði ekki fyrr unnið báðar þessar viðurkenningar.

Terry yfirgaf Liverpool í september 1982 og gekk til liðs við Newcastle í annan gang. Hann var í tvær leiktíðir hjá Skjórunum og komst með liðinu upp í efstu deild vorið 1984 með vini sínum Kevin Keegan. Hann varð svo aðstoðarmaður Kevin þegar hann tók við sem framkvæmdastjóri Newcastle 1992. Terry starfaði seinna við þjálfun hjá Celtic, aftur hjá Newcastle, Huddersfield Town og Birmingham City.

Terry átti sannarlega glæsilegan feril með Liverpool. Hann varð Englandsmeistari 1975/76, 1976/77, 1978/79, 1979/80 og 1981/82. Deildarbikarinn vann hann 1981 og 1982. Terry var Skjaldarhafi með Liverpool 1976, 1977, 1979 og 1980.

Terry vann Evrópubikarinn þrívegis 1977, 1978 og 1981. Hann vann Evrópukeppni félagsliða 1976 og Stórbikar Evrópu 1977.

Terry McDermott

Terry var frábær miðjumaður. Hann gafst aldrei upp, var skapandi og sem dæmi þá lagði hann upp 57 mörk. Hann lék 329 leiki með Liverpool og skoraði 81 mark sem er stórgott hjá miðjumanni. Terry lék 25 landsleiki með enska landsliðinu og skoraði þrjú mörk. 

Í ágúst greindi Terry McDermott frá því að hann hefði greinst með heilabilun. Hann sagðist í viðtali halda sínu striki svo lengi sem heilsan leyfði. 

Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Terry til hamingju með stórafmælið. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan