| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Fyrsti heimaleikur Liverpool á nýju tímabili er gegn Burnley. Leikurinn fer fram laugardaginn 21. ágúst klukkan 11:30.

Það er mikil tilhlökkun í Liverpoolborg því nú mega áhorfendur fylla Anfield í fyrsta sinn í deildarleik síðan 7. mars 2020. Þá sigruðu okkar menn Bournemouth 2-1 og engan óraði fyrir því hversu mikil áhrif heimsfaraldurinn myndi hafa á allt næstu misserin.

En allavega, fyrsti leikur er semsagt gegn Sean Dyche og hans mönnum. Kannski ekki alveg eins spennandi byrjun á tímabilinu og maður hefði viljað enda Burnley ekki skemmtilegasta lið deildarinnar. En það geta ekki allir verið skemmtilegir og Burnley þekkja sín takmörk og vita hvernig þeir geta best unnið leiki.

Jürgen Klopp sat fyrir á blaðamannafundi í dag og þar var auðvitað farið yfir hverjir væri klárir í slaginn og hverjir ekki. Ljóst er að Andy Robertson verður ekki með enda hefur hann enn ekki náð sér af ökklameiðslum sem hann hlaut í æfingaleik. Sömu sögu er að segja af Fabinho en hann verður ekki með af persónulegum ástæðum, faðir hans lést í vikunni og við sendum Brasilíumanninum og fjölskyldu hans okkar dýpstu samúðarkveðjur. Jordan Henderson og Thiago eru svo gott sem klárir í slaginn ef skilja má Klopp rétt og Curtis Jones sömuleiðis. Ekki minnkar því höfuðverkurinn við að spá hverjir byrja á miðjunni í þessum leik. Látum það bara alveg eiga sig að þessu sinni og bíðum eftir því að sjá fréttir af staðfestu liði klukkutíma fyrir leik. Hjá Burnley eru tveir leikmenn á meiðslalista, Dale Stephens og Kevin Long, ekki beint máttarstólpar liðsins og því ætti Dyche að geta stillt upp sínu sterkasta liði eða því sem næst.

Síðasta tímabil var sérstakt auðvitað útaf áhorfendaleysi en við Liverpool menn munum auðvitað eftir hörmungar tímabilinu fljótlega eftir byrjun árs. Það voru einmitt Burnley menn sem hófu þessar hamfarir með því að vinna á Anfield þann 21. janúar, 0-1. Best að skrifa ekki meira um það og það er kannski ekki hægt að segja að menn ætli að leita sér hefnda en það væri jú afskaplega gaman ef þeir rauðu myndu láta sverfa til stáls og sýna pökkuðum Anfield hvernig á að spila almennilegan fótbolta ! Það tókst reyndar að hefna fyrir þessi úrslit á Anfield með því að vinna góðan sigur á Burnley á útivelli seint á tímabilinu þegar á þurfti að halda. Sean Dyche hefur klárlega drillað sína menn vel í vikunni eftir tap í fyrsta leik á heimavelli og þeir verða ekki léttir viðureignar, tefjandi frá fyrstu mínútu og allt það. Klopp hefur að sama skapi fengið góðan tíma með sinn hóp á æfingasvæðinu og maður vonar innilega að spennustigið verði ekki of hátt svona í fyrsta heimaleiknum. Við sjáum hvað setur.

Spáin að þessu sinni er sú að okkar menn vinna fínan 2-0 sigur með marki í sitthvorum hálfleiknum. Mohamed Salah hefur ekki verið iðinn við kolann gegn Burnley í gegnum tíðina, aðeins skorað eitt mark gegn félaginu en hann setur bæði mörk leiksins.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah hefur skorað 96 mörk í 146 deildarleikjum fyrir Liverpool.

- Trent Alexander-Arnold hefur nú spilað 130 deildarleiki fyrir félagið og 180 leiki alls í öllum keppnum.

- Diogo Jota hefur spilað 20 deildarleiki fyrir Liverpool og skorað í þeim 10 mörk.

- Sadio Mané mun að öllum líkindum spila sinn 220. leik fyrir Liverpool í öllum keppnum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan