| Heimir Eyvindarson

Tvö ár frá fyrsta leik Trent Alexander-Arnold


Á þessum degi fyrir tveimur árum var Trent Alexander-Arnold í byrjunarliði Liverpool í fyrsta sinn, í 2-1 sigurleik á Tottenham í deildabikarnum. Þá nýorðinn 18 ára.


Strax í þessum fyrsta leik TAA í byrjunarliðinu vakti hann mikla athygli fyrir trausta frammistöðu. Þrátt fyrir að spila aðeins tæpar 70 mínútur í leiknum var hann valinn í lið umferðarinnar í deildabikarnum og nokkrum dögum síðar var hann búinn að skrifa undir langtímasamning við félagið.

Sumarið 2017 meiddist Nathaniel Clyne illa og þar með opnaðist leiðin í aðalliðið fyrir Trent. Þann 15. ágúst skoraði hann fyrsta mark sitt fyrir Liverpool, þegar hann smellti boltanum eftirminnilega í netið hjá Hoffenheim í forkeppni Meistaradeildarinnar. Þar með varð hann þriðji yngsti leikmaðurinn í sögu Liverpool til að skora mark í Evrópukeppni, á eftir Michael Owen og David Fairclough.

Þann 4. apríl s.l. varð Trent yngsti enski leikmaðurinn til að spila í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, þegar Liverpool vann Manchester City 3-0. Trent hafði Leroy Sane í vasanum og var valinn maður leiksins. Hann varð síðan yngsti leikmaðurinn í sögu Liverpool til að hefja leik í úrslitum Evrópukeppni þegar Liverpool mætti Real Madrid í úrslitaleik Meistaradeildarinnar s.l. vor.    
7. júní s.l. lék hann sinn fyrsta A-landsleik fyrir England og var í HM hópi Englendinga í sumar. Hann lék einn leik á HM, leikinn gegn Belgíu í riðlakeppninni. 

Það er semsagt óhætt að segja að síðustu tvö árin hafi verið viðburðarík hjá Trent Alexander-Arnold. Orðinn lykilmaður í Liverpool, búinn að spila úrslitaleik í Meistaradeildinni og spila á HM. Framtíðin er svo sannarlega björt. 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan