| HI

Liverpool í Ofurdeildina - mikil óánægja

Í gærkvöld sendu tólf félög í Evrópu frá sér yfirlýsingu þar sem tilkynnt var að þau hefðu samþykkt að stofna Ofurdeild Evrópu. Leikir í henni færu fram í miðri viku. Í yfirlýsingunni, sem var meðal annars birt á heimasíðu Liverpool FC, kemur fram að félögin hlakki til viðræðna við UEFA og FIFA um samstarf um hvernig deildin og fótboltinn í heild komi best út úr þessu.

Félögin sem ætla að stofna þessa deild eru, auk Liverpool: AC Milan, Arsenal, Atletico Madrid, Chelsea, Barcelona, Inter Milan, Juventus, Manchester City, Manchester United, Real Madrid og Tottenham. Frönsk og þýsk lið neituðu að taka þátt og því eru t.d. PSG og Bayern München ekki á þessum lista.

Í yfirlýsingunni er stofnun deildarinnar réttlætt með því að heimsfaraldurinn hafi gert fjárhagslegt umhverfi knattspyrnunnar óstöðugra. Að auki hafi félögin undanfarin ár unnið að því að gera yfirstandandi keppnir betri og útbúa form sem gerir bestu félögunum kleift að keppa reglulega. Faraldurinn hafi hins vegar sýnt að það þurfi að finna sjálfbæra markaðsleið til að auka verðgildi fótboltans í heild. Rætt hafi verið við frammámenn í fóltboltanum í Evrópu en þær lausnir sem þar hafi komið fram leysi ekki vandann, til dæmis þörfina fyrir góða leiki og tekjulindir fyrir allan fóltboltann.

Þessa moðsuðu mætti þýða í einni setningu: Við fáum ekki nóga peninga, og teljum okkur græða meira á þessari ofurdeild því þá þurfum við ekki að keppa eins oft við einhver smálið.

Hugmyndin að keppnisforminu er að 20 lið taki þátt - 15 stofnlið og fimm til viðbótar sem geti komist inn eftir gengi þeirra heima fyrir. Liðin spili í tveimur tíu liða riðlum, heima og heiman, þrjú efstu lið hvors riðils komist í átta liða úrslit en liðin í fjórða og fimmta sæti riðlanna fari í sérstakt umspil um hin tvö sætin. Leikið verði heima og heiman í 8 og 4 liða úrslitum og úrslitaleikurinn verði svo á hlutlausum velli. Til stendur að stofna sams konar deild fyrir kvennaknattspyrnuna.

Það er óhætt að segja að þessar fréttir hafi fallið í grýttan jarðveg - og skal engan undra. Flestir gagnrýnendur telja að með þessu séu félögin að fjarlægjast grasrótina og stuðningsmennina. Knattspyrnusamband Evrópu segir að í samstarfi við deildirnar og knattspyrnusamböndin - til að mynda enska knattspyrnusambandið og ensku úrvalsdeildina, verði allt gert til að koma í veg fyrir þessi áform. Keppnir í íþróttum eigi að byggjast á íþróttagetu og engu öðru.

Hér má svo sjá nokkur önnur viðbrögð við þessum tíðindum:

„Þessi tillaga er algjörlega sálarlaus.“ Danny Murphy.

„FSG (eigendur Liverpool FC) hafa hundsað stuðningsmennina í endalausri og gráðugri leit að peningum. Við eigum fótboltann, ekki þeir. Þetta er okkar félag, ekki þeirra.“ Spirit of Shankly.

„Mér er misboðið með því að Liverpool styðji þessa skammarlegu Ofurdeild - stuðningsmenn munu einfaldlega ekki láta fyrirætlanir sem stefna í hættu þeim grunni sem félagið byggir á í hættu.“ Jamie Carragher.

Fleira mætti tína til, og allt er í þessum dúr.

Vonandi verður ekkert úr þessu, en hætt er við að yfirlýsingin sem slík hafi þegar valdið skaða sem erfitt verði að bæta úr. Liverpoolklúbburinn á Íslandi mótmælir þessum áætlunum harðlega.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan