| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Tveir sigurleikir í röð eftir skrykkjótt gengi í haust og nú er ekki annað í boði en að halda áfram á sömu braut. Ekkert eykur sjálfstraust íþróttamanna meira en að vinna. Liverpool virtust allir vegir færir þegar Arsenal var tekið í gegn 4:0 í lok ágúst. Skellurinn gegn Manchester City virtist taka vindinn úr seglunum en nú loksins í byrjun vetrar eftir tvo sigra ætti að vera hægt að byggja upp sjálfstraust.   Næsta verkefni er West Ham United á Ólympíuleikvanginum í London. Þó svo að það sé ólíku saman að jafna West Ham United og Maribor þá er ekki annað hægt en að gera kröfu um að Liverpool vinni þennan leik. Hamranir hafa átt erfitt uppdráttar nema hvað þeir unnu magnaðan útisigur á Tottenham Hotspur í Deildarbikarnum í síðustu viku og sparkspekingar hafa reglulega spáð því síðustu vikur að Salven Bilic sé um það bil að vera rekinn. Það er líka álag á Jürgen Klopp og það þó svo að Liverpool hafi unnið tvo síðustu leiki. En það myndi gefa öllum hjá Liverpool mikið ef sigur næðist á morgun. Nú stendur upp á leikmenn Liverpool að fylgja úrslitunum í síðustu tveimur leikjum eftir. Í þeim voru batamerki. Liðið sýndi þolinmæði og náði að landa sigrum eftir hæga byrjun. Meiðslalisti Liverpool hefur verið að lengjast og Philippe Coutinho, Dejan Lovren og Georginio Wijnaldum bættust á hann núna síðustu vikuna. Reyndar kom á móti að Sadio Mané er byrjaður að æfa og munar um minna. Hann verður vonandi kominn í gagnið þegar komandi landsleikjahlé er afstaðið. Liverpool gerði góða ferð á Ólympíuleikvanginn í vor og vann stórsigur 0:4. Ég spái því að Liverpool vinni helmingi minni sigur á morgun. Daniel Sturridge og Roberto Firmino tryggja Liverpool sigur. Kannski koma mörkin ekki fyrr en í síðari hálfleik en þau skulu koma!

YNWA! 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan