| Heimir Eyvindarson

Mikilvægur sigur á Sunderland


Liverpool vann góðan sigur á Sunderland á Anfield í 13. umferð Úrvalsdeildar. Yfirburðir Liverpool voru algjörir, en lokatölur urðu þó ekki nema 2-0.

Jurgen Klopp stillti upp sama byrjunarliði og gegn Southampton um síðustu helgi, en bæði Adam Lallana og Daniel Sturridge voru meiddir.

Liverpool var miklu meira með boltann allt frá upphafi, en hættuleg færi létu þó á sér standa.

Helstu tíðindi fyrri hálfleiks voru váleg, en á 34. mínútu fór Coutinho meiddur af velli. Fyrstu fréttir af meiðslunum gáfu ekki tilefni til bjartsýni, en eftir því sem leið á daginn virtist útlitið ögn skárra. Þegar þetta er ritað er ekki vitað hversu alvarleg meiðsli Coutinho eru, en eitt er víst að það væri hrikalegt ef hann yrði lengi frá.

Annað er svosem ekki að segja af fyrri hálfleik, Liverpool var 80 prósent með boltann en komst ekki í gegnum 10 manna varnarmúr Sunderland. Staðan 0-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var svipaður og sá fyrri, framan af. Liverpool sótti án afláts en það skorti samt einhvern aukakraft til að klára leikinn. Á 63. mínútu bað Klopp um meiri stuðning frá áhorfendum og ekki stóð á því. Stúkan lifnaði heldur betur við og hávaðinn færði liðinu aukinn kraft.

Á 75. mínútu kom svo loksins mark. Það skoraði Divock Origi með laglegu skoti í fjærhornið úr þröngri stöðu í teignum. Mjög vel gert hjá Belganum. Staðan 1-0.

Á 87. mínútu fór Firmino meiddur af velli og Lucas kom inn í hans stað. 

Undir lok leiksins gerði Liverpool síðan endanlega út um leikinn þegar James Milner skoraði úr víti sem var dæmt eftir brot á Mané. Lokatölur á Anfield 2-0. Mjög góður og mikilvægur sigur, en hugsanlega dýrkeyptur ef meiðsli Coutinho reynast alvarleg.

Liverpool: Karius, Clyne, Matip, Lovren, Milner, Henderson, Can, Wijnaldum (Woodburn á 90.mín.) Coutinho (Origi á 34.mín.), Firmino (Lucas á 87.mín.), Mané. Ónotaðir varamenn: Mignolet, Moreno, Ejaria og Klavan.

Mörk Liverpool: Origi á 75.mínútu og Milner úr víti í uppbótartíma.

Gult spjald: Lovren.

Sunderland: Pickford, Jones, Van Aanhalt, O'Shea, Kone, Pienaar (Januzaj á 79.mín.), Denayer, Ndong, Defoe, Anichebe, Watmore (Gooch á 79.mín.). Ónotaðir varamenn: Mannone, Larson, Khazri, Love og Manquillo.

Gul spjöld: Pienaar, Kone, O'Shea.

Áhorfendur á Anfield Road: 53.114.


Maður leiksins: Liðið lék vel í dag. Karius, Matip og kannski sérstaklega Lovren voru mjög traustir aftast og Henderson var duglegur þar fyrir framan en minn maður leiksins er Origi. Hann skoraði markið sem öllu máli skipti svo að segja upp á eigin spýtur og var virkilega góður eftir að hann kom inná.

Jurgen Klopp: „Ég held að ég hafi aldrei mætt jafn varnarsinnuðu liði og Sunderland. Þeir lágu í vörn allan tímann og dekkuðu Coutinho sérstaklega. Það er oft erfitt að finna leið í gegnum svona varnir en við erum sífellt að verða betri í því. Ég er mjög ánægður með sigurinn og frammistöðu bæði leikmanna og stuðningsmanna."

Fróðleikur:
- Ben Woodburn lék sinn fyrsta leik fyrir Liverpool þegar hann kom inná undir lok leiksins. Hann varð þar með þriðji yngsti leikmaður félagsins til að spila alvöru leik. 17 ára og 42 daga gamall.

- Jerome Sinclair er sá yngsti (16 ára og 6 daga gamall) og Jack Robinson næstyngstur (16 ára og 250 daga).

- Liverpool og Sunderland hafa nú mæst 31 sinni í Úrvalsdeildinni og Liverpool hefur unnið 18 sinnum, 10 sinnum hafa liðin skilið jöfn og Sunderland hefur náð þremur sigrum.

- Wijnaldum lék sinn 50. leik í Úrvalsdeild

- Hér má sjá myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan