| Heimir Eyvindarson

Steve McManaman

Steve McManaman verður heiðursgestur á árshátíð Liverpoolklúbbsins 9. október. Hér er umfjöllun um kappann sem birtist í Rauða Hernum fyrr á þessu ári.


Steve McManaman var einn dáðasti leikmaður Liverpool á 10. áratugnum, allt þar til hann fór á frjálsri sölu til Real Madrid sumarið 1999. Á þessum tíma var ekki algengt að leikmenn færu milli liða fyrir ekki neitt þótt það sé alvanalegt í dag og margir stuðningsmenn Liverpool áttu erfitt með að fyrirgefa honum viðskilnaðinn, enda súrt að fá ekki krónu fyrir besta mann liðsins. Smátt og smátt hafa stuðningsmenn þó tekið McManaman í sæmilega sátt og minnast frekar snilli hans á vellinum en græðginnar og glamúrlífsins sem þótti einkenna hann um of.

McManaman fæddist í Kirkdale hverfinu í Liverpool í febrúar 1972. Hann hélt með Everton í æsku en gekk til liðs við Liverpool á unglingsárunum. Hann var aðeins 18 ára gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu, en þá kom hann inná  sem varamaður fyrir Peter Beardsley í leik gegn Sheffield United síðla árs 1990. Hann kom við sögu í tveimur leikjum til viðbótar á síðustu leiktíð Kenny Dalglish með liðið, en var síðan hent af öllu afli út í djúpu laugina þegar Graeme Souness tók við liðinu.
 
Á fyrstu leiktíð Souness með Liverpool var John Barnes mikið frá vegna meiðsla og McManaman fékk fyrir vikið fullt af tækifærum. Það er ekki hægt að segja annað en að hann hafi staðið fyllilega undir væntingum því hann lék 51 leik á tímabilinu, skoraði 11 mörk og lagði upp 10. Ekki amaleg tölfræði það hjá tvítugum spóalegg. 
 
Þegar Roy Evans tók við liðinu 1994 fékk Manaman meira frelsi í sókninni og varð meira og minna óstöðvandi. Hann tætti varnir andstæðinganna í sundur, hvort sem var úti á kanti eða inná miðjunni, og var í hópi albestu leikmanna deildarinnar þrátt fyrir ungan aldur. Á EM 1996, sem haldið var á Englandi, var Macca lykilmaður í enska landsliðinu sem komst alla leið í undanúrslit. 
 
Um þetta leyti var enski boltinn að ganga í gegnum miklar breytingar, menn voru t.d. smám saman að átta sig á því að steik í morgunmat og bjór eftir leik var ekki besta leiðin til árangurs. Enskir fótboltamenn höfðu ekkert sérstakt orð á sér úti í hinum stóra heimi, þar með talinn okkar maður og Spice Boys félagar hans í Liverpool sem þóttu duglegir á djamminu og ekki alltaf með fagmennskuna í fyrirrúmi. Það vakti því nokkra athygli þegar helstu stórlið álfunnar fóru að bera víurnar í McManaman sumarið ´96.
 
Þegar samningur Manaman var við það að renna út var Bosman dómurinn, sem kvað á um atvinnufrelsi leikmanna á evrópska efnahagssvæðinu, tiltölulega nýgenginn og eðlilega varð dálítið panik í herbúðum Liverpool. McManaman var í kjörstöðu sem besti og eftirsóttasti leikmaður félagsins og setti fram launakröfur sem honum fannst endurspegla það. Forráðamenn Liverpool óttuðust að það skapaði slæmt fordæmi og kæmi af stað launaskriði sem félagið réði illa við ef gengið yrði að kröfum Macca og svo fór að tilboð frá Barcelona, þriðja tilboð Spánverjanna á einu ári, upp á 12 milljónir punda var samþykkt í ágúst 1997.
 
Til að gera langa sögu stutta hætti Barcelona við á síðustu stundu og þrátt fyrir að tilboðum rigndi yfir Macca var það ekki fyrr en sumarið 1999 sem hann yfirgaf Liverpool og gekk til liðs við Real Madrid. Hann hafði þá gert óbreyttan skammtímasamning við Liverpool og reynt að fá félagið til að samþykkja launahækkun, án árangurs.
 
McManaman var staðráðinn í að standa sig hjá Real. Hann flutti til Madrid snemma sumars 1999, fékk sér íbúð og byrjaði að læra málið. Hann féll vel inn í hópinn og vann sér strax fast sæti í liðinu. Hann varð fyrsti Englendingurinn til að vinna Meistaradeildina með liði utan Englands, þegar Madridarliðið vann Valencia í úrslitaleiknum vorið 2000. McManaman skoraði annað mark Real í leiknum og var einn besti maður vallarins. 
 
Samkeppnin hjá Real var afar hörð, enda valinn maður í hverju rúmi. Ekki minnkuðu gæðin í hópnum sumarið 2000 þegar Florentino Pérez varð forseti félagsins, en hann lofaði að kaupa heimsins bestu leikmenn á hverju sumri, sama hvað það kostaði. Þá um sumarið kom Figo frá Barcelona, 2001 kom Zidane frá Juventus og 2002 kom Ronaldo hinn brasilíski frá Inter. 
 
Í hvert skipti sem ný stjarna bættist við ógnarsterkan hóp Madridarliðsins töldu menn að tækifærum Manaman myndi fækka, en hann hélt áfram að leggja hart að sér og hafði mikið traust Vicente Del Bosque stjóra liðsins. Vorið 2001 vann hann spænsku deildina með Real og aftur 2003. Vorið 2002 komst Real síðan aftur í úrslit Meistaradeildarinnar, þökk sé glæsimarki Manaman í undanúrslitaleiknum gegn erkifjendunum í Barcelona. Hann kom inná fyrir Figo í úrslitaleiknum þar sem Real sigraði Bayer Leverkusen 2-1. 
 
Þrátt fyrir glæsta sigra félagsins undir stjórn Del Bosque (2 La Liga titlar og 2 CL titlar) var hann látinn fara sumarið 2003. Carlos Queiroz tók við af honum og hans fyrsta verk var að kaupa David Beckham. Eftir það varð ljóst að Manaman væri á förum. Leið hans lá til Manchester City, þar sem hann hitti fyrir besta vin sinn og fyrrum Spice Boy, Robbie Fowler. Ferillinn hjá City byrjaði vel, en fjaraði nokkuð hratt út og sumarið 2005 var hann leystur undan samningi eftir fremur slakt gengi innan vallar og aðeins of mikið djamm og rugl utan vallar. 
 
Viðskilnaður McManaman og Liverpool var eins og áður segir umdeildur meðal stuðningsmanna. Margir sökuðu Macca um taumlausa græðgi og vanvirðingu við félagið. Það hjálpaði ekki ímynd McManaman gagnvart stuðningsmönnum að hann var með „alræmdan“ umboðsmann, sjálfan Simon Fuller sem er maðurinn á bak við Idol sjónvarpsþættina, Spice Girls og fleiri poppstjörnur 10. áratugarins, en Manaman var fyrsti íþróttamaðurinn sem Fuller tók að sér. 
 
Margar goðsagnir Liverpool hafa tekið upp hanskann fyrir McManaman og bent á að félagið geti ekki firrt sig ábyrgð á því hvernig fór. Í þeirra hópi eru t.a.m. Roy Evans, Jamie Carragher og Robbie Fowler. Sjálfur hefur McManaman sagt að hann hafi gjarnan viljað vera áfram hjá félaginu, en neitar því heldur ekki að hafa verið spenntur fyrir því að spila fyrir stórlið á meginlandinu. Hvað sem öllu þessu líður verður ekki af honum tekið að hann var frábær knattspyrnumaður og vonandi verður hans fyrst og fremst minnst fyrir það.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan