| Sf. Gutt

Vill enda ferilinn hjá Liverpool!


Andrew Robertson dreymir um að enda knattspyrnuferil sinn hjá Liverpool. Skotinn segir að það geti þó orðið erfitt að uppfylla þann draum. Hann á sér þó fyrirmynd til að miða við! 

,,Draumur minn er að enda knattspyrnuferilinn hjá Liverpool. Það verður nokkuð erfitt að uppfylla þann draum en það myndi ég vilja allra helst. Ef ég næði að halda mér áfram í því formi sem ég er í fram á þann aldur James Milner er á núna þá yrði ég hæstánægður með að leggja skóna á hilluna þegar þar væri komið við sögu."

Andrew æfði með Celtic, sem var uppáhaldsliðið hans, þegar hann var strákur en var látinn fara þaðan vegna þess að hann þótti svo lítill. Hann byrjaði atvinnumannaferil sinn hjá Queen's Park og fór svo til Dundee United. Andrew hefur sterkar taugar til Celtic þó hann hafi verið látinn fara frá félaginu.

,,Ég hef alltaf sagt að það yrði gaman að klæðast búningi Celtic. Ég spilaði auðvitað með Dundee United og það var mjög gaman. Maður skyldi aldrei útiloka neitt."

,,Ferillinn er í raun ekki langur og mig langar að spila eins lengi og ég mögulega get. Það kæmi alveg til greina að enda í Skotlandi. Draumurinn er þó að ljúka ferlinum hjá Liverpool eftir að hafa bætt nokkrum fleiri titlum í safnið!"


Árið 2014 fór Andrew frá Dundee United, þar sem hann lék eina leiktíð líkt og hjá Queen's Park, og gekk til liðs við Hull City. Sumarið 2017 nældi Liverpool í Andrew og Skotinn hefur verið frábær. Hann er nú 26 ára og hver veit nema hann geti haldið stöðu sinni hjá Liverpool næstu sjö árin eða svo!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan