| Sf. Gutt

Draumamark tryggði ógleymanlegan sigur á Everton!Liverpool vann einn magnaðasta sigur á Everton í sögu grannaleikja liðanna. Lið Liverpool var að mestu skipað ungum og efnilegum leikmönnum en vann samt sigur á sterkasta liði Everton. Liverpool vann 1:0 á Anfield og heldur áfram í FA bikarnum!

Jürgen Klopp var búinn að segja að hann yrði að breyta liði sínu mikið fyrir þennan leik. Hann myndi langa til að stilla upp sínum bestu mönnum en gæti það ekki eftir stífa leikjadagská síðasta mánuðinn. Það gerði Everton á hinn bóginn. Liverpool var reyndar með sex leikmenn í byrjunarliðinu sem gátu talist leikreyndir en hinir óreyndir. Þeir Takumi Minamino og Nathaniel Phillips spiluðu í fyrsta sinn með Liverpool. 

Everton var sterkara liðið fyrsta kastið eins og við mátti búast. Á 6. mínútu átti Dominic Calvert-Lewin skot úr vítateignum en Adrián San Miguel varði vel með öðrum fætinum. James Milner meiddist í aðdraganda færisins og varð að fara af velli. Unglingurinn Yasser Larouci leysti hann af hólmi og við það lækkaði meðalaldurinn í liðinu talsvert! Adam Lallana tók við fyrirliðabandinu og átti stórleik!

Um sex mínútum seinna svaf vörn Liverpool á verðinum eftir aukaspyrnu en skalli Mason Holgate úr upplögðu færi fór beint á Adrián. Á 27. mínútu átti Richarlison skot úr miðjum teig eftir fyrirgjöf en aftur varði Adrían stórvel með fæti. 

Leikmenn Liverpool unnu sig betur inn í leikinn og á 34. mínútu átti Divock Origi sendingu inn í vítateiginn frá vinstri en Takumi Minamino náði ekki að skalla boltann í góðu færi. Divock var aftur á ferðinni fjórum mínútum fyrir hlé þegar hann lék sig í skotstöðu í vítateignum en Jordan Pickford varði vel neðst í horninu. Markalaust í hálfleik.

Strax í uphafi síðari hálfleiks má segja að Liverpool hafi náð undirtökunum. Reyndari leikmenn drógu vagninn en þeir yngri urðu öruggari með hverri mínútunni sem leið. Á 52. mínútu lék Neco Williams fram að vítateignum og skaut föstu skoti sem Jordan varð að taka á við að verja. Styrkur Liverpool jókst og liðið hélt boltanum tímunum saman. Á 70. mínútu tók Divock langskot sem Jordan varði. 

Mínútu síðar léku Divock og Curtis Jones saman við vinstra vítateigshornið. Curtis sendi inn í vítateiginn á Divock sem gaf til baka á Curtis. Unglingurinn lagði boltann boltann fyrir sig og þrumaði honum svo með fallegu bogaskoti upp í vinkilinn fjær. Boltinn small í þverslánni og þeyttist þaðan inn í markið. Draumamark og allt sprakk af fögnuði hjá stuðningsmönnum Liverpool! Mark ársins og jafnvel keppnistímabilsins. Ótrúlegt augnablik sem mun aldrei gleymast þeim sem til sáu! 

Liverpool hélt sínu til leiksloka og reyndar ógnaði Everton aldrei! Barátta og yfirvegun leikmanna Liverpool var til fyrirmyndar og sóma. Fögnuðurinn á Anfield var mikill þegar flautað var til leiksloka. Trúlega væntu margir stuðninsmenn Everton sigurs gegn ungliðum Liverpool en annað kom á daginn! Fullkomið síðdegi á Anfield hvernig sem á er litið!

Liverpool hefur unnið 95 leiki á móti Everton í öllum keppnum frá því liðin leiddu fyrst saman hesta sína. Þessi sigur Liverpool fer beinustu leið í flokk glæstustu sigra Liverpool af þessum 95 sigrum. Þá er mikið sagt en staðreyndin er sú að þessi sigur mun ekki falla í gleymsku svo lengi sem stuðningsmenn Liverpool hugsa til sigra á Everton!

Liverpool: Adrian; Williams, Phillips, Gomez, Milner (Larouci 8. mín.); Chirivella; Lallana, Jones; Eliott (Brewster 79. mín.), Minamino (Oxlade-Chamberlain 70. mín.) og Origi. Ónotaðir varamenn: Kelleher, Mané, Henderson og Hoever.

Mark Liverpool: Curtis Jones (71. mín.).

Everton: Pickford; Coleman (Kean 62. mín.), Mina, Holgate, Digne; Sidibe, Schneiderlin, Sigurðsson (Delph 62. mín.), Richarlison; Walcott og Calvert-Lewin. Ónotaðir varamenn: Stekelenburg, Baines, Keane, Delph, Bernard og Davies. 

Gult spjald: Lucas Digne.

Áhorfendur á Anfield Road: 52.583.

Maður leiksins: Curtis Jones. Hver einasti stuðningsmaður Liverpool myndi vilja vera Curtis Jones í kvöld. Fæddur í Liverpool. Búinn að vera hjá uppáhaldsliðinu sínu frá því hann var strákur. Skorar eitt af fallegri mörkum keppnistímabilsins á móti Everton og tryggir Liverpool sigur á Anfield Road. Draumar geta orðið að veruleika!

Jürgen Klopp: Ég sá frábærlega góðan leik frá liði sem var ekki ýkja leikreynt. Margir af leikmönnunum voru að spila í fyrsta sinn í svona stórleik fyrir framan þessa áhorfendur og á móti þessum mótherjum. Þetta var framúrskarandi. Ég naut leiksins útí ystu æsar. Ég naut hverrar sekúndu. 

Fróðleikur

- Liverpool og Everton léku sinn 235. leik í öllum keppnum. 

- Liverpool hefur unnið 95 leiki, Everton 66 og liðin hafa skilið jöfn í 73 leikjum. Liverpool hefur skorað 332 mörk og fengið á sig 262 mörk. 

- Þetta var 25. leikur liðanna í FA bikarnum. Liverpool hefur 13 sinnum haft betur. 

- Everton hefur aldrei unnið á Anfield í FA bikarnum.

- Curtis Jones skoraði fyrsta mark sitt fyrir Liverpool. 

- Hann skoraði reyndar á móti Arsenal í Deildarbikarnum í haust. Það mark var í vítaspyrnukeppni og telst ekki með í markatölu leikmanna. 

- Takumi Minamino, Nathaniel Phillips og Yasser Larouci léku í fyrsta sinn fyrir hönd Liverpool.

- Takumi er fyrsti Japaninn til að spila með Liverpool.

- Everton hefur ekki unnið á Anfield frá því haustið 1999! 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan