| Sf. Gutt

Simon ætlar að sjá til


Simon Mignolet segist ætla að sjá til þar til í sumar með framtíð sína hjá Liverpool. Hann segir að það verði erfitt að ná aftur sæti aðalmarkvarðar Liverpool. Hann hafði meðal annars þetta að segja í viðtali við belgíska vefsíðu.

,,Ég veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég á þrjú ár eftir af samningi mínum við Liverpool. Auðvitað vil ég spila. Framkvæmdastjórinn veit það og ég hef rætt um það við hann. Ég mun hugsa um framtíð mína eftir Heimsmeistarakeppnina."


Skjótt skipast veður í lofti í knattspyrnuheiminum. Simon segist æfa af krafti og halda einbeitingu sinni ef færi myndi gefast á því að komast í markið hjá Liverpool á nýjan leik. 

,,Ég held fullri einbeitingu ef færi myndi gefast. Meiðsli eða leikbann geta komið til. Allt getur gerst og breytt þróun leiktíðarinnar. Ég ætla að vera tilbúinn og í góðu standi ef færi gefst. Ég geri mér þó grein fyrir því að það verður ekki auðvelt að verða markmaður númer eitt aftur. Ég ég hengi ekki haus. Ég hef alltaf lagt hart að mér og mun halda því áfram!"


Simon Mignolet er búinn að vera aðalmarkmaður Liverpool frá því 2013 þegar hann var keyptur frá Sunderland. Hann hefur í heildina spilað vel og á þessari leiktíð virtist hann jafnvel vera að spila betur en oft áður. Simon var til dæmis fyrirliði Liverpool í tveimur leikjum eða svo. Hann hefur þó alltaf gert mistök inn á milli og í byrjun ársins ákvað Jürgen Klopp að hleypa Loris Karius að sem aðalmarkmanni. Þjóðverjinn hefur spilað vel og haldið stöðu sinni. 


En það er aldrei að vita hvað gerist. Simon var tilbúinn í vikunni þegar Tibo Courtois aðalmarkmaður Belga meiddist. Hann kom þá inn í liðið og hélt hreinu í 4:0 sigri á Saudi Arabíu.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan