| Sf. Gutt

Seigla skilaði sigri


Enn og aftur sýndu leikmenn Liverpool seiglu og herjuðu fram sigur. Liverpool vann Aston Villa 2:0 á Anfield Road. Ungliði innsiglaði sigurinn í lok bestu helgi lífs síns!

Jürgen Klopp var ekki skemmt eftir skellinn fyrir fráfarandi meisturum Manchester City á fimmtudagskvöldið. Hvort það var ástæðan fyrir þremur breytingum á byrjunarliðinu þá komu Divock Origi, Alex Oxlade-Chamberlain og Naby Keita inn í liðið. Jordan Henderson, Roberto Firmino og Georginio Wijnaldum viku úr liðinu. Reyndar sagði Jürgen að að stutt væri í næsta leik og það þyrfti að passa upp á menn. 

Leikmenn Aston Villa, sem eru í harðri fallbaráttu stóðu heiðursvörð fyrir nýju meistarana fyrir leikinn. Það var falleg sjón þó svo að Anfield væri tómur. Nýr borði í Sir Kenny Dalglish stúkunni sagði söguna alla. ,,Liverpool FC - Meistarar á nýjan leik."

Það var þó ekki nokkur meistarabragur á Liverpool í fyrri hálfleik. Reyndar var Liverpool mikið með boltann en leikmenn Aston Villa börðust eins og ljón. Leikmenn Liverpool náðu ekki vel saman og leikur liðsins hægur. Varla var hægt að nefna eitt einasta marktækifæri. Bæði Alisson Becker og Jose Reina, sem var á fornum slóðum, höfðu það náðugt í sólinni. 

Gestirnir byrjuðu seinni hálfleikinn vel og á 52. mínútu átti Anwar El Ghazi skot sem Alisson. Á 61. mínútu taldi Jürgen tími til kominn að hrista upp í liðinu. Fastamennirnir þrír sem voru settir á bekkinn voru sendir til leiks. Leikur liðsins batnaði strax og tíu mínútum seinna komst Liverpool yfir. Trent Alexander-Arnold fékk boltann inni á miðjunni á miðjum vallarhelmingi Villa og sendi út til hægri á Naby Keita. Hann leit upp og sá Sadio Mané í færi. Nákvæm sending hans fór þangað sem til stóð. Sadio tók viðstöðulaust skot, við markteiginn, sem fór í þverslá og inn óverjandi fyrir Jose. Glæsilegt mark!

Liverpool náði nú skiljanlega fastatökum á leiknum og það dró af gestunum. Roberto Firmino átti fast skot frá vítateignum litlu síðar en Jose varði. Liverpool vildi fá víti þegar varnarmaður hafði hönd á Mohamed Salah. Ekkert var dæmt frekar en þegar Mohamed var komið úr jafnvægi inni í vítateig í fyrri hálfleik. 


Curtis Jones kom inn á sem varamaður þegar fimm mínútur voru eftir. Í gær fékk hann nýjan samning við Liverpool og hann fagnaði honum með því að gera út um leikinn þegar ein mínúta var til leiksloka. Curtis hóf sóknina sjálfur við miðjuna og fór svo fram völlinn. Hann sendi á Jordan sem gaf út til vinstri á Andrew Roberton. Skotinn sparkaði boltanum yfir á fjærstöng á Mohamed sem skallaði til baka á Curtis sem var kominn inn í vítateiginn og skoraði laglega. Líklega er ekki hægt að hugsa sér betri helgi fyrir strák sem hefur alltaf haldið með Liverpool. Í gær samningur. Í dag mark sem innsiglaði sigur nýju Englandsmeistaranna!

Alisson sem var búinn að vera öryggið uppmálað passaði svo upp á hreint mark með því að verja frábærlega í viðbótartíma. Jack Grealish komst í skotfæri vinstra megin og átti fast skot sem stefndi neðst í hornið en Brasilíumaðurinn varði frábærlega. 

Sigur vannst með seiglu. Ekki í fyrsta skiptið á þessari leiktíð. En svona sigrar eru jafn mikilvægir og stórir og öruggir sigrar. Svona verða lið meistarar!

Liverpool: Alisson, Alexander-Arnold, Gomez, van Dijk, Robertson (Williams 90. mín.), Oxlade-Chamberlain (Wijnaldum 61. mín.), Fabinho (Henderson 61. mín.), Keita (Jones 85. mín.), Salah, Origi (Firmino 61. mín.) og Mané. Ónotaðir varamenn: Adrián, Minamino, Shaqiri og Elliott.

Mörk Liverpool: Sadio Mané (71. mín.) og Curtis Jones (89. mín.).

Gult spjald: Andrew Robertson.

Aston Villa: Reina, Konsa, Hause, Mings, Taylor, El Ghazi (Jota 74. mín.), Douglas Luiz, McGinn, Trézéguet (Vassilev 85. mín.), Grealish og Davis (Samatta 74. mín.). Ónotaðir varamenn: Nyland, Lansbury, Nakamba, Hourihane, Guilbert og El Mohamady.

Gult spjald:
John McGinn.

Áhorfendur á Anfield Road: Engir.  

Maður leiksins:
Sadio Mané. Senegalinn braut ísinn í góða veðrinu og lagði grunn að sigri. Hann var alltaf að reyna að skapa usla í vörn Villa og sýndi enn einu sinni hversu frábær hann er.  

Jürgen Klopp: Við einbeitum okkur bara að leiknum sem liggur fyrir og það kemur ekki til með að breytast. Við komum ekki til leiks með einhver met í huga. Þá værum við ekki með svona mörg stig. Það yrði frábært að ná að afreka eitthvað einstakt en við erum ekki mikið að spá í slíkt.

Fróðleikur.

- Þetta var fyrsti leikur Liverpool á Anfield Road eftir að Englandsmeistaratitillinn var innsiglaður. 

- Sadio Mané skoraði 20. mark sitt á leiktíðinni. 

- Þetta er þriðja leiktíðin í röð sem hann nær þeim markafjölda. 

- Markið var það sjötta á móti Villa í fimm leikjum. 

- Markið var það 50. sem Sadio hefur skorað á Anfield í öllum keppnum. Alls hefur hann skorað 79 mörk fyrir Liverpool.  

- Curtis Jones skoraði þriðja mark sitt á keppnistímabilinu. 

- Markið sem Curtis skoraði var númer 300 sem Liverpool skorar á Anfield í valdatíð Jürgen Klopp. Mörkin hafa komið í 127 leikjum.

- Um leið og Curtis skoraði höfðu 17 leikmenn skorað fyrir Liverpool á keppnistímabilinu. Það er jöfnun á félagsmeti. Þetta gerðist áður á sparktíðunum 1911/12 og 2015/16.  

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan