| Sf. Gutt

Sæt hefnd á Anfield!

Liverpool náði fram sætri hefnd á Anfield í kvöld þegar nýbakaðir Deildarbikarmeistarar Manchester City voru teknir í gegn 3:0. Þó hefði sigurinn þurft að koma á sunnudaginn á Wembley en kannski kveikir hann í liðinu þegar lokaspretturinn í ensku deildinni og Evrópudeildinni fer í hönd. Betra seint en ekki! 

Jürgen Klopp gerði nokkrar breytingar á liðinu sínu frá úrslitaleiknum á Wembley. Jon Flanagan kom inn í vörnina eins og við var búist og það sama átti við um Dejan Lovren sem leysti Mamadou Sakho af. Kolo Toure hélt sinni stöðu en hann lauk leiknum á Wembley. 

Jon gaf tóninn á fyrstu mínútunni þegar hann gerði magnaða atlögu að Raheem Sterling sem ekki sást eftir þetta. Stuðningsmenn Liverpool sendu honum líka kuldalegar kveðjur í hvert skipti sem hann kom við boltann. Eftir þessa atlögu Jon, sem kannski hefði betur byrjað á Wembley, var ekki aftur snúið. Liverpool hafði öll ráð Manchester City í hendi sér og hver einasti leikmaður lék af fullum krafti og sjálfstrausti.

Marktækifæri sáust ekki fyrr en Liverpool náði forystu á 34. mínútu. Adam Lallana fékk boltann á miðjum vallarhelmingi sínum, lék fram völlinn og skaut svo óvæntu skoti utan við vítateiginn sem hafnaði neðst í hægra horninu. Joe Hart, sem kom aftur í markið, kom engum vörnum við en sumum fannst að hann hefði átt að verja.

Á 41. mínútu kom næsta færi og aftur lá boltinn í markinu. Roberto Firmino sendi þvert fyrir vítateiginn. James Milner fékk boltann, stakk sér framhjá varnarmanni og inn í vítateiginn þaðan sem hann pikkaði boltanum framhjá Joe. Aftur hafnaði boltinn neðst í hægra horninu. James fagnaði vel enda að skora hjá liðinu sem hafði ekki lengur þörf fyrir hann. James var frábær eins og allir miðjumenn Liverpool sem gáfu mótherjum sínum aldrei stundlegan frið.

Á lokamínútu hálfleiksins fékk City sitt fyrsta færi. Sergio Aguero náði skalla á markið eftir aukaspyrnu en James bjargaði nærri markinu. Vel gert! Liverpool hafði því góða forystu þegar komið var að leikhléi.

Raheem var tekinn út af í hálfleik og City bætti í sóknina. Strax eftir leikhlé komst Divock Origi í færi en Jose varði skot hans sem reyndar var úr þröngu færi. Hafi City gert sér sér vonir um að komast aftur inn í leikinn þá fóru þær vonir út í vindgustinn á Anfield á 59. mínútu. Jordan Henderson vann boltann, kom honum fram en þar virtist sem sóknin væri að renna út í sanfinn. Adam náði þó boltanum rétt við vítateiginn, lék framhjá eins og tveimur mótherjum og sendi á Roberto sem skoraði með hárnákvæmu skoti út í fjærhornið. Frábær afgreiðsla. Rétt á eftir átti James fast skot sem sem Joe sló yfir markið.

Liverpool létti heldur pressunni undir lokin en sigurinn var aldrei í hættu. Jordan átti skot beint úr aukaspyrnu sem strauk stöngina þegar fimm mínútur voru eftir og á lokamínútunni skaut Joe Allen frá vítateignum en boltinn strauk slána yfir. Einn besti leikur Liverpool á leiktíðinni og öruggum sigri landað.

Því miður lék Liverpool ekki jafn vel á Wembley en vonandi tekst að láta þennan sigur vera upphaf að góðum og fengæslum endaspretti á leiktíðinni. Það er enn hægt að vinna bikar og herja á efstu liðin. Nú verður liðið að halda áfram á sömu braut. Annað er ekki í boði!

Liverpool: Mignolet, Flanagan, Toure, Lovren, Clyne; Henderson, Can; Milner (Ibe 88. mín.), Firmino (Allen 75. mín.), Lallana og Origi (Benteke 69. mín.). Ónotaðir varamenn: Ward, Coutinho og Skrtel

Mörk Liverpool: Adam Lallana (34. mín.), James Milner (41. mín.) og Roberto Firmino (59. mín.).

Manchester City: 
Hart: Zabaleta, Kompany, Otamendi, Clichy (Kolarov 74. mín.): Fernando, Fernandinho (Ihenacho 55. mín.): Navas, Silva, Sterling (Bony 46. mín.) og Aguero. Ónotaðir varamenn: Caballero, Sagna, Mangala og Demichelis.

Gult spjald: Jesus Navas.

Áhorfendur á Anfield Road:
 43.597.

Maður leiksins:
 Adam Lallana. Þessi flínki leikmaður fór á kostum og sýndi virkilega hvað í honum býr. Hann skoraði fyrsta markið og átti stóran þátt í hinum tveimur. Honum líður líklega mun betur en eftir leikinn á Wembley þegar honum brást skotfimin í vítaspyrnukeppninni. 

Jürgen Klopp: Frábært. Það var ekki hægt að biðja um betri viðbrögð og þetta var sannarlega eins og best gat verið. Ég sagði strákunum fyrir leikinn að við yrðum að sýna að við værum reiðir. Þeir tóku bikarinn og vildu fá stigin. Þess vegna urðum við að sýna meiri ákveðni en þeir. 


Fróðleikur

- Adam Lalla skoraði fimmta mark sitt á sparktíðinni. 

- James Milner og Roberto Firmino skoruðu báðir í sjöunda skipti á leiktíðinni.

- James skoraði gegn fyrrum liði sínu annan deildarleikinn í röð. Áður skoraði hann gegn Aston Villa. 

- James Milner hefur skorað í 41 deildarleik og í þeim leikjum hefur liðið hans aldrei tapað.  

- Liverpool vann báða deildarleikina gegn Manchester City en tapaði fyrir þeim í úrslitaleiknum um Deildarbikarinn.

Hér eru
myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan