| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool leikur þriðja leik sinn í riðlakeppni Meistaradeildar á þessari leiktíð annað kvöld. Mótherjinn er líklega lakasta lið E-riðils, Maribor frá Slóveníu.

Maribor tapaði 3-0 á útivelli fyrir Sevilla í síðustu umferð, en í fyrstu umferðinni náði liðið 1-1 jafntefli heima gegn Spartak Moskvu. Við hljótum að gera kröfu um að Liverpool fari með sigur af hólmi annað kvöld, jafnvel þótt slóvenska liðið pakki að öllum líkindum í vörn allan tímann á sínum sterka heimavelli. Það er nú bara þannig að ef við ráðum ekki við Maribor eigum við lítið erindi í deild hinna bestu. 

En ég verð nú samt að viðurkenna það að þótt ég haldi því fram að Maribor sé líklega lakasta lið E-riðils þá veit ég svosem ekkert um þetta lið annað en það sem ég nenni að gúgla í fljótheitum. Maribor sigraði slóvensku deildina í fyrra og er ósigrað í deildinni það sem af er þessarar leiktíðar, með 8 sigra og 4 jafntefli. Liðið er tveimur stigum fyrir aftan Olimpia Ljubljana sem er á toppnum. 

Stjóri Maribor, Darko Milanic, er ansi mikill nagli en aðdáendur enska boltans minnast hans kannski helst fyrir að hafa verið stjóri Leeds í heila 32 daga árið 2014! Hann er nú á sinni annarri stjóratíð hjá Maribor og hefur stýrt liðinu fimm sinnum til sigurs í deild og fjórum sinnum í bikar. Milanic er fyrrverandi fyrirliði slóvenska landsliðsins, bar m.a. fyrirliðabandið á EM 2000. 

Maribor er næst stærsta borg Slóveníu, á eftir höfuðborginni Ljubljana. Íbúar borgarinnar eru tæplega 100 þúsund og íþróttalíf er þar með miklum blóma. Fótboltaliðið er það sigursælasta í sögu Slóveníu og heimavöllur liðsins, Ljudski VRT, þykir ansi sterkt vígi. Völlurinn tekur u.þ.b. 12 þúsund áhorfendur.

Liverpool og Maribor hafa aldrei mæst áður og Liverpool hefur raunar aðeins einu sinni í sögunni leikið í Slóveníu. Það var í september 2003 þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Olimpia Ljubljana í Evrópudeildinni. Mark Liverpool í þeim leik gerði Michael Owen. 

Það hefur verið svolítið basl á Liverpool að undanförnu. Frá 4-0 sigrinum á Arsenal í lok ágúst hefur liðið leikið 8 leiki í öllum keppnum, unnið einn (Leicester 2-3), tapað tveimur og gert fimm jafntefli.

Jürgen Klopp hefur verið undir pressu undanfarið og fengið óvenju mikla gagnrýni á sig. Ég verð að segja að hann hefur kannski ekki tekið henni af alveg eins miklu kúli og maður hefði haldið, en vonandi er það bara einhver stundarpirringur.

Það verður allavega ekki af liðinu tekið að það spilaði vel í síðasta leik og jafnvel þótt það megi alveg líta svo á að tvö stig hafi tapast gegn Manchester United þá fannst mér liðið eiga hrós skilið fyrir að halda einbeitingu allan tímann og verjast vel í þau fáu skipti sem United fór fram yfir miðju. 

Það er fátt sem maður getur verið öruggur um varðandi liðsval Klopp annað kvöld, en það er þó alveg ljóst að þótt það kunni að vera freistandi að hvíla einhverja lykilleikmenn þá má alls ekki slaka á í þessum leik. Það kemur auðvitað ekkert annað til greina en sigur ef við ætlum okkur upp úr riðlinum. 

Væntanlega heldur Karius áfram að verja markið í Meistaradeildinni og Matip verður örugglega á sínum stað í miðju varnarinnar. Það er spurning hvort Lovren fær smá hvíld og hinn hálf ómögulegi Klavan fái enn einn sjénsinn. Ég giska á að Gomez haldi sæti sínu eftir solid frammistöðu um helgina og ég held að það væri skynsamlegt að treysta á hraða Moreno vinstra megin, þar sem heimamenn pakka væntanlega í vörn. 

Ég veit svei mér ekki hverjir ættu að vera á miðjunni, mér fannst Can hálf slitinn um helgina, en Wijnaldum og Henderson börðust vel. Mér finnst líklegt að Milner fái að spila og eitthvað segir mér að Oxlade-Chamberlain og Solanke fái tækifæri líka. En hvað veit ég svosem? Það er heilmikið prógramm framundan á næstunni og menn eins og Firmino, Salah og Coutinho hefðu alveg gott af smá hvíld. 

Ég geri kröfu um sigur Liverpool annað kvöld. Í rauninni er ég þrátt fyrir allt frekar bjartsýnn á gengi liðsins í vetur, það er smá brekka núna en ég er viss um að það er bjart framundan. Ég ætla að spá 2-1 sigri, með mörkum frá Matip og Milner.

YNWA!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan