| Sf. Gutt

Ray Kennedy látinn


Ray Kennedy, fyrrum leikmaður Liverpool, er látinn. Hann var einn besti leikmaður Liverpool á sínum tíma og átti glæstan feril með félaginu.

Ray fæddist í þorpinu Seaton Delaval á norðaustur Englandi 28. júlí 1951. Hann æfði með Port Vale sem unglingur en fór svo til Arsenal 1968. Þar farnaðist honum vel sem framherji. Hann var í liði Arsenal sem vann Evrópukeppni félagsliða 1970. Á næsta keppnistímabili, 1970/71, vann Arsenal Tvennu deildina og FA bikarinn. Hann skoraði markið sem tryggði Arsenal Englandsmeistaratitilinn. Ray skallaði þá í mark Tottenham Hotspur í 0:1 sigri Arsenal á White Hart Lane. Ray skoraði 26 mörk á þessu magnaða keppnistímabili en svo hallaði heldur undan fæti hjá honum. 

Í júlí 1974 keypti Liverpool Ray frá Arsenal fyrir 200.000 sterlingspund sem var metfé hjá Liverpool. Hann var síðasti leikmaðurinn sem Bill Shankly keypti áður en hann sagði af sér sem framkvæmdastjóri Liverpool. 

Ray Kennedy

Ray Kennedy gekk ekki mjög vel á fyrstu leiktíð sinni hjá Liverpool en náði að skora tíu mörk. Á keppnistímabilinu 1975/76 fór hann að láta meira að sér kveða. Bob Paisley hafði þá fært hann til á vellinum og eftir þetta lék hann á miðjunni mest vinstra megin. Aftur skoraði Ray tíu mörk en nú var hans hlutverk meira að leggja upp mörk. Liverpool varð Englandsmeistari og vann Evrópukeppni félagsliða. 

Á keppnistímabilinu 1976/77 hélt Ray áfram á sömu braut og hann var orðinn lykilmaður í liðinu. Liverpool varði Englandsmeistaratitilinn og vann svo Evrópukeppni meistaraliða eftir 3:1 sigur á Borussia Moenchengladbach í Róm. Liverpool varði Evrópubikarinn vorið eftir þegar liðið vann Brugge 1:0 á Wembley. 

Liverpool vann deildina á leiktíðinni 1978/79 með miklum yfirburðum og Ray skoraði 11 mörk. Mörg skoraði hann með síðbúnum hlaupum inn í vítateiginn. Hann var sérfræðingur að koma seint inn í vítateiginn og skora eða leggja upp. Leikskilningur hans var frábær og allt sem hann gerði virtist hann gera án nokkurs erfiðis. 

Liverpool varð Englandsmeistari 1980 og á leiktíðinni 1980/81 vann liðið Deildarbikarinn í fyrsta skipti eftir sigur á West Ham United í aukaúrslitaleik. Ray hafði nú unnið allt sem hægt var að vinna á Englandi. Vorið 1981 vann Liverpool svo Evrópubikarinn í þriðja sinn eftir 1:0 sigur á Real Madrid í París. Ray lagði upp sigurmarkið fyrir Alan nafna sinn með innkasti! Hann skoraði 13 mörk sem var það mesta sem hann skoraði á einu keppnistímabili hjá Liverpool. 

Leiktíðin 1981/82 var sú síðasta hjá Liverpool. Hann fór til Swansea City í janúar en taldist enskur meistari þar sem hann hafði leikið nógu marga leiki áður en hann fór. Þar lék hann fram í nóvember 1983 en þá gekk hann til liðs við Hartlepool United. Sumarið 1984 fór Ray til Kýpur þar sem hann var spilandi framkvæmdastjóri hjá Pezoporikos. Ray vann bikarkeppni Wales með Swansea 1982.

Ray lék 17 landsleiki með enska landsliðinu. Í þeim leikjum skoraði hann þrjú mörk. Sumir töldu að hann hefði átt að spila fleiri leiki með enska landsliðinu. 

Ray varð fimm sinnum Englandsmeistari með Liverpool og einu sinni með Arsenal. Hann vann Evrópubikarinn þrívegis og Evrópukeppni félagsliða tvisvar. Einu sinni með Liverpool og einu sinni með Arsenal. Ray vann svo FA bikarinn með Arsenal og Deildarbikarinn með Liverpool. Hann vann Stórbikar Evrópu með Liverpool 1977 og var Skjaldarhafi 1976, 1977 (deilt), 1979 og 1980. Lið Liverpoool í kringum 1980 er eitt sterkasta lið sem Liverpool hefur átt að skipa. Ray var lykilmaður í því liði. Um það þarf ekki að deila. Ray Kennedy lék 393 leiki með Liverpool og skoraði 72 mörk. Hann átti 55 stoðsendingar. 

Síðla árs 1986 var Ray Kennedy greindur með Parkinson sjúkdóminn. Alls til dauðadags barðist hann við þennan illvíga sjúkdóm sem fór illa með hann. Sjúkdómurinn var farinn að láta til sín taka síðustu árin sem Ray spilaði. Loks þegar hann var greindur komu skýringar á ýmsu sem hafði hamlað Ray.

Liverpool klúbburinn á Íslandi vottar fjölskyldu og vinum Ray Kennedy samúð sína. Hvíl í friði.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan