| Sf. Gutt

Spáð í spilin


Það gefst ekki færi á því að komast í úrslitaleik á hverjum degi hvað þá hverri leiktíð. Liverpool á þó færi á því á morgun þegar liðið mætir Aston Villa á Wembley. Það er stórt skref að komast í undanúrslit en það er þó enn stærra skref að komast alla leið. Liverpool náði ekki að komast alla leið í úrslit fyrr á leiktíðinni þegar liðið mætti Chelsea í undanúrslitum Deildarbikarsins. Þá mátti engu muna því Liverpool féll út samtals 2:1 og þótti flestum að Liverpool hefði verðskuldað að komast áfram og þá sérstaklega eftir yfirburði í fyrri leiknum á Anfield sem endaði 1:1. Það vill svo til að oft munar litlu í stórleikjum sem þessum.


Brendan Rodgers hefur ekki náð merkilegum árangri í útsláttarkeppnum frá því hann tók við Liverpool. Auðvitað gengur deildin fyrir en bikarkeppnirnar skipta líka miklu máli. Hingað til hefur Liverpool gjarnan fallið snemma úr leik í bikarkeppnunum eftir að Brendan tók við og stundum með lítilli reisn eins og hroðalegt bikartap fyrir Oldham bar vitni um. En nú hefur brugðið til hins betra á þessari leiktíð. Reyndar gekk illa í Evrópukeppnunum en eins og fyrr segir stóð Liverpool sig með sóma í Deildarbikarnum og nú er komið að undanúrslitum í F.A. bikarnum.


Í vegi fyrir sæti í Liverpool í úrslitaleiknum er Aston Villa sem á sér glæsta sögu í bikarkeppninni. Líkt og Liverpool hefur liðið unnið keppnina sjö sinnum. Fyrir nokkrum vikum hefði verið talið miklu líklegra að Liverpool færi í úrslit ef Aston Villa væri mótherji í undanúrslitum. En nú stjórnar nýr framkvæmdastjóri Villa og liðið hefur tekið stakkaskiptum frá því Tim Sherwood tók við eftir að Paul Lambert var látinn víkja. Liðið er í neðri hluta deildarinnar en hefur verið á batavegi og leikið mun betur en fyrir mánuði eða svo. Liðin skiptu með sér sigrum í deildarleikjunum. Villa vann 0:1 á Anfield í haust en Liverpool hafði sigur 0:2 á Villa Park snemma á árinu. Það er því kannski útlit fyrir jafnari leik en margir hefðu haldið. 


Það eru margar spurningar varðandi liðsuppstillingu Liverpool. Daniel Sturridge hefur verið meiddur og spurning hvort hann verði leikfær. Steven Gerrard og Martin Skrtel eru sloppnir úr leikbönnum sínum. Eiga þeir að koma inn í liðið eftir að hafa verið fjarri í þremur síðustu leikjum sem tveir síðustu hafa unnist? Er hægt að sleppa því að velja Steven Gerrard? Mann sem er að ljúka glæsilegum ferli hjá Liverpool og fari liðið hans í úrslit þá verður úrslitaleikurinn á 35 ára afmæli hans. Líklega svara margir stuðningsmenn Liverpool þessari spurningu neitandi.


Liverpool hefur svo sem ekki verið of sannfærandi þrátt fyrir sigra í síðustu tveimur leikjum. En það er ekki annað hægt en að spá Livrerpool sigri á morgun. Liverpool vinnur 2:0 með mörkum Philippe Coutinho og Steven Gerrard. Ég trúi á ævintýri og kraftaverk þegar Liverpool og Steven Gerrard eru annars vegar því mörg hafa átt sér stað frá þessi mikli meistari hóf feril sinn hjá félaginu okkar. Ég trúi því að eitt ævintýri sé eftir enn!!!

YNWA

 




 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan