| Grétar Magnússon

Spjaldaglaður dómari á ný !

Dómarinn í fyrri leik Liverpool og Manchester United þykir vera spjaldaglaður með meiru en ekki tekur mikið betra við í seinni leiknum sem fer fram núna á fimmtudagskvöldið.  Dómari kvöldsins er Milorad Mazic sem var valinn versti dómarinn á HM í Brasilíu 2014.

Jurgen Klopp hafði orð á því eftir fyrri leikinn að Carlos Velasco Carballo hafi verið aðeins of iðinn við að gefa gul spjöld en það er semsagt ljóst að dómarinn í seinni leiknum, Serbinn Milorad Mazic, er engu skárri !

Mazic dæmdi leiki Þýskalands og Portúgal og Argentínu og Íran á HM í Brasilíu árið 2014.  Hann dæmdi vítaspyrnu á Portúgali og rak svo miðvörðinn Pepe útaf síðar í leiknum.  Í leik Argentínu og Íran, sem Argentínumenn unnu með naumindum dæmdi hann ekki augljósa vítaspyrnu undir lok leiksins þegar brotið var á einum leikmanna Íran í vítateignum.  Eftir leikinn velti þjálfari Írana, Carlos Queiroz, því fyrir sér hvort að dómarinn gæti yfirleitt sofið það sem eftir væri lífs síns og íranska knattspyrnusambandið sendi inn formlega kvörtun til FIFA vegna málsins.

Í könnun sem var svo framkvæmd eftir að keppninni lauk á vefsíðunni www.redcardtheref.com fékk Mazic mikinn meirihluta atkvæða þegar kosið var um versta dómara keppninnar eða 87.362 atkvæði af 110.000.

Það kemur því ekki á óvart að lífsmottó hans er:  Það er ekki hægt að gera öllum til geðs.

Eftir HM hélt Mazic áfram að vera í eldlínunni og eftir leik í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrra milli Real og Atletico Madrid sagði Mario Suarez leikmaður Atletico þetta:  ,,Dómarinn var mjög slakur.  Þeir geta ekki látið serbneskan dómara dæma svona leik, með fullri virðingu.  Ég vona að þeir velji betri dómara fyrir síðari leikinn."

Þeir Dejan Lovren og Alberto Moreno eru á hættusvæði fyrir leikinn annað kvöld en báðir þurfa eitt gult spjald í viðbót til að fara í eins leiks bann.  Það er því ekki góð tilhugsun þegar litið er á tölfræði Mazic en hann sýnir gestaliðinu iðuluega fleiri spjöld en heimaliðinu.  Á þessu tímabili í Meistardeildinni hefur hann gefið gula spjaldið 27 sinnum og það rauða 1 sinni.

Hann hefur áður dæmt leik hjá Liverpool en það var gegn Sparta Prag í Evrópudeildarleik tímabilið 2010/2011 og þar litu sjö gul spjöld dagsins ljós, fjögur til Liverpool og þrjú til Sparta Prag.

Hér fyrir neðan er svo samanburður milli þessara tveggja dómara sem dæma leiki Liverpool og Manchester United.

Milorad Mazic - Carlos Velasco Carballo

Alls gul spjöld:  369 - 282
Alls rauð spjöld:  21 - 7
Vítaspyrnur dæmdar:  22 - 28


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan