| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Landsleikjum er loksins lokið og næsti leikur okkar manna er gegn nýliðum Watford á útivelli. Verður þetta fyrsti leikur 8. umferðar og hefst hann klukkan 11:30 að íslenskum tíma, laugardaginn 16. október.

Það fór auðvitað svo að þetta landsleikjahlé hjó skörð í leikmannahópinn. Jürgen Klopp staðfesti það á blaðamannafundi fyrir leikinn að Alisson og Fabinho muni fljúga beint til Spánar eftir að hafa spilað með landsliði Brasilíu aðfaranótt föstudagsins 15. október. Ástæðan fyrir því að þeir fara beint þangað er sú staðreynd að næsti leikur eftir þennan Watford leik er gegn Atletico Madrid á útivelli og að sögn Klopp koma einhverjar reglur um sóttkví inní þetta líka. Ákvörðunin um að senda þá beint til Spánar var víst tekin fyrir einhverju síðan að hans sögn. Þá meiddist Curtis Jones í verkefni með U-21 árs liði Englendinga og er ekki klár í slaginn. Thiago verður væntanlega ekki tilbúinn heldur þar sem endurhæfing hans gengur eitthvað hægar en talið var upphaflega og Harvey Elliott er auðvitað frá. Góðu fréttirnar eru hinsvegar þær að Trent Alexander-Arnold hóf æfingar að nýju í þessu hléi og Diogo Jota, sem fór meiddur heim frá landsliðshópi Portúgal, er einnig tilbúinn í slaginn. Hjá Watford er Joshua King tæpur, tekin verður ákvörðun með hann eins seint og hægt er og svo eru þeir Christian Kabasele, Francisco Sierralta og Nicolas Nkoulou ekki tiltækir.

Liverpool og Watford hafa mæst alls 7 sinnum á heimavelli síðarnefnda liðsins frá stofnun úrvalsdeildarinnar. Þeim rauðu hefur gengið ágætlega í þessum leikjum en fjórir þeirra hafa unnist, einn endað með jafntefli og tveir tapast. Talan þrír kemur ansi oft fyrir í úrslitum þessara leikja og hefur sigurliðið í þessum leikjum ávallt skorað þrjú mörk fyrir utan eitt skipti þegar 1-0 sigur gestanna vannst (það var reyndar glæsilegt mark með hjólhestaspyrnu frá Emre Can). Síðasti leikur liðanna á Vicarage Road endaði auðvitað 3-0 en þá voru það heimamenn sem stóðu uppi sem sigurvegarar. Var það fyrsta tap okkar manna í deildinni það tímabilið (leikurinn fór fram í febrúar 2020) og Watford menn náðu reyndar ekki að byggja á þessum góðu úrslitum og féllu um vorið. Þeir eru núna mættir aftur í deild þeirra bestu og hafa auðvitað skipt um stjóra nú þegar, eftir aðeins sjö umferðir. Xisco Muñoz var látinn taka pokann sinn eftir aðeins 10 mánuði í starfi og varð þar með sjötti stjórinn síðan í maí 2017 til að vera rekinn. Þetta kom mörgum á óvart enda Watford ekki í fallsæti og hafa svosem staðið sig alveg ágætlega í byrjun tímabils, en þolinmæði stjórnenda félagsins er greinilega ekki mikil og þeir búast við betri árangri. Félagið ákvað að leita til hins glaðlynda Claudio Ranieri og réðu hann til starfa en eins og við þekkjum hefur hann mikla reynslu sem stjóri og þekkir úrvalsdeildina mjög vel. Það er alltaf smá áhyggjuefni þegar okkar menn mæta liði með nýjan stjóra í hans fyrsta leik og Klopp og félagar renna væntanlega nokkuð blint í sjóinn með hvernig leikaðferð Watford manna verður.

Hvað sem þessu öllu líður er áhugaverð viðureign fyrir dyrum. Okkar menn verða án markvarðar númer eitt og talið er líklegast að Kelleher verði í byrjunarliðinu. Vörnin ætti að vera skipuð þeim leikmönnum sem við erum orðin vön að séu þar, Alexander-Arnold, Matip, van Dijk og Robertson en þó gæti það nú alveg verið að van Dijk fái hvíld eftir að hafa spilað töluvert margar mínútur með Hollandi undanfarið. Klopp gæti séð þetta sem leik til að nota Gomez eða Konaté og hafa van Dijk 100% kláran á Spáni í næstu viku. Miðjan segir sig nánast sjálf að þessu sinni enda eru margir miðjumenn frá vegna meiðsla. Henderson, Keita og Milner fá líklega kallið en valið stendur helst á milli Milner og Oxlade-Chamberlain. Frammi verða að öllum líkindum þeir Salah, Mané og Firmino en Jota gæti auðvitað líka fengið sénsinn.



Spáin að þessu sinni er sú að Liverpool vinnur leikinn 1-2. Ranieri nær að brýna sína menn til að gefa allt sem þeir eiga en það mun vonandi ekki duga til. Eigum við ekki að segja að gestirnir komist yfir, heimamenn jafni metin og leikar æsist við það en gestirnir skora sigurmarkið seint í leiknum.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur Liverpool manna í deildinni með sex mörk.

- Ismaila Sarr er markahæstur Watford manna með fjögur mörk.

- Sadio Mané spilar líklega deildarleik númer 170 fyrir Liverpool.

- Alex Oxlade-Chamberlain gæti spilað sinn 80. leik fyrir félagið.

- Liverpool eru í 2. sæti deildarinnar fyrir þennan leik með 15 stig eftir sjö leiki.

- Watford eru í 15. sæti með sjö stig eftir jafnmarga leiki.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan