| Sf. Gutt

Landsleikjafréttir


Yfirstandandi landsleikjahrinu er svo til lokið. Þjóðadeildin var kláruð. Spánn komst í úrslit síðastliðinn miðvikudag eftir 2:1 sigur á Evrópumeisturum Ítala. Daginn eftir unnu heimsmeistarar Frakka Belga 3:2. Leikið var til úrslita á sunnudaginn. Ítalía vann Belgíu 2:1 í leik um þriðja sætið. Frakkland vann svo keppnina eftir 2:1 sigur á Spáni. Mikel Oyarzabal kom Spáni yfir í síðari hálfleik en Karim Benzema jafnaði rétt á eftir. Kylian Mbappe tryggði Frökkum sigur þegar tíu mínútur voru eftir. 

Sadio Mane lék með Senegal í 1:3 sigri á Namibíu. Hann skoraði um daginn þegar sömu lið léku. Senegal vann þann leik 4:1. Mark Sadio var glæsilegt en hann skoraði eftir mikinn einleik. Hann lagði líka upp mark. 

Andrew Robertson var í liði Skota sem mörðu 0:1 sigur á Færeyjum í Þórshöfn í kvöld. Hann átti stórleik þegar Skotar unnu Ísrael 3:2 um helgina og lagði upp tvö mörk. 

Takumi Minamino lék með Japan í 2:1 sigri á Ástralíu. Hann spilaði líka fyrri leik Japana en hann tapaðist 1:0 í Saudí Arabíu. 

Jordan Henderson kom inná sem varamaður í kvöld þegar England og Ungverjaland skildu jöfn 1:1 á Wembley. Tveir fyrrum markmenn Liverpool voru í liðshópi Ungverja. Péter Gulácsi var í markinu og Ádám Bogdán var á bekknum. Péter spilaði reyndar aldrei með aðalliði Liverpool en Ádám gerði það. Roger Hunt og Jimmy Greaves var minnst með lófataki áður en leikurinn hófst. 

Conar Bradley lék báða leiki Norður Íra. Hann var í byrjunarliðinu í kvöld í 2:1 tapi í Búlgaríu. Þetta var í fyrsta sinn sem Conor spilaði í byrjunarliði Norður Íra og fékk hann góða dóma. Í fyrri leiknum kom hann inn sem varamaður. Norður Írar töpuðu þá 2:0 í Sviss. 

Caoimhin Kelleher stóð í marki Íra í kvöld. Írar unnu Kúvæt 4:0 í æfingaleik. Þetta var fyrsti landsleikur hans í byrjunarliði.


Svíþjóð vann Grikkland 2:0. Kostas Tsimikas var í liði Grikklands. Hann lék líka fyrri leik Grikkja sem unnu þá Georgíu 0:2 á útivelli. 

Naby Keita lék með Gíneu sem tapaði 1:4 fyrir Marokkó. Hann spilaði líka fyrri leikinn þegar Gínea og Súdan skildu jöfn 2:2.

Mohamed Salah lék báða leik Egypta. Þeir unnu Líbýu 0:3 úti og áður 1:0 heima.

Holland vann Gíbraltar 6:0 í gærkvöldi. Virgil van Dijk skoraði fyrsta mark leiksins. Hollendingar unnu Letta 0:1 í fyrri leiknum. Virgil lék líka þann leik. 


Wales vann Eistland 0:1 í gærkvöldi. Neco Williams var varamaður. Hann var í byrjunarliðinu í fyrri leiknum og lagði upp mark í 2:2 jafntefli í Tékklandi. Það er gott að Neco er orðinn leikfær en hann var frá um tíma vegna meiðsla fyrr í haust. 

Alisson Becker og Fabinho Tavarez léku báðir í útileikjum gegn Venesúela og Kólumbíu. Brasilía vann 1:3 í Venesúela en hinum leiknum lauk án marka. Það bilaða er að Brasilía á leik eftir og hann fer ekki fram fyrr en aðfararnótt föstudags. Liðið mætir þá Úrúgvæ. Þetta þýðir að þeir Alisson og Fabinho geta ekki leikið með Liverpool á móti Watford en liðin mætast í hádeginu á laugardaginn. Óskiljanleg leikjaniðurröðun!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan