| Grétar Magnússon

Leikmaður ársins

Jordan Henderson hefur verið útnefndur sem leikmaður ársins af samtökum íþróttafréttamanna á Englandi. Það er vel við hæfi að fyrirliðinn hljóti þessi virtu verðlaun aðeins tveim dögum eftir að hafa lyft Englandsmeistara bikarnum í fyrsta sinn í 30 ára sögu félagsins.

Henderson fékk meira en fjórðung atkvæða í kjörinu þar sem Liverpool menn voru áberandi en einnig fengu þeir Kevin De Bruyne og Marcus Rashford töluvert af atkvæðum.

,,Ég vil koma því á framfæri hversu þakklátur ég er þeim sem kusu mig að þessu sinni. Það er nóg að líta yfir nöfn þeirra sem hafa unnið þessi verðlaun í gegnum tíðina til að sjá hversu virt þessi verðlaun eru, ég hef verið svo heppinn að fá að spila með nokkrum á listanum eins og Stevie (Gerrard), Luis (Suarez) og Mo (Salah)."

,,En sama hversu þakklátur ég er þá líður mér ekki eins og ég geti tekið við þessu einn og óstuddur. Mér líður ekki eins og það sem ég hef áorkað á tímabilinu eða í raun heilt yfir á mínum ferli sé eitthvað sem ég hafi gert einn. Ég á í þakkarskuld við mikið af fólki - en þó mest þakka ég liðsfélögum mínum - sem hafa verið hreint ótrúlegir á tímabilinu og eiga þetta alveg jafn skilið og ég."

,,Við höfum náð þessu með því að hver og einn einasti meðlimur hópsins hefur verið stórkostlegur. Ekki bara í leikjunum sjálfum. Ekki bara í því að gera eitthvað magnað úti á vellinum sem býr til fyrirsagnir heldur á hverjum degi á æfingum. Þeir leikmenn sem hafa byrjað flesta leiki á tímabilinu hafa staðið sig svona vel vegna þess hvernig menningin og umhverfið er á Melwood. Enginn einn ber ábyrgð á því, þetta er eitthvað sem við sköpum allir saman og þannig lít ég á að ég taki við verðlaununum."

,,Ég tek við þeim fyrir hönd alls leikmannahópsins, vegna þess að án þeirra væri ég ekki að taka við þessum verðlaunum. Þessir strákar hafa gert mig að betri leikmanni - betri leiðtoga og betri persónu. Ég vona svo sannarlega að þeir sem kusu mig hafi gert það að hluta til að viðurkenna framlag alls liðsins."

,,Einstaklingsverðlaun eru fín og þessi hér eru sérstök fyrir mig. En einstaklingsverðlaun án sameiginlegs átaks og árangurs alls hópsins myndi ekki þýða eins mikið fyrir mig."

Henderson hefur svo sannarlega risið upp úr öskustónni á Anfield og undanfarin ár hafa hreint út sagt verið ótrúleg fyrir hann. Leiðtogahæfileikar hans eru nú óumdeildir hjá félaginu og hann er sá sem leiðir liðið í gegnum súrt og sætt. Undanfarið rúmt ár hefur hann svo lyft hverjum bikarnum á fætur öðrum, uppskera sem er allir geta samglaðst honum með.

Í deildinni spilaði hann alla leiki liðsins en meiðsli komu í veg fyrir að hann geti tekið þátt í síðustu fjórum leikjunum, fram að því hafði hann skorað fjögur mörk og lagt upp fimm. Liðið hefur unnið 31 af 37 leikjum tímabilsins og er með 18 stiga forystu fyrir lokaumferðina.

Þegar kórónuveiru faraldurinn stóð sem hæst á Englandi lét hann sitt ekki eftir liggja, hjálpaði matarbönkum á Merseyside og átti stóran þátt í því að leikmenn úrvalsdeildar tóku sig saman og bjuggu til #PlayersTogether til að styðja við bakið á heilbrigðisstarfsmönnum sem unnu í fremstu línu.

Henderson er tólfti leikmaður félagsins sem hlýtur þessi virtu verðlaun á eftir Ian Callaghan (1974), Kevin Keegan (1976), Emlyn Hughes (1977), Kenny Dalglish (1979 og 1983), Terry McDermott (1980), Ian Rush (1984), John Barnes (1988 og 1990), Steve Nicol (1989), Steven Gerrard (2009), Luis Suarez (2014) og Mohamed Salah (2018).




TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan