| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Þá er komið að fyrsta grannaslag leiktíðarinnar. Venjulega eru þeir bara tveir en nú er ljóst að þeir verða að minnsta kosti þrír á þessu keppnistímabili því liðin drógust saman í 3. umferð FA bikarins en fyrst er það þessi leikur!


Allt hefur gengið að óskum hjá Liverpool í síðustu leikjum og mörkunum hefur rignt. Nú síðast sjö á móti Spartak frá Moskvu á Anfield á miðvikudagskvöldið. Reyndar má það sama segja um Everton en liðið hefur unnið þrjá síðustu leiki sína eftir hroðalegt gengi lengst af í haust. Sam Allardyce var fenginn til að taka við sem framkvæmdastjóri og virðist að ráðning hans hafi hresst menn við. Everton er því mun óárennilegri andstæðingur en var fyrir hálfum mánuði eða svo. Reyndar held ég að það hefði ekkert verið auðvelt að fást við Everton þegar liðinu gekk hvað verst. Grannaslagir á Merseybökkum eru alltaf erfiðir. 


Mikið hefur verið gert úr sóknarleik Liverpool og hinum ,,stórkostlegu fjórum" Philippe Coutinho, Roberto Firmino, Sadio Mané og Mohamed Salah. En liðið allt er að spila betur en það gerði á tímabili í haust og betri leikur miðjumanna og varnar hefur gert þeim félögum auðveldara fyrir að blómstra í sókninni. Vonandi heldur það áfram því það er ekki þægileg tilhugsun fyrir varnarmenn andstæðinga Liverpool að þurfa að reyna að hafa hemil á þeim félögum. 


Liverpool vann báða deildarleikina við Everton á síðasta keppnistímabili. Fyrst 0:1 á Goodison Park rétt fyrir jólin og svo 3:1 á Anfield Road undir vor. Vonandi nær Liverpool að halda áfram á sömu braut hvað sigra á Everton varðar í næstu leikjum liðanna.  Jürgen Klopp hefur úr öllum sínum bestu leikmönnum að velja utan hvað Alberto Moreno og Joel Matip eru meiddur. Reyndar líka Nathaniel Clyne en hann er búinn að vera frá alla leiktíðina. Jordan Henderson spilaði ekki á móti Spartak en Jürgen sagði eftir leikinn að fyrirliðinn kæmi aftur inn í liðið í næsta leik. Simon Mignolet stendur væntanlega í markinu á nýjan leik og þar með er það upptalið sem vitað er um uppstillingu Liverpool. Jürgen  hefur breytt liðinu nokkuð á milli leikja upp á síðkastið til að hvíla menn og hafa þá ferska þannig að það er ekki auðvelt á átta sig á hvernig liðið verður skipað. 


Þetta verður í 229. skipti sem Liverpool og Everton mætast í ölum keppnum og 197. skipti í deildinni. Eins og alltaf verður ekki neitt gefið eftir. Barist út um allan völl og allt lagt í sölurnar. Rautt á móti Bláu! Sagan segir af mönnum sem urðu hetjur í þessum rimmum og vonandi verður hetjan á sunnudaginn klædd rauðu. Ég spái því að Liverpool vinni 2:1 sigur í jöfnum baráttuleik. Philippe Coutinho og Sadio Mané verða á markalistanum!

YNWA!





TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan