| Sf. Gutt

Liverpool í undanúrslit!

Það gat aldrei öðru vísi farið en að það yrði þæfingur í Blackburn en Liverpool tryggði sér sæti í undanúrslitum F.A. bikarsins með 0:1 sigri á heimamönnum. Það var fyrir öllu að komast áfram í keppninni og halda þar með lífi í leiktíðinni. Eins lifir draumurinn um að Liverpool geti unnið F.A. bikarinn í síðasta leik Steven Gerrard. 

Eftir skellinn á móti Arsenal ákvað Brendan Rodgers að breyta varnarskipulaginu og stillti upp fjögurra manna vörn. Glen Johnson kom inn í vörnina sem hægri bakvörður. Dejan Lovren kom líka inn í varnarlínuna. Daniel Sturridge leiddi sóknarlínuna. 

Það var mikil stemmning á Ewood Park og fullur völlur. Strax á fyrstu mínútu varð ljóst að það yrði barist um hvern fermetra. Strax í byrjun fékk Joe Allen skotfæri í vítateignum en hann hitti ekki boltann almennilega sem fór framhjá. Á 13. mínútu ruglaðist Mamadou Sakho eitthvað í rýminu. Hann hélt að Simon Mignolet myndi koma og taka boltann við vítateginn. Craig Conway nýtti sér hik Frakkans og náði boltanum. Mamadou náði þó að hreinsa upp eftir sig og bjargaði skoti Craig í horn. Hinu megin rúmlega fimm mínútum seinna átti Daniel Sturridge skot frá vítateginum sem markmaður Blackburn sló yfir en dómarinn dæmdi samt ekki horn! 

Liverpool var meira með boltann en leikmenn Blackburn gáfu ekki tommu eftir. Á 27. mínútu fékk Jordan Rhodes gott skallafæri eftir sendingu frá vinstri en hann skallaði sem betur fyrir langt yfir. Rétt á eftir haltraði Mamadou af velli og Kolo Toure kom í hans stað. Kolo þótti ekki spila vel á móti Arsenal um helgina en hann átti sannarlega eftir að sýna sitt rétta andlit í þessum leik!

Á 35. mínútu átti Philippe Coutinho skot eftir horn. Fullt af mönnum var í vítateignum en boltinn komst framhjá nokkrum en ekki Simon Eastwood sem henti sér niður og sló boltann í horn. Glen Johnson átti síðasta spark hálfleiksins en Simon varði skot hans. Ekkert mark komið í hálfleik.  

Heimamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og á fyrstu andartökunum átti Tom Cairney gott skot utan vítateigs sem Simon Mignolet varð að taka á honum stóra sínum við að verja í horn. Eftir hornið náði Ben Marshall skalla sem Simon varði fábærlega með því að henda sér niður í hornið. Hann sló boltann í stöng og framhjá. Vel gert hjá Simon!

Liverpool fékk horn frá hægri þegar tuttugu mínútur voru eftir. Philippe Coutinho tók það en spyrna hans var slök og vörnin kom boltanum frá. Philippe náði þó boltanum og sendi á Jordan Henderson sem skilaði honum aftur á Brasilíumanninn sem komst inn í vítateiginn. Hann lék inn að vítateigshorninu og þrumaði boltanum neðst í hornið stöng og inn. Glæsilegt mark og Rauðliðar gengu af göflunum af fögnuði og fögnuðu með stuðningsmönnum sínum sem voru fyrir aftan markið.

Rétt á eftir fékk Daniel sendingu frá Raheem Sterling. Hann komst inn í markteiginn vinstra megin en færið var þröngt og það endaði með því að boltinn sveif hárfínt yfir markið. Blackburn fór að færa sig framar undir lokin. Þá fékk varamðurinn Rickie Lambert gott færi eftir aukaspyrnu en skalli hans fór rétt framhjá. Þarna voru fjórar mínútur eftir og þegar ein mínúta var eftir fék Liverpool hraðaupphlaup. Raheem lék inn í vítateginn frá miðju en skaut yfir. Nokkrum andartökum seinna hefði Liverpool átt að fá víti þegar Joe var felldur en dómarinn dæmdi horn.

Á síðustu mínútu meiðslatíma fékk Blackburn innkast. Simon markmaður þeirra fór fram í vítateiginn og boltinn hrökk til hans eftir innkastið sem var langt og mikið. Hann náði föstu skoti sem nafni hans í marki Liverpool varði á marklínunni. Belginn hélt ekki boltanum en náði honum strax aftur og þar með var sigurinn í höfn!

Stuðningsmenn Liverpool fögnuðu gríðarlega enda þýddi sigurinn að farseðill í undanúrslit í F.A. bikarnum á Wembley er í höfn. Draumurinn um að vinna F.A. bikarinn í síðasta leik Steen Gerrard lifir. En sigurinn heldur líka lífi í leiktíðinni og nú er að halda áfram og komast alla leið!

Blackburn Rovers: Eastwood, Henley, Baptiste (Spurr 80. mín.), Kilgallon, Olsson, Conway (Gestede 65. mín.), Williamson, Evans, Marshall, Cairney og Rhodes. Ónotaðir varamenn: Steele, Songo'o, Nyambe, Lenihan og Mahoney.

Gult spjald: Corry Evans. 

Liverpool:
Mignolet, Johnson, Lovren, Sakho (Toure 27. mín.), Moreno, Leiva, Coutinho, Allen, Henderson, Sterling og Sturridge (Lambert 85. mín.). Ónotaðir varamenn: Jones, Manquillo, Borini, Brannagan og Markovic.

Mark Liverpool: Philippe Coutinho (70. mín.).

Gult spjald: Raheem Sterling. 

Áhorfendur á Ewood Park: 28.415.

Maður leiksins: Philippe Coutinho. Það voru kannski einhverjir betri í þessum hörkuleik og má nefna Simon Mignolet og Kolo Toure. En litli Brasilíumaðurinn skoraði markið sem kom Liverpool í undanúrslit og það er nóg til að hann verði fyrir valinu. Markið var líka af glæsilegri gerðinni!

Brendan Rodgers: Liðið stóð sig framúrskarandi vel í leiknum. Leikmennirnir eiga mikið hrós skilið og þeir komust í undanúrslitin sem var markmið þeirra. Þetta var mikilvægt fyrir okkur og stuðningsmenn okkar sem studdu frábærlega við bakið á okkur.  

                                                                                 Fróðleikur

- Liverpool er komið í undanúrslit F.A. bikarsins í 24. sinn.

- Liverpool hefur í fyrsta sinn komist í undanúrslit án þess að vinna heimaleik.

- Þetta verður önnur undanúrslitarimma Liverpool á leiktíðinni en liðið komst auðvitað líka í undanúrslit í Deildarbikarnum.

- Philippe Coutinho skoraði sjötta mark sitt á leiktíðinni. 

- Tvö þeirra hafa komið í F.A. bikarnum og hafa bæði tryggt sigur.

- Lucas Leiva lék sinn 270. leik með Liverpool. Hann hefur skorað sex sinnum.

- Þetta var 50. leikur Liverpool á leiktíðinni.  

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er sagt frá leiknum á vefsíðu Liverpool Echo.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers af vefsíðu BBC.TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan