| Sf. Gutt

Sadio Mané kjörinn Knattspyrnumaður Afríku!


Sadio Mané var í kvöld kjörinn Knattspyrnumaður Afríku 2019. Senegalinn hefur verið framúrskarandi síðustu misseri og verðskuldar þessa viðurkenningu fyllilega. Mohamed Salah og Riyad Mahrez leikmaður Manchester City komu næstir Sadio. Mohamed vann þetta kjör síðustu tvö árin. Verðlaunaafhendingin fór fram í Egyptalandi. Sadio hefur verið meðal þriggja efstu manna í kjörinu síðustu þrjú árin. Hann er annar Senegala til að vera kosinn Knattspyrnumaður Afríku á eftir  El Hadji Diouf, fyrrum leikmanni Liverpool, sem varð hlutskarpastur 2002. 

Sadio var skiljanlega ánægður með þessa viðurkenningu. ,,Ég er mjög ánægður og stoltur að hafa unnið þetta. Knattspyrna er starfið mitt og ég nýt þess út í ystu æsar. Mig langar að þakka fjölskyldu minni, landsliðinu, starfsfólki þess, knattspyrnusambandinu og Liverpool Football Club. Þetta er stór dagur fyrir mig!"


Sadio lék stórt hlutverk hjá Senegal í fyrrasumar þegar liðið komst í úrslit Afríkukeppninnar. Senegal mætti Alsír í úrslitaleik og lék mjög vel en mátti þola 1:0 tap sem var ósanngjarnt miðað við gang leiksins. 


Liverpool átti þrjá fulltrúa í liði ársins 2019. Liðið er skipað þessum leikmönnum. Andre Onana (Ajax/Kamerún), Achraf Hakimi (Borussia Dortmund/Marokkó), Kalidou Koulibaly (Napoli/Senegal), Joel Matip (Liverpool/Kamerún), Serge Aurier (Tottenham/Fílabeinsströndin), Riyad Mahrez (Manchester City/Alsír), Idrissa Gana Gueye (Paris St-Germain/Senegal), Hakim Ziyech (Ajax/Marokkó), Mohamed Salah (Liverpool/Egyptaland), Sadio Mane (Liverpool/Senegal) og Pierre-Emerick Aubameyang (Arsenal/Gabon).


Sadio Mané er búinn að spila 151 leik fyrir Liverpool og skora 74 mörk frá því hann kom frá Southampton sumarið 2016. Hingað til á leiktíðinni er Sadio búinn að skora 15 mörk. Hann deildi markakóngstitli í Úrvalsdeildinni á síðasta keppnistímabili með þeim Mohamed Salah og Pierre-Emerick Aubameyang eftir að hafa skorað 22 mörk. 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan