| Grétar Magnússon

Tvöfaldur sigur

Okkar menn mættu ítalska liðinu Bologna í tveim klukkutíma löngum leikjum í Frakklandi í dag. Liverpool vann báða leikina. 

Byrjunarliðið var þannig skipað í fyrri leiknum: Kelleher, Alexander-Arnold, Matip, Van Dijk, Robertson, Milner, Keita, Elliott, Jota, Mané, Salah. Varamenn: Karius, Pitaluga, R. Williams, Woodburn, Beck.

Leikurinn vannst 2-0 og skoruðu þeir Diogo Jota og Sadio Mané mörkin sem komu bæði eftir mjög góða pressu á varnarmenn Bologna. Virgil van Dijk spilaði 43 mínútur í leiknum og eru það auðvitað góðar fréttir.



Í seinni leiknum var byrjunarliðið skipað eftirtöldum leikmönnum: Alisson, N. Williams, Konate, Gomez, Tsimikas, Fabinho, Jones, Oxlade-Chamberlain, Shaqiri, Minamino, Firmino. Varamenn: Adrian, Origi, Phillips, Gordon, Woodburn, Beck, Clarkson.

Leikurinn vannst 1-0 og skoraði Takumi Minamino markið eftir frábæra sendingu innfyrir frá Xerdan Shaqiri, Japaninn kláraði færið vel og þrumaði boltanum í netið viðstöðulaust. Í seinni hálfleik skaut Divock Origi svo í stöng úr vítaspyrnu. Joe Gomez spilaði 44 mínútur og brasilísku félagarnir Alisson, Fabinho og Firmino spiluðu sínar fyrstu mínútur á undirbúningstímabilinu.

Búningur okkar manna vakti upp nokkrar spurningar en eins og sjá má á myndinni voru stuttbuxurnar svartar og sokkarnir hvítir. Ástæðan er sú að upphaflega planið var að spila í varabúningunum sem þóttu svo of líkir treyjum Bologna. Tíminn var ekki að vinna með okkar mönnum og því tókst ekki að sækja rauðu stuttbuxurnar og sokkana í tæka tíð.

Jürgen Klopp og hans menn halda nú heim á leið og spila næstu tvo leiki á Anfield, eftir að hafa verið næstum því heilan mánuð í Austurríki og Frakklandi. Það styttist heldur betur í að enska deildin byrji !

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan