| Sf. Gutt

Slæmt tap í síðasta heimaleiknum!

Liverpool tapaði á skammarlegan hátt 1:3 fyrir Crystal Palace í síðasta heimaleiknum á leiktíðinni. Steven Gerrard spilaði sinn síðasta leik á Anfield Road. 

Fyrir leikinn gekk Steven Gerrard til leiks með dætrunum sínum í gegnum heiðursvörð leikmanna beggja liða. Áhorfendur fögnuðu honum gríðarlega og um leið myndaði The Kop SG8 og neðri hluti Aldarstúkunnar, Centenary stand, myndaði orðið fyrirliði, Captain. Mögnuð stund en svo var komið að leiknum sjálfum. 

Liverpool byrjaði þokkalega en fljótlega varð ljóst að það var ekki mikill kraftur í leikmönnum Rauða hersins. Gestirnir gengu á lagið og voru mjög sprækir með fljóta framherja sem varnarmenn Liverpool voru aftur og aftur í vandræðum með. Það var því hægt að segja að Liverpool hefði komist yfir upp úr þurru. Martin Kelly, fyrrum lærisveinn Liverpool, átti mislukkaða sendingu sem kom vörn hans í vanda. Adam Lallana hirti boltinn og rauk inn í vítateiginn þar sem hann skoraði með góðu skoti. Vel gert hjá Adam sem á að gera sýnt meira á næstu leiktíð ef hann sleppur við meiðsli. 

Markið hefði átt að gefa Liverpool byr undir báða vængi en svo varð ekki. Joe Ledley átti gott færi litlu seinna en skot hans fór hátt yfir. Á 33. mínútu átti Jason Puncheon skot utan vítateigs sem Simon varði vel neðst í horninu með því að henda sér niður. Crystal Palace jafnaði svo þegar tvær mínútur voru til hálfleiks. Jason skoraði þá beint úr aukaspyrnu. Simon var ekki nógu vel staðsettur í markinu og staðan 1:1 í hálfleik.

Margir hefðu nú haldið að leikmenn Liverpool settu kraft í málið til að vinna kveðjuleik Steven Gerrard á Anfield en það var öðru nær. Palace ógnaði alltaf meira og sóknir Liverpool voru kraftlitlar. Jordan Henderson fékk þó gott færi á 57. mínútu en hann hitti ekki boltann almennilega við vítateiginn. Þremur mínútum seinna komst Palace yfir. Varamaðurinn Wilfried Zaha, sem hafði verið inn á í 23 sekúndur, skoraði þá af stuttu færi við fjærstöngina eftir fyrirgjöf frá hægri. Markið hefði þó ekki átt að standa því um rangstöðu var að ræða en vörn Liverpool var eftir sem áður úti á túni.

Fjórum mínútum seinna fékk Steven Gerrard boltann rétt við vítateiginn en Wayne Hennessey varði skot hans sem var kraftlítið. Ekki leið langur tími þar til Yannick Bolasie tók mikinn sprett inn í vítateig Liverpool en skot hans fór í þverslá. Tilburðir Liverpool til að jafna voru óverulegir þrátt fyrir að Steven Gerrard spilaði mjög framarlega og reyndi sitt besta Á lokamínútunni fékk Palace víti eftir brot Lucas Leiva sem kom inn á sem varamaður. Vítið var ranglega dæmt því brotið var fyrir utan teig. Allt eftir öðru. Glenn Murry tók vítið en Simon varði. Varnarmenn Liverpool voru sofandi í frákastinu og Glenn skoraði í annarri tilraun. Sárt tap í kveðjuleik fyrirliðans staðreynd!   

Fögnuður stuðningsmanna Crustal Palace drukknaði þó í hyllingu stuðningsmanna Liverpool á Steven Gerrard sem kvaddi Anfield. Síðasti leikurinn var þó ekki eftirminnilegur en kveðjustundin sem fylgdi verður lengi í minnum höfð. Áhorfendur biðu eftir að Steven og hans menn kæmu aftur út á völlinn til fara hefðbundinn kveðjuhring eftir síðasta heimaleik leiktíðarinnar. En þetta var ekki nein venjuleg kveðjustund. Steven ávarpaði sitt heimafólk og aðra viðstadda. Eftir langa og magnaða kveðjustund yfirgaf Steven heimavöllinn sinn í síðasta sinn sem leikmaður Liverpool! 





Liverpool: Mignolet; Can, Skrtel, Lovren, Moreno (Sinclair 87. mín.); Gerrard, Henderson; Ibe (Lambert 65. mín.), Coutinho, Lallana (Leiva 65. mín.) og Sterling. Ónotaðir varamenn: Ward, Johnson, Toure og Allen.

Mark Liverpool: Adam Lallana (26. mín.).

Gult spjald: Emre Can og Philippe Coutinho.

Crystal Palace: Hennessey; Ward, Kelly, Dann, Souare; McArthur, Ledley; Puncheon, Bolasie (Murray 82), Lee (Zaha 59) og Chamakh (Mutch 76). Ónotaðir varamenn: Speroni, Campbell, Jedinak og Delaney.

Mörk Crystal Palace: Jason Puncheon (43. mín.), Wilfried Zaha (60. mín.) og Glenn Murray (90. mín.).

Gul spjöld: Joel Ward, James McArthur og Jordan Mutch.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.673.


Maður leiksins: Steven Gerrard. Reyndi sitt besta eins og hann hefur alltaf gert á Anfield Road. Maður dagsins var hann í það minnsta! 

Brendan Rodgers: Úrslitin og hvernig við spiluðum olli miklum vonbrigðum.





  


                                                              
                                                                          Fróðleikur

- Steven Gerrard lék sinn síðasta leik sinn á Anfield Road.

- Þetta var 709. leikur Steven fyrir Liverpool. Þar af lék hann 354 leiki á Anfield. Þar skoraði hann 104 mörk. Jafn mörg og Kenny Dalglish.  

- Adam Lallana skoraði sjötta mark sitt á leiktíðinni. 

- Crystal Palace vann báða deildarleikina við Liverpool. 

- Liverpool sló Crystal Palace út úr F.A. bikarnum. 

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com

Hér eru myndir sem teknar voru eftir leikinn þegar Steven Gerrard var kvaddur. 

Hér sést þegar Steven Gerrard gekk út á Anfield fyrir leikinn.

Hér er viðtal við Steven Gerrard sem tekið var eftir leik.

Hér er viðtal sem tekið var við Brendan Rodgers eftir leik.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan