| Sf. Gutt

Til hamingju!Ian Rush er sextugur í dag. Hann telst einn af allra bestu leikmönnum í sögu Liverpool og enginn hefur skorað fleiri mörk fyrir félagið.


Ian fæddist í þorpinu St Asaph í Wales þann 20. október 1961. Hann hóf feril sinn hjá Chester City en Liverpool keypti hann árið 1980. Ian lék eina leiktíð, 1987/88 með Juventus en kom svo aftur til Liverpool þar sem lék til 1996. Hann fór þá til Leeds United og lék seinna með Newcastle United, Sheffield United, Wrexham og Sydney Olympic í Ástralíu.


Ian átti glæsilegan feril með með Liverpool, lék 660 leiki og skoraði 346 mörk. Til viðbótar átti hann 84 stoðsendingar. Hann varð Englandsmeistari 1982, 1983, 1984, 1986 og 1990. Ian var í sigurliði Liverpool sem vann F.A. bikarinn 1986, 1989 og 1992. Hann skoraði í þessum sigurúrslitaleikjum samtals fimm mörk. Enginn hefur skorað fleiri mörk í úrslitum keppninnar.


Ian varð Deildarbikarmeistari fjögur ár í röð, 1981 til 1984 og vann svo þann bikar í fimmta sinn 1995. Hann vann Evrópukeppni meistaraliða 1984. Ian var líka Skjaldarhafi árin 1982, 1986, 1989 og 1990. Ian lék 73 landsleiki með Wales og skorað 28 mörk sem lengi var landsmet.


Ian var kjörinn Ungi leikmaður ársins af atvinnuknattspyrnumönnum fyrir keppnistímabilið 1982/83. Á leiktíðinni 1983/84 vann Ian Gullskó Evrópu en þá skoraði hann 47 mörk í öllum keppnum. Það er ennþá markamet á einni leiktíð hjá Liverpool. Hann var kjörinn leikmaður ársins bæði af knattspyrnublaðamönnum og atvinnuknattspurnumönnum á þessu magnaða keppnistímabili en þá vann Liverpool Þrennu deild, Deildarbikarinn og Evrópukeppni meistaraliða. 


Sem áður segir er Ian markahæsti leikmaður í sögu Liverpool með 346 mörk. ,,Ég held að markametið mitt verði ekki slegið. Einfaldlega út af því að þú þarft að spila í 14 til 15 ár fyrir sama félagið til að geta það og slíkt hefur ekki gerst síðustu fjögur til fimm árin. Það virðist vera liðin tíð að leikmenn sýni hollustu."


Enginn skoraði fleiri mörk í FA bikarnum á 20. öldinni og hann er næstmarkahæstur í sögu keppninnar með 44 mörk. Ian skoraði 49 mörk í Deildarbikarnum og á markametið í keppninni. Hann var átta sinnum markakóngur Liverpool. Þegar hann vann Gullskó Evrópu leiktíðina 1983/84 var hann markahæstur í ensku deildinni með 32 mörk. Ian fékk viðurnefnið Draugurinn, The ghost, því varnarmenn virtust hreinlega ekki sjá hann fyrr en boltinn lá í netinu. 


Ian Rush var stuttlega framkvæmdastjóri hjá Chester þar sem hann hóf feril sinn og vann við þjálfun hjá Knattspyrnusambandi Wales. Um tíma, á valdatíma Gerard Houllier, leiðbeindi Ian sóknarmönnum Liverpool. Hann er núna sendiherra hjá Liverpool og fer víða um heim sem fulltrúi félagsins. 

Liverpool klúbburinn á Íslandi óskar Ian Rush til hamingju með stórafmælið.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan