| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Fyrsti heimaleikurinn og það á hefðbundnum enskum leiktíma. Það er ólga á Anfield Road af ýmsum orsökum en það er ekki annað í boði en að einbeita sér að næsta leik og ná í þrjú stig.

Síðbúið og ólöglegt jöfnunarmark Watford í London um síðustu helgi vakti mikla gremju á meðal stuðningsmanna Liverpool og margir urðu til að gagnrýna  Jürgen Klopp fyrir að vera ekki búinn að koma skikk á varnarleik liðsins. Á móti mætti segja að hefði markið verið dæmt af eins og átti að vera hefði verið hægt að hrósa Liverpool fyrir að spila frábæran sóknarleik og snúa tapstöðu í sigur. Það er oft stutt á milli! 

Sigurinn í Hoffenheim var mikilvægur en aftur bar á óöryggi í vörninni. Vörnin er ekki nógu örugg en það ber á það að líta að þeir sem hafa skipað hana í fyrstu tveimur leikjunum hafa ekki spilað saman áður. En sama er það á að vera hægt að skalla fyrirgjafir frá án mikilla vandræða. 



Philippe Coutinho tók upp á því að fara fram á sölu daginn fyrir fyrsta leik leiktíðarinnar. Enn er allt óljóst um hvaða endi sú saga fær. Nú í kvöld bárust fréttir þess efnis að Liverpool hefði hafnað þriðja tilboði Barcelona og það tilboð mun hafa verið um 120 milljónir sterlingspunda. Hvað á að gera við Philippe? Á að halda honum, skipa honum til æfinga eða selja hann? Hann er með samning við Liverpool til næstu fimm ára og því er ekkert eðlilegra en að segja honum að mæta til vinnu þegar hann er búinn að ná sér af bakverknum. En er hægt að hafa óánægðan mann í vinnunni sem vill vinna á öðrum vinnustað? Sú fáránlega ákvörðun Philippe að koma þessu umróti af stað með því að biðja svona seint um sölu er óafsakanleg!



Það er því óhætt að segja að það sé nokkur ólga á Anfield Road. En ekki dugar annað en að vinna á morgun þegar Crystal Palace kemur í heimsókn. Hollendingurinn Frank de Boer, sem var orðaður við stöðu framkvæmdastjóra Liverpool árið 2012 stýrir nú Palace. Hvað hefði orðið ef hann hefði tekið við Liverpool í stað Brendan Rodgers? Hann mun hafa komið til álita. En hann hefur nú ratað í ensku knattspyrnuna. 


Liverpool hefur tapað þremur síðustu heimaleikjum sínum á móti Crystal Palace og því þarf að breyta. Þessi taphrina hófst þegar Ernirnir spilltu kveðjustund Steven Gerrard vorið 2015 en nú er nóg komið! Þó svo að Palace hafi seigu liði á skipa þá er óásættanlegt að hafa tapað þrjár leiktíðir í röð fyrir ekki sterkara liði. 


Nú þurfa allir að einbeita sér að settu marki og það felst í að ná þremur stigum í Musterinu á morgun. Liverpool er með mjög gott lið. Sóknarleikurinn er magnaður, miðjuspilið er býsna gott en vörnina má bæta. En nú þarf að ýta öllum áhyggjuefnum til hliðar. Burt með svartsýni og horfum til komandi leikja með bjartsýni. Við erum Liverpool!

Ég trúi því að Liverpool sýni sínar bestu hliðar á morgun. Liverpool vinnur 3:0. Mohamed Salah, sem lofar góður, skorar tvö og Sadio Mané eitt!

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan