| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Loksins sjáum við Liverpool spila á ný eftir 10 daga hlé og fyrir dyrum er stórleikur í 16-liða úrslitum Meistaradeildar þegar Þýskalandsmeistarar Bayern Munchen mæta í heimsókn. Leikurinn hefst klukkan 20:00 þriðjudagskvöldið 19. febrúar.

Jürgen Klopp og félagar notuðu fríið til að stunda æfingar í nokkra daga á Marbella á Spáni. Einnig var reynt að koma nokkrum leikmönnum sem eru meiddir í betra stand en staðan á miðvörðum liðsins er ekki góð. Virgil van Dijk er í leikbanni og þeir Joe Gomez og Dejan Lovren eru meiddir, það gæti þó verið að Lovren nái að spila en ég hef litla trú á því þar sem hann hefur ekki spilað síðan í byrjun janúar og hann er klárlega ekki í leikformi. Talið er líklegast að Fabinho spili við hlið Joel Matip í miðverði í kvöld. Þeir Xerdan Shaqiri og Gini Wijnaldum þurftu einnig að taka sér hlé frá æfingum en eins og flestir vita var Wijnaldum veikur gegn Bournemouth en spilaði samt, þeir hafa þó báðir æft síðustu daga og verða í leikmannahópi kvöldsins. Þær fréttir bárust svo í gær að Roberto Firmino væri veikur og æfði einn. Það kemur ekki í ljós fyrr en byrjunarliðið verður tilkynnt hvort að hann spili frá byrjun eða ekki.

Firmino er auðvitað mjög tæpur að ná þessum leik miðað við nýjustu fréttir en ef hann spilar ekki verður Daniel Sturridge væntanlega fremstur, þó gæti verið að Divock Origi fái sénsinn en hann hefur verið að koma inná á undan Sturridge í undanförnum leikjum. Miðjan verður væntanlega skipuð þeim Henderson, Wijnaldum og Keita en þó gæti verið að James Milner spili og Keita setjist á bekkinn.

Hjá gestunum eru einnig meiðsli og leikbönn. Thomas Müller getur ekki spilað í kvöld og ekki heldur í seinni leik liðanna þar sem hann fékk tveggja leikja bann eftir rautt spjald í lokaleik riðlakeppninnar. Miðvörðurinn Jerome Boateng er meiddur og spilar ekki í kvöld, það sama á við um Arjen Robben og Kingsley Coman meiddist lítillega í síðasta deildarleik en hann verður að öllum líkindum klár í slaginn. Líklegt byrjunarlið Bayern er: Neuer, Kimmich, Sule, Hummels, Alaba, Goretzka, Thiago, James, Gnabry, Coman og Lewandowski.

Liverpool og Bayern eru stórveldi í evrópskri knattspyrnu og það er nokkuð sérstakt að liðin hafa aðeins mæst sjö sinnum í sögu félaganna. Aldrei hafa þau verið saman í riðli í Evrópukeppni en fyrsta viðureign liðanna fór fram árið 1971 í Fairs Cup en nafninu var síðar breytt í UEFA Cup og svo yfir í Evrópudeildina. Liverpool vann þessa fyrstu viðureign á Anfield 3-0 og liðin gerðu svo 1-1 jafntefli í Þýskalandi í seinni leiknum og Liverpool komið áfram í undanúrslit þar sem þeir féllu úr leik gegn Leeds United. Þetta sama ár mættust liðin svo aftur en nú í Evrópukeppni bikarhafa. Þá hefndu Þjóðverjarnir fyrir tapið með því að vinna 3-1 sigur á heimavelli eftir markalaust jafntefli á Anfield í fyrri leik liðanna. Árið 1981 mættust svo liðin í undanúrslitum Evrópukeppni Meistaraliða (nú Meistaradeild) og eftir markalaust jafntefli á Anfield var talið að róðurinn yrði þungur fyrir Liverpool í Þýskalandi. Mikil meiðsli voru í herbúðum Liverpool fyrir leikinn og í vörninni stóðu lítt reyndir miðverðir, Colin Irwin og Richard Money. Kenny Dalglish þurfti svo að fara af velli snemma leiks vegna meiðsla en Howard Gayle kom inná í hans stað og spilaði frábærlega. Sjö mínútum fyrir leikslok náði svo Ray Kennedy að koma Liverpool yfir og þrátt fyrir jöfnunarmark Bayern tveim mínútum fyrir leikslok komust okkar menn í úrslitaleikinn gegn Real Madrid og flestir vita hvernig sá leikur fór. Síðasta viðureign liðanna fór svo fram árið 2001 í keppni um European Super Cup. Liverpool hafði unnið UEFA Cup um vorið og Bayern Munchen Meistaradeildina sömuleiðis. Leikurinn var skemmtilegur og lauk með 3-2 sigri Liverpool þar sem þeir John Arne Riise, Emile Heskey og Michael Owen skoruðu mörkin.

Það er spennandi Evrópukvöld í vændum á Anfield og stemmningin verður að sjálfsögðu mögnuð eins og vant er. Liverpool saknar síns besta varnarmanns í Virgil van Dijk en aðrir leikmenn verða að stíga upp líkt og árið 1981. Þjóðverjarnir vita klárlega af kraftinum sem Anfield getur leyst úr læðingi og ég geri ráð fyrir því að þeir munu spila varfærið í byrjun og að sama skapi munu heimamenn sækja af krafti frá byrjun.

Spáin að þessu sinni er sú að bæði lið ná að skora í leiknum en mörk heimamanna verða þó fleiri þegar upp er staðið. 2-1 sigur verða lokatölur og við verðum að sjá hvort það dugi til áframhaldandi keppni eftir seinni leikinn í Þýskalandi.

Fróðleikur:

- Mohamed Salah er markahæstur leikmanna Liverpool í Meistaradeildinni með þrjú mörk.

- Robert Lewandowski hefur skorað átta mörk í keppninni til þessa.

- Ef Roberto Firmino spilar í kvöld verður það hans 35. Evrópuleikur fyrir félagið.

- James Milner gæti spilað sinn 160. leik fyrir félagið í öllum keppnum.

- Trent Alexander-Arnold mun spila sinn 70. leik fyrir félagið í öllum keppnum.
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan