| Grétar Magnússon

Landsleikir

Rennum hér yfir síðustu landsleiki sem leikmenn Liverpool spiluðu í þessu landsleikjahléi.

Á mánudagskvöldið gjörsigruðu Englendingar San Marínó 10-0 og tryggðu sér þar með sæti á HM í Katar. Trent Alexander-Arnold spilaði allan leikinn og lagði upp þrjú mörk fyrir liðsfélaga sína.

Skotar sigruðu Dani 2-0 á heimavelli og fara í umspil um laust sæti á HM. Andy Robertson leiddi auðvitað sína menn til leiks sem fyrirliði en var skipt útaf vegna meiðsla þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum. Ekki er ljóst hvort að hann geti spilað næsta deildarleik vegna meiðslanna.

Á þriðjudagskvöldið spiluðu svo Hollendingar úrslitaleik við Norðmenn í G-riðli. Virgil van Dijk var fyrirliði Hollendinga sem sigruðu 2-0 og tryggðu sér þar með þátttökurétt á HM.


Í Cardiff mættust Wales og Belgía þar sem Neco Williams og Divock Origi byrjuðu báðir. Lokatölur voru 1-1 þar sem Williams spilaði allan leikinn en Origi fór útaf eftir klukkutíma. Williams átti mjög góðan leik. Wales fara í umspil um laust sæti á HM.

Fyrr um daginn voru svo þeir Mohamed Salah og Takumi Minamino í eldlínunni með sínum landsliðum. Egyptar sigruðu Gabon 2-1 þar sem Salah kom inná sem varamaður og Minamino spilaði í klukkutíma í 1-0 sigri Japana á Óman.

Í nótt mættust svo Brasilía og Argentína þar sem Alisson og Fabinho spiluðu allan leikinn. Leikurinn endaði markalaus.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan