| Grétar Magnússon

Gott stig á Old Trafford

Liverpool og Manchester United gerðu 1-1 jafntefli í lokaleik 21. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.  Gestirnir leiddu lengst af en heimamenn jöfnuðu sex mínútum fyrir leikslok og þar við sat.

Fyrir leik bárust þær fréttir að Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, hefði ekki veitt Joel Matip heimild til að spila leikinn þar sem að landslið Kamerún tekur þátt í Afríkumótinu um þessar mundir.  Verður það að teljast ansi skrýtið að þessi ákvörðun skuli ekki hafa verið klár en Matip hefur ekki spilað með Kamerún undanfarin ár og aldrei hefur verið sett spurningamerki við þátttöku hans með félagsliði til þessa.  En Matip gat auðvitað ekki verið með og því var Ragnar Klavan við hlið Dejan Lovren í miðri vörninni.  Önnur breyting var gerð á vörninni af Jurgen Klopp og það af illri nauðsyn en Nathaniel Clyne kenndi sér einhvers meins og gat ekki spilað.  Trent Alexander-Arnold sem er aðeins 18 ára var því hent út í djúpu laugina að þessu sinni og spilaði hægri bakvörð.  Jordan Henderson kom aftur inní liðið og Philippe Coutinho sat á bekknum eins og í siðasta leik.  Fremstur á vellinum var svo Divock Origi.

Fyrstu mínútur leiksins einkenndust af stöðubaráttu og bæði lið sköpuðu lítið framávið en heimamenn voru þó kannski beittari og á 13. mínútu fékk Ibrahimovic sendingu á fjærstöng en náði ekki að gera sér mat úr því enda sendingin of há.  Skömmu síðar fengu Liverpool menn létt fyrir hjartað þegar slæm sending til baka á Mignolet frá Lovren gerði það að verkum að Ibrahimovic var næstum kominn einn í gegn en Mignolet þrumaði boltanum í Svíann og boltinn skoppaði svo ofaná þaknetið.  Paul Pogba komst svo nánast einn í gegn en skaut framhjá úr fínu færi og gátu gestirnir andað léttar.  Það var svo á 27. mínútu sem að ísinn var brotinn og þar var áðurnefndur Pogba að verki en á vitlausum enda vallarins.  Hornspyrna Milner sveif inná teiginn og Pogba virtist ekki vita hvar boltinn var og þegar hann reyndi að skalla boltann fór hann beint í hendurnar á honum.  Oliver dómari leiksins gat lítið annað gert en að dæma víti og á punktinn fór James Milner.  Honum brást ekki bogalistin frekar en fyrri daginn á þessu tímabili og sendi boltann örugglega í markið.  Staðan því 0-1 fyrir gestina og markinu að sjálfsögðu vel fagnað.


Næsta færi féll heimamönnum í skaut en þeir fengu aukaspyrnu rétt fyrir utan teig eftir hornspyrnu.  Aukaspyrnuna hefði aldrei átt að dæma því þegar hornspyrnan var tekin reif Pogba Henderson niður í teignum með hálstaki en dómaratríóið tók ekki eftir því.  Ibrahimovic þrumaði að marki úr aukaspyrnunni en Mignolet varði mjög vel fast skot.  Heimamenn fengu svo eitt úrvalsfæri í viðbót þegar Mkhitaryan komst einn í gegn en Mignolet var aftur vel á verði og slæmdi hendi í boltann.  Belginn var svo sannarlega búinn að standa sig vel það sem af var þessum leik.  Lengra komust heimamenn ekki áður en flautað var til hálfleiks og staðan því sem fyrr segir, 0-1 fyrir gestina.

Í seinni hálfleik opnaðist leikurinn meira og ekki var langt liðið á hann þegar Origi þrumaði að marki utarlega úr teignum vinstra megin en Phil Jones komst fyrir skotið þegar allt leit út fyrir að boltinn myndi enda efst í markhorninu.  En heimamenn héldu áfram að fá fín færi en Mignolet gerði áfram vel þegar Mkhitaryan fékk fína sendingu út til hægri, önnur snerting hans var sem betur fer ekki mjög góð og Mignolet komst í boltann.  Eftir klukkustundar leik kom Coutinho inná fyrir Origi og hann var næstum því búinn að breyta leiknum strax með flottri sendingu á Firmino sem var í góðu skotfæri en hann skaut beint á de Gea í markinu.  Liverpool menn náðu að beita skyndisóknum inn á milli og Wijnaldum fékk ágætt skallafæri á miðjum teignum en hitti ekki markið.  Eitthvað varð undan að láta og Ibrahimovic jafnaði metin sex mínútum fyrir leikslok með skalla eftir sendingu frá hægri.  Þar héldu flestir kannski að heimamenn myndu nú ná að sigla framúr en það hafðist ekki og sennilega fékk Wijnaldum besta færið eftir það þegar hann skaut að marki úr teignum en skotið var alltof laust til að valda de Gea vandræðum.  Niðurstaðan var því 1-1 jafntefli og það er nú eitthvað sem við stuðningsmenn hefðum tekið fyrir leik en úr því sem komið var má kannski segja að smá óbragð hafi verið í munni að ná ekki að halda þetta út.

Manchester United:  de Gea, Valencia, Jones, Rojo, Darmian (Fellaini, 76. mín.), Herrera, Carrick (Rooney, 45. mín.), Pogba, Mkhitaryan, Ibrahimovic, Martial (Mata, 65. mín.).  Ónotaðir varamenn:  Romero, Blind, Smalling, Rashford.

Mark Manchester United:  Ibrahimovic (84. mín.).

Gult spjald:  Herrera.

Liverpool:  Mignolet, Alexander-Arnold, Lovren, Klavan, Milner, Wijnaldum, Henderson, Can, Firmino, Lallana, Origi (Coutinho, 61. mín.).

Ónotaðir varamenn:  Karius, Gomez, Moreno, Stewart, Ejaria, Sturridge.

Mark Liverpool:  James Milner (27. mín. víti).

Gul spjöld:  Lovren, Wijnaldum og Firmino.

Áhorfendur á Old Trafford:  75.276.

Maður leiksins:  Simon Mignolet varði einstaklega vel í þessum leik og verður ekki sakaður um jöfnunarmark United.  Hann hefur virkilega stigið upp eftir að hafa misst sæti sitt í liðinu fyrr á tímabilinu og vonandi heldur hann áfram að spila vel.

Jurgen Klopp:  ,,Í lokin þegar United reyndu allar þessar háu sendingar fram völlinn var þetta orðið erfitt fyrir mína menn eftir 80 mínútur af mikilli vinnu.  Ég vonaðist eftir smá heppni en því miður var það ekki raunin en allt í góðu með það.  Á morgun get ég notið úrslitanna en í sem stendur er ég bara ánægður með spilamennsku minna manna.  Þetta var virkilega erfitt.  Þeir beita löngum sendingum fram og leikurinn í heild var villtur.  Það var mikið um að vera síðustu mínúturnar.  Við komum hingað til að vinna leikinn og þess vegna erum við ekki 100% ánægðir."

Fróðleikur:

- Þetta er í fyrsta skipti síðan tímabilið 1987-88 sem Liverpool og United gera jafntefli í báðum deildarleikjum sín á milli.

- James Milner hefur nú skorað 6 mörk í deildinni og öll hafa þau komið af vítapunktinum.

- Milner hefur skorað úr síðustu 10 vítaspyrnum sínum í deildinni, þar af síðustu 7 fyrir Liverpool.

- Eftir leikinn sitja Liverpool í þriðja sæti deildarinnar með jafnmörg stig og Tottenham, 45, en með lakari markatölu.

- Trent Alexander-Arnold spilaði sinn fyrsta leik í byrjunarliði í úrvalsdeildinni, aðeins 18 ára að aldri.

- Hér má sjá myndir úr leiknum.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan