| Grétar Magnússon

Stórsigur !

Liverpool vann stórsigur á Watford í fyrsta leik 8. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar. Liðið lék frábærlega og heimamenn sáu aldrei til sólar, lokatölur 0-5.

Byrjunarliðið hjá Jürgen Klopp kom ekki á óvart og var nokkuð líkt því sem spáð var fyrir um hér í upphitun. Caoimhin Kelleher byrjaði í markinu og vörnin var skipuð þeim Trent Alexander-Arnold, Joel Matip, Virgil van Dijk og Andy Robertson. Á miðjunni voru Jordan Henderson, Naby Keita og James Milner. Fremst voru svo þeir Mohamed Salah, Sadio Mané og Roberto Firmino. Hinumegin stillti Claudio Ranieri sínu liði upp í fyrsta sinn og var það líklega það sterkasta sem hann hafði kost á.

Það er skemmst frá því að segja að Ranieri og félagar sáu aldrei til sólar í leiknum því gestirnir tóku öll völd strax frá fyrstu mínútu. Ekki voru nema átta mínútur liðnar þegar fyrsta markið leit dagsins ljós. Heimamenn áttu markspyrnu, Joel Matip vann skallaeinvígi við miðlínuna og boltinn barst upp hægri kantinn þar sem Salah sneri Danny Rose snilldarlega af sér og sendi frábæra utanfótarsendingu fram til Mané sem kláraði færið einstaklega vel. Markið var 100. mark Mané í deildinni. Eftir þetta héldu okkar menn að þjarma að Watford en næsta mark leit ekki dagsins ljós fyrr en á 37. mínútu. Boltinn vannst á miðjunni og Mané lék upp að marki vinstra megin, Milner tók hlaupið innfyrir hann og fékk boltann. Hann var í fínu skotfæri en renndi boltanum hinsvegar fyrir markið þar sem Firmino var á auðum sjó og skoraði. Áður en fyrri hálfleik lauk var Keita svo nálægt því að skora en skot hans fór af varnarmanni og sleikti þverslána á leiðinni yfir markið. Staðan í hálfleik 0-2.

Lítið sem ekkert breyttist í seinni hálfleik og gestirnir bættu við marki á 52. mínútu. Andy Robertson skeiðaði fram völlinn, reyndi sendingu innfyrir á Salah en varnarmaður renndi sér í boltann. Það varð til þess að Foster í marki Watford þurfti að hafa sig allan við að verja og Firmino var fyrstur til að átta sig, hirti lausa boltann og þrumaði honum í markið. Aðeins tveim mínútum síðar ákvað Mohamed Salah þá að taka þátt í markaveislunni og sýndi snilli sína enn og aftur í vítateig mótherjanna. Hann lék sér að varnarmönnunum í teignum, ekki ósvipað og gegn City í síðasta deildarleik. Þeir vissu ekki hvort þeir voru að koma eða fara og þegar skotfærið gafst setti Salah boltann í fjærhornið. Þvílíkur leikmaður sem Salah er og við getum lítið annað en þakkað kærlega fyrir að eiga hann í okkar liði. Eftir þessa veislu í upphafi seinni hálfleiks var sama spilamennska uppá teningnum en gestirnir slökuðu þó aðeins á klónni. Klopp skipti bakvörðunum báðum útaf á 64. mínútu og á þeirri 83. kom Neco Williams inná í fyrsta sinn á leiktíðinni. Hann vildi leggja sitt af mörkum og á lokamínútunum gerði hann vel úti hægra megin í álitlegri sókn, sendi boltann á fjærstöngina þar sem Firmino fullkomnaði þrennuna. Lokatölur 0-5 !Watford: Foster, Femenía (Ngakia, 56. mín.), Cathcart, Troost-Ekong, Rose, Masina (Cleverley, 45. mín.), Dennis (João Pedro, 69. mín.), Kucka, Sissoko, Hernández Suárez, Sarr. Ónotaðir varamenn: Louza, Sema, Gosling, Fletcher, Tufan, Bachmann.

Liverpool: Kelleher, Alexander-Arnold (Oxlade-Chamberlain, 64. mín.), Matip, van Dijk, Robertson (Tsimikas, 64. mín.), Milner (N. Williams, 83. mín.), Henderson, Keita, Salah, Firmino, Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, Konaté, Gomez, Minamino, Jota, Origi.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (8. mín.), Roberto Firmino (37., 52. og 90+1 mín.) og Mohamed Salah (54. mín.).

Áhorfendur á Vicarage Road: 21.085.

Maður leiksins: Ekki létt verk að þessu sinni en við gefum Firmino nafnbótina að þessu sinni fyrir að skora þrennu. 

Jürgen Klopp: ,,Salah er klárlega einn besti leikmaður heims um þessar mundir og fyrir mér er hann sá besti. Þó svo að við tökum markið út þá átti hann frábæran leik í dag og liðið allt auðvitað. Firmino skoraði þrennu og Mané sitt 100. mark í deildinni, þetta eru alltsaman góðar sögur."

Fróðleikur:

- Mohamed Salah skoraði í 8. leiknum í röð, þar af í síðustu sex deildarleikjum.

- Salah hefur nú skorað sjö mörk í deildinni.

- Sadio Mané skoraði sitt 100. úrvalsdeildarmark, 79 af þeim hafa komið fyrir Liverpool.

- Roberto Firmino skoraði sína fyrstu þrennu síðan í desember 2018.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan