| Sf. Gutt

Miði á Wembley í boði!


Í kvöld glíma leikmenn Liverpool við heimamenn í Blackburn um miða á Wembley. Liðið sem vinnur aukaleikinn í átta liða úrslitum F.A. bikarsins fer á Wembley í undanúrslitaleik við Aston Villa. Til þess að Liverpool nái í slíkan miða verður liðið að rífa sig í gang á nýjan leik eftir tvö töp í röð í deildinni. 

En hvað mun Brendan Rodgers gera í liðsvali sínu eftir skellinn á móti Arsenal? Það liggur fyrir að Steven Gerrard, Martin Skrtel og Emre Can spila ekki vegna leikbanna sinna. Kolo Toure kom inn í vörnina á móti Arsenal og lék ekki vel. Eins er trúlegt að Alberto Moreno missi sæti sitt en hann hefur átt mjög erfitt uppdráttar í síðustu tveimur leikjum. Ekki er ólíklegt að Dejan Lovren komi inn í vörnina en hann var á bekknum á móti Arsenal. Segir það sína sögu um erfiðleika hans á leiktíðinni að hann skuli ekki komast í liðið þegar Martin fer út. En nú er Emre líka úr leik þannig að Króatinn hlýtur að koma inn. Trúlega fær Glen Johnson líka sæti. Svo gæti Brendan líka breytt varnarleikkerfinu öllu. Einhverjir töldu að Jon Flanagan kæmi kannski inn í liðið en hann er að koma til baka eftir meiðsli. Svo verður ekki en það er orðið stutt í að pilturinn komi til leiks.


Það vantar Steven á miðjuna og það sama má segja um Adam Lallana sem gengur illa að hrista meiðslin af sér sem varð fyrir á móti Manchester United. Verði varnarkerfinu breytt er nokkuð sjálfgefið að miðjan breytist líka. Kannski kemur Daniel Sturridge inn í sóknina og best væri ef hann fengi Raheem Sterling við hlið sér. 

En hvernig sem liðið verður skipað þá verða menn að vera einbeittir og leggja sig fram. Það gefst ekki tækifæri á undanúrslitaleik á hverjum degi. Liverpool komst í undanúrslit í Deildarbikarnum og tapaði naumlega í tveimur rimmum á móti Chelsea sem vann svo Tottenham í úrslitaleiknum. Liverpool er stutt frá því að geta unnið bikar eftir allt sem á hefur gengið þessa leiktíð. Menn verða því að taka á því í kvöld!

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan