| Grétar Magnússon

Enn eitt tapið

Enn og aftur tapar Liverpool á heimavelli og útlitið í deildinni orðið ansi svart.

Liðsuppstilling Jürgen Klopp vakti vonir um betri tíð í meiðslamálum en Fabinho sneri aftur í byrjunarliðið ásamt Alisson og Diogo Jota settist á bekkinn. Að öðru leyti var liðið óbreytt frá síðasta leik. Fyrri hálfleikur var nokkuð fjörugur en það voru aðallega gestirnir sem sáu um að skapa færin, eins og oft áður var okkar mönnum ekkert ágengt á síðasta þriðjungi vallarins. Timo Werner hefði átt að gera betur eftir korters leik þegar hann fékk háa sendingu inná teiginn og var ekki rangstæður, hann virtist hinsvegar ekki gera sér grein fyrir því að hann hafði meiri tíma og Alisson greip laust skot hans. Á 24. mínútu skoraði svo Werner eftir að hafa fengið háa sendingu innfyrir alltof háa varnarlínu Liverpool. Alisson kom út á móti en náði ekki boltanum og Þjóðverjinn setti boltann í autt markið. En þá fór myndbandsdómgæslan að teikna sínar víðfrægu línur og komust að því að Werner var rangstæður, markið því dæmt af.

Sadio Mané fékk úrvals færi eftir sendingu frá Salah en Mané náði bara alls ekki neinni snertingu við boltann og Mendy í marki Chelsea þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að ná boltanum. Þrem mínútum fyrir hálfleik skoraði svo Mason Mount eina mark leiksins þegar hann fékk langa sendingu upp vinstri kantinn, fékk að leika óareittur inná teiginn og þruma í fjærhornið, óverjandi fyrir Alisson en spurningamerki sett við varnarleik Fabinho og samherja hans í þessu. Staðan 0-1 í hálfleik og við þurfum ekkert að spá of mikið í það hvernig restin af leiknum myndi spilast.

Chelsea héldu áfram að fá bestu færin og Hakim Ziyech komst næst því að skora þegar hann átti skot úr teignum en Robertson bjargaði á línu. Werner fékk svo fínt færi vinstra megin í teignum en Alisson gerði vel, kom út á móti og varði. Hinumegin var ekkert að frétta og tölfræði leiksins ber þess greinileg merki því okkar menn áttu aðeins eitt skot allan leikinn sem hitti á rammann. Það hefði kannski vel verið hægt að dæma víti þegar Firmino skaut boltanum greinilega í hönd Kanté í teignum en myndbandsdómgæslan hafði engan áhuga á því að dæma víti, eitthvað sem við erum farin að kannast ágætlega við. Skiptingar Klopp breyttu engu í leiknum og helsta umræðan snýst um það hversu fúll Salah var með að vera tekinn af velli eftir rétt rúmlega klukkutíma leik. Lokatölur 0-1 og fimmta tapið í röð á heimavelli staðreynd, þetta fer nú að verða gott !


Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Fabinho, Kabak, Robertson, Thiago (Milner, 80. mín.), Wijnaldum, Jones (Jota, 62. mín.), Salah (Oxlade-Chamberlain, 62. mín.), Firmino, Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, R. Williams, N. Williams, Keita, Shaqiri, Origi.

Chelsea: Mendy, Azpilicueta, Christensen, Rüdiger, James, Kanté, Jorginho, Chilwell, Ziyech (Pulisic, 66. mín.), Mount (Kovacic, 81. mín.), Werner (Havertz, 90. mín.). Ónotaðir varamenn: Arrizabalaga, Alonso, Zouma, Emerson, Hudson-Odoi, Giroud.

Mark Chelsea: Mason Mount (42. mín.).

Maður leiksins: Eins og gefur að skilja er það ekki hægt að þessu sinni. Þetta andleysi á heimavelli er orðið vel þreytt.

Jürgen Klopp: ,,Þið sáuð leikinn, hann var jafn og mikið að gerast. Við létum þá gera mistök, þeir létu okkur gera mistök. Þeir nýttu okkar mistök en við ekki þeirra. Það kæmi á óvart ef við myndum spila Chelsea út úr leiknum en við vorum inní leiknum engu að síður. Það er bara pirrandi að tala enn og aftur um sömu hlutina. Þetta er erfitt. Við verðum að berjast í gegnum þetta."

Fróðleikur:

- Liverpool eru fyrsta titilvarnarliðið í sögunni til að tapa fimm heimaleikjum í röð.

- Okkar menn hafa bara náð í 10 stig í síðustu 11 leikjum á árinu. Aðeins WBA, Newcastle og Southampton hafa fengið færri stig.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan