| Grétar Magnússon

Robertson framlengir

Vinstri bakvörðurinn Andy Robertson hefur skrifað undir nýjan langtíma samning við Liverpool.


Robertson, sem er 24 ára gamall kom til félagsins frá Hull City fyrir 18 mánuðum síðan. Það tók hann nokkra mánuði að vinna sér sæti í byrjunarliðinu en síðan þá hefur hann verið hreint út sagt stórkostlegur og átt fast sæti í byrjunarliði. Félagið ákvað því, skiljanlega, að fá hann til að skrifa undir nýjan og lengri samning. Alls hefur Robertson spilað 56 leiki í öllum keppnum og skorað eitt mark.

,,Um leið og félagið vildi hefja viðræður um nýjan samning var þetta auðvelt fyrir mig - ég vil vera áfram hér. Um leið og samningurinn lenti á borðinu skrifaði ég undir," sagði Robertson í viðtali eftir undirskriftina.

,,Vinnan við samningin var frekar auðveld fyrir báða aðila. Allt var samþykkt nokkuð snögglega og öll vinna gekk hratt fyrir sig. Það hefur verið mér mikil ánægja að vinna með starfsliði félagsins á Melwood. Það besta við þessa vinnu er að maður elskar það að mæta á hverjum degi - og þannig er það held ég hjá öllum. Ég er ánægður með að hafa framlengt dvöl minni hér og vonandi eigum við marga góða daga framundan."

Frammistaða Robertson hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgjast með knattspyrnu og í september í fyrra var Robertson gerður að fyrirliða skoska landsliðsins. Hann fylgir í fótspor þeirra Roberto Firmino, Mohamed Salah, Jordan Henderson, Sadio Mané og Joe Gomez en þeir allir hafa skrifað undir nýja samninga við Liverpool undanfarið ár.

Robertson, sem er í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum félagsins, segir að nú sé einbeitingin sett á að halda áfram góðu gengi í deildinni og klára tímabilið vel. Hann horfir einnig til leikjanna við Bayern Munchen í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

,,Ég vonast til þess að eiga farsælan feril með liðinu á samningstímanum. Þetta félag vill vinna bikara og það hefur of langur tími liðið nú frá því að liðið vann titil. Ég vonast því til þess að vinna nokkra bikara hér og hjálpa liðinu að festa sig á stalli með þeim bestu. Stuðningsmennirnir krefjast þess og félagið einnig, það er því markmið okkar leikmanna."

,,Við komumst nálægt því í fyrra en nú þarf að taka næsta skref og fá medalíu um hálsinn, sama hvaða keppni það er. Þetta er okkar aðalmarkmið."

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan