| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool tekur á móti WBA á Anfield á sunnudaginn í 16. umferð Úrvalsdeildar. Nú ríður á að girða sig í brók, eftir tapið gegn Newcastle um síðustu helgi.

Liverpool lék líklega sinn slakasta leik undir stjórn Jürgen Klopp um síðustu helgi, þegar liðið tapaði fyrir Newcstle á St. James' Park. Á fimmtudaginn lék liðið reyndar ansi slappan leik, gegn Sion í Evrópudeildinni, en sá leikur er nú kannski ekki alveg marktækur. Hvað sem því líður er mjög mikilvægt að liðið komist aftur í gang á sunnudaginn og finni aftur kraftinn, hreyfanleikann og baráttuna.

Klopp stillti upp sterkara liði en flestir áttu von á í Sviss. Sjálfsagt hefur hann ætlað að kveikja sjálfstraustið aftur með sigri, en það tókst því miður ekki. Nathaniel Clyne og Dejan Lovren spiluðu allan leikinn og hafa ekki fengið neina hvíld að undanförnu. Lovren hefur spilað óslitið frá því hann kom inn á fyrir Sakho í leiknum gegn Crystal Palace fyrir rúmum mánuði og Clyne hefur nánast enga hvíld fengið í vetur.

Aðrir leikmenn sem byrjuðu leikinn á fimmtudaginn eru svosem ekkert sérstaklega þjakaðir af leikjaálagi. Það var ánægjulegt að sjá Henderson spila rúman klukkutíma án vandræða og eins var mjög gott að Moreno fékk að vera heima í Liverpool. 

Ég man þá tíð þegar WBA var skemmtilegt fótboltalið. Þegar Ron Atkinson stjórnaði liðinu í kringum 1980 spilaði liðið glimrandi sóknarbolta og var í toppbaráttunni um tíma. Fremstir í flokki hjá WBA á þeim tíma voru „The three degrees"; Brendan Batson, Cyrille Regis og Laurie Cunningham. Þeir voru allir svartir á hörund og einhverntíma sagði Big Ron frá því að eitt af leynivopnunum sem WBA notaðist við væri að slökkva af og til á flóðljósunum á The Hawthorns, þá kæmust þeir félagar óséðir í gegnum varnir andstæðingana. Það er ekki lengra síðan að það þótti í lagi að segja svona hluti!

Í dag er WBA langt frá því að vera skemmtilegt fótboltalið. Liðið er undir stjórn Hr. Tony Pulis og það þýðir náttúrlega að leikurinn á sunnudaginn verður ekkert augnayndi. Það er yfirleitt einstaklega leiðinlegt að horfa á lið undir hans stjórn spila og þegar við bætist að Liverpool hefur gengið fremur illa að brjóta niður varnir andstæðinga sinna á Anfield þá er ekki margt sem bendir til þess að leikurinn verði mikið fyrir augað. En maður skyldi aldrei segja aldrei.

WBA er í 13. sæti Úrvalsdeildar sem stendur, en liðið endaði einmitt í því sæti í vor. Tony Pulis er nú að verða búinn að stjórna liðinu í heilt ár, en hann tók við því 1. janúar s.l. og kom því aftur á rétt ról eftir hörmungartíma liðsins undir stjórn Alan Irvine. Gengi liðsins hefur verið dálítið köflótt, en liðið hefur lagt bæði Manchester City og Arsenal að velli og gert jafntefli við West Ham og Tottenham svo eitthvað sé nefnt. Pulis talaði meira að segja um tvö töpuð stig eftir jafnteflið við Tottenham um helgina.

Pulis getur valið nokkurn veginn sitt sterkasta lið á sunnudaginn. Ben Foster og Stephané Sességnon eru reyndir meiddir en aðrir leikmenn eru í fínu standi. Claudio Yacob, sem tók út leikbann í síðasta leik, kemur væntanlega beint inn í byrjunarliðið aftur og eins er talið líklegt að Saido Berahino byrji leikinn.

Berahino hefur ekki gengið eins vel að skora á þessari leiktíð eins og þeirri síðustu þegar hann setti 20 stykki. Hann þjáðist af mótþróaþrjóskuröskun framan af hausti og neitaði að spila fyrir félagið af því að hann var ekki seldur í ágúst glugganum. Svo voru þau mál sjötluð, en hann hefur ekki fundið skotskóna aftur. Búinn að skora þrjú mörk í vetur, það síðasta fyrir tæpum tveimur mánuðum.

Pulis sagði á blaðamannafundi í dag að hann væri að vonast til að kappinn færi að finna formið sitt. Berahino virðist líka vera tilbúinn til að leggja sitthvað á sig til að finna fjölina, hann spilaði t.d. heilan leik með U-21 árs liði félagsins á mánudaginn til að koma sér í form - og skoraði eitt mark. Vonandi dettur hann ekki í gírinn á sunnudaginn. Þá vonum við auðvitað líka að okkar gamli félagi Rickie Lambert fari ekki að taka upp á því núna að skora á Anfield. 

Liverpool er ennþá með ágætis meiðslalista; Jon Flanagan, Mamadou Sakho, Joe Gomez, Danny Ings og svo Daniel Sturridge enn og aftur. Reyndar bárust þær ánægjulegar fréttir af Flanagan í gær, að hann byrjar að æfa á fullu með liðinu á þriðjudaginn. Veri hann svo sannarlega velkominn!

Öftustu fimm velja sig alveg sjálfir þessa dagana og það er afar sennilegt að Lucas Leiva verði aftastur á miðjunni úr því að hann fékk að vera heima á fimmtudaginn. Að vísu sér maður kannski ekki alveg þörfina fyrir afturliggjandi miðjumanni gegn WBA á Anfield, en ég held nú samt að Lucas byrji leikinn. Með sömu rökum væri reyndar hægt að veðja á það með nokkurri vissu að Joe Allen myndi líka byrja leikinn, en ég neita að trúa því að þeir félagar verði saman á miðjunni.

Annað er ekki gott að segja um liðsvalið. Mér finnst trúlegt að Benteke byrji frammi. Bæði sat hann á bekknum allan leikinn gegn Sion og eins er Klopp sjálfsagt ekkert ólíkur öðrum stjórum þegar kemur að þrjósku og þvermóðsku. Benteke sætti mikilli gagnrýni eftir Newcastle leikinn og Klopp varði hann fimlega í vikunni. Það væri auðvitað gott að fá Belgann í gang og kannski er maður eins og hann vopnið sem við þurfum gegn þéttri vörn Pulis og co.

Því miður finnst mér hæpið að Henderson byrji leikinn. Hann er ekki alveg kominn í fullkomið leikform, en mikið óskaplega verður gott að fá hann á fulla ferð aftur. Annað hef ég ekki að segja um liðsvalið svosem, þetta kemjr allt í ljós. Aðalatriðið er að menn girði sig í brók og taki vel á því. Best væri auðvitað fá mark snemma svo WBA geti ekki legið í vörn allan leikinn.

Ég er alls ekkert of bjartsýnn fyrir þennan leik, en ég get auðvitað ekki annað en spáð okkar mönnum góðu gengi. Ég ætla að tippa á 1-0 sigur. Markið kemur frá Henderson.

YNWA!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan