Stórsigur í Þýskalandi!

Liverpool batt endi á hrakfarir sínar í síðustu fjórum leikjum með stórsigri á Eintracht Frankfurt í Þýskalandi. Liverpool vann 1:5 og nú er að vona að Englandsmeistararnir hfi snúið við blaðinu.
Andre Slot gerði ýmsar breytingar á liðinu eftir tapið um helgina. Mesta athygli vakti að Mohamed Salah var settur á bekkinn. Skipt var um bakverði og Alexander Isak og Hugo Ekitike leiddu sóknina.
Alexander ógnaði tvívegis á tveimur mínútum. Fyrst á 8. mínútu. Hann fékk þá sendingu fram í vítateiginn en markmaður heimamanna kom út á móti og varði. Svo gaf Cody Gakpo á Alexander en markmaðurinn sá aftur við honum. Á 19. mínútu varð Jeremine Frimpong að fara af velli eftir að hafa tognað aftan í læri að því virtist. Conor Bradley kom inn í hans stað.
Sex mínútum seinna gaf Cody fyrir frá vinstri. Hann hitti beint á Conor sem skallaði í jörðina og að marki en Michael Zetterer varði meistaraleg. Enn liðu fimm mínútur og þá jafnaði Liverpool. Sókn Eintracht var brotin á bak aftur. Andrew Robertson komst inn í og var fljótur að átta sig. Hann sendi langa sendingu fram á Hugo. Hann tók strikið fram völlinn, stakk varnarmann af og við vítateigslínuna skoraði hann með öruggu skoti. Stórgóð afgreiðsla hjá Frakkanum sem fagnaði ekki af virðingu við fyrrum stuðningsmenn sína.
Liverpool gekk nú á lagið. Á 39. mínútu tók Cody horn frá hægri. Virgil var sterkur í teignum, kom sér í stöðu og skoraði með föstum skalla á nærstöngina. Liverpool hélt áfram á sömu braut. Fimm mínútum seinna tók Dominik hornspyrnu frá sama stað. Spyrna hans hitti á Ibrahima Konatésem fylgdi dæmi fyrirliðans og hamraði boltann í markið með föstum skalla. Tvær frábærar hornspyrnur og staða Liverpool allt í einu orðin stórgóð eftir þrjú mörk á níu mínútum!
Alexander kom ekki til leiks eftir hlé. Hann fann fyrir eymslum í nára og Federico leysti hann af. Liverpool réði lögum og lofum. Á 66. mínútu gerði Liverpool endanlega út um leikinn hafi það ekki verið frágengið. Hröð sókn endaði með því að Florian Wirtz fékk boltann til hægri. Hann lék inn í vítateiginn og gaf þvert fyrir markið á Cody sem skoraði óvaldaður við markteiginn. Fjórum mínútum seinna kom mark númer fimm. Florian sendi fram á Dominik sem skaut utan vítateigs. Boltinn hafnaði neðst í vinstra horninu óverjandi fyrir Michael. Stórsigur!
Liverpool lék mun betur en í síðustu leikjum og batt enda á taphrinuna sem taldi fjóra leiki. Reyndar lá kannski munurinn frá síðustu leikjum aðallega í því að Liverpool nýtti færi sem gáfust og heppnin sem þarf var með í liði. Vonandi fer nú allt í gang aftur!
Mark Eintracht Frankfurt: Rasmus Kristensen (26. mín.).
Mörk Liverpool: Hugio Ekitike (35. mín.), Virgil van Dijk (39. mín.), Ibrahima Konaté (44. mín.), Cody Gakpo (66. mín.) og Dominik Szoboszlai (70. mín.).
Áhorfendur á Deutsche Bank Park: 58.700.
Maður leiksins: Dominik Szoboszlai. Líkt og svo oft á leiktíðinni var Ungverjinn frábær. Nú lagði hann bæði upp og skoraði.
Fróðleikur
- Hugo Ekitike skoraði sjötta mark sitt á leiktíðinni.
- Hann skoraði þarna á sínum gamla heimavelli.
- Cody Gakpo skoraði í fjórða sinn.
- Virgil van Dijk og Dominik Szoboszlai skoruðu báðir í annað sinn sparktíðinni.
- Ibrahima Konaté opnaði markareikning sinn á keppnistímabilinu.
- Liverpool hefur ekki tapað í síðustu 15 Evrópuleikjum sínum gegn þýskum liðum.
- Markið sem Hugo skoraði var 300. útimark í Evrópusögu félagsins.
-
| Sf. Gutt
Curtis með met! -
| Sf. Gutt
Ryan Gravenberch meiddur -
| Sf. Gutt
Meiðslafréttir -
| Sf. Gutt
Jafnt í fyrsta leik ársins -
| Sf. Gutt
Matt Beard borinn til grafar -
| Sf. Gutt
Af kvennaliðinu -
| Sf. Gutt
Fyrir 15 árum! -
| Sf. Gutt
Landsleikjafréttir -
| Sf. Gutt
Leikjatilfærslur -
| Sf. Gutt
Álfumet hjá Mohamed Salah!

