| Sf. Gutt

Úrslitasæti í húfi!


Sæti í úrslitaleik gefst ekki á hverjum degi. Reyndar átti Liverpool tvívegis möguleika á að komast í úrslitaleik á síðustu leiktíð. Það náðist ekki en nú má Liverpool ekki mistakast að komast á Wembley!


Liverpool mætir í kvöld Stoke City í seinni leik liðanna í undanúrslitum Deildarbikarsins. Jordan Ibe færði Rauða hernum sigur í Stoke fyrr í mánuðinum og nú þarf að ljúka verkefninu. Liverpool dugir auðvitað að halda jöfnu og annar sigur gulltryggir farmiðann í höfuðstaðinn og á Wembley. Stoke þarf sigur. Vinni liðið 0:1 verður framlengt og verði enn svo eftir 30 mínútur verður vítaspyrnukeppni. Útimörk, til dæmis 1:2 sigur Stoke, taka ekki gildi fyrr en eftir framlengingu. En staðan er einföld og Liverpool á að klára verkefnið sem drög voru lögð að í Stoke. 


Það eru skörð í leikmannahópi Liverpool líkt og lengst af á leiktíðinni. Jürgen Klopp þarf því að hugsa málið og reyna að finna út uppstillingu sem dugar til að koma Liverpool áfram. Dejan Lovren er byrjaður að æfa en hann er ekki orðinn leikfær og þeir Mamadou Sakho og Kolo Toure verða örugglega miðverðir áfram. Nýliðinn Steven Caulker hefði kannski komið til álita sem miðvörður en hann lék með Southampton þegar Liverpool komst í undanúrslit með 1:6 sigri á suðurströndinni! Nathaniel Clyne er meiddur svo það verður að minnsta kosti ein breyting gerð á vörninni. Hugsanlega kemur Jon Flanagan inn í liðið.

 

Ekki er gott að segja hvernig Jürgen Klopp stillir upp miðju og framlínu. Kannski fær Christian Benteke tækifæri en honum hefur gengið mjög illa síðustu vikur og mánuði. Mikið hefur mætt á Roberto Firmino að undanförnu og hugsanlega verður hann hvíldur á bekknum til að byrja með. 


Jürgen Klopp  sagði á blaðamannafundi í gær að hann gæti ekki beðið eftir að stýra Liverpool í undanúrslitaleik á Anfield og finna fyrir kraftinum sem myndaðist þar þegar mikið væri í húfi. Það er næsta víst að stemmningin verður rafmögnuð í kvöld og vonandi fer allt á besta veg. Það verður að gera það!


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan