| Sf. Gutt

Fyrsti deildarsigur vetrarins!

Liverpool náði að vinna fyrsta deildarsigur vetrarins degi fyrir fyrsta dag aðventu. Skallamark bakvarðar tryggði Liverpool gríðarlega mikilvægan 1:0 sigur á Stoke City á Anfield.

Það má segja að spenna hafi verið í loftinu fyrir leik Liverpool og Stoke. Það hefur hvorki gengið né rekið síðustu vikurnar hjá Liverpool og síðasti sigur kom viku fyrir fyrsta vetrardag. Við bættist að síðustu þrír deildarleikir voru tapleikir.

Brendan Rodgers hefur að sjálfsögu verið gagnrýndur eftir þetta slaka gengi en hann var þó hvergi hræddur við að taka stóra ákvörðun. Hann ákvað að hafa Steven Gerrard meðan varamanna sinna! Annars var liðið að mestu skipað þeim leikmönnum sem stóðu sig þó nokkuð vel í Búlgaríu í vikunni.

Liverpool hóf leikinn býsna vel og átti nokkrar góðar sóknir. Fyrstu mínúturnar lofuðu góðu en svo gerðist ekki neitt fram til leikhlés. Besta rispan kom á lokamínútu hálfleiksins þegar Philippe Coutinho tók glæsilega rispu frá miðju og alla leið inn í vítateiginn en þar missti hann boltann of langt frá sér. Ekkert hafði því borið árangur þegar leikhlé hófst.

Það færðist fjör í leikinn í síðari hálfleik. Á 51. mínútu átti Jordan Henderson skot rétt framhjá við vítateiginn. Fjórum mínútum seinna komst Mame Biram Diouf inn í vítateig Liverpool en Simon Mignolet sá við honum og varði með góðu úthlaupi. Stoke var svo nærri því að komast yfir fimm mínútum seinna þegar hinn spræki Bojan Krkic tók sprett inn í vítateiginn vinstra megin og náði föstu skoti en sem betur fer small boltinn í stönginni. Liverpool sneri vörn í sókn og Raheem Sterling braust inn í vítateiginn en skot hans strauk stöngina framhjá.

Boltinn gekk nú marka á milli og það var mikið fjör í leiknum. Á 64. mínútu sendi Raheem góða sendingu á Lucas Leiva sem komst í upplagt skotfæri inni í vítateignum en Asmir Begovic varði mjög vel. Rétt á eftir tók Glen Johnson góða rispu fram og lagði boltann á Rickie Lambert sem var í góðu skotfæri en skot hans frá vítateig var laust og Asmir varði. Enn liðu nokkur andartök og Joe Allen átti skot eftir gott spil en boltinn strauk slána og fór yfir. 

Liverpool var sterkari aðilinn og sótti til sigurs en Stoke gaf ekkert eftir. Á 82. mínútu fékk Stoke horn. Eftir hamagang í vítateignum bjargaði Raheem á línu eftir að Mame kom boltanum að markinu. Vel gert hjá Raheem og þetta verk hans átti eftir að ráða miklu þegar upp var staðið.

Fimm mínútum fyrir leikslok kom loksins markið sem stuðningsmenn Liverpool höfðu vonast til að kæmi áður en leikurinn væri úti. Jordan sendi fyrir frá hægri og þar stökk Rickie manna hæst og skallaði fallega að marki. Boltinn fór í slána og hrökk þaðan út í markteiginn. Nú hófst mikið kapphlaup nærstaddra og það vann Glen Johnson. Hann henti sér á boltann og náði að skalla í markið fyrir framan Kop stúkuna. Um leið fékk hann duglegt spark í höfuðið frá varnarmanni þannig að hann lá meiddur eftir. Félagar Glen hrúguðust ofan á hann og fögnuður Rauðliða var mikill. Magnað hjá Glen og hetjulegt mark.

Það var þó ekki allt búið enn og Simon varð að taka á honum stóra sínum þegar komið var fram í viðbótartíma en þá sló hann þrumuskot Bojan yfir. Mögnuð markvarsla og hún tryggði langþráðan sigur Liverpool. Það sagði sitt að áhorfendur kyrjuðu þjóðsönginn af innileik á lokaandartökunum. Það var svo sannarlega kominn tími á deildarsigur og öllum, ekki síst Brendan Rodgers, á Anfield var létt í leikslok!

Liverpool: Mignolet, Johnson, Enrique, Toure, Skrtel, Henderson, Coutinho (Lovren 88. mín.), Leiva (Gerrard 75. mín.), Allen, Sterling og Lambert. Ónotaðir varamenn: Jones, Moreno, Lallana, Can og Markovic.

Mark Liverpool: Glen Johnson (85. mín.).

Stoke City: Begovic, Pieters, Wilson, Shawcross, Cameron, Arnautovic (Crouch 88. mín.), Nzonzi, Walters, Sidwell (Whelan 22. mín. ((Adam 45. mín.)), Bojan og Diouf. Ónotaðir varamenn: Butland, Muniesa, Ireland og Shenton.

Gul spjöld: Marc Wilson, Geoff Cameron og Ryan Shawcross.

Áhorfendur á Anfield Road: 44.735.

Maður leiksins: Raheem Sterling. Strákurinn hefur verið þreyturlegur síðustu vikurnar. Hann virtist þó vera að færast líf í hann í Búlgaríu og hann var enn líflegri í dag. Hann var maðurinn á bak við flestar bestu sóknaraðgerðir Liverpool. Vonandi er hann að ná sér á strik. 

Brendan Rodgers: Í dag unnum við gott lið í Úrvalsdeildinni sem fær fá mörk á sig og við héldum hreinu. Ég var mjög sáttur. Efst í huga mér er þó gleði fyrir hönd leikmannanna því það er indælt að vinna með mönnunum í þessum leikmannahópi. Mér fannst við spila stórvel á köflum. 

                                                                                     Fróðleikur

- Glen Johnson skoraði fyrsta mark sitt á leiktíðinni. 

- Þetta var níunda mark hans fyrir Liverpool og tvö af þeim hefur hann skorað á móti Stoke. 

- Þetta var fyrsti deildarsigur Liverpool frá því 19. október. 

- Síðan hefur liðið gert eitt jafntefli og tapað þremur leikjum. 

- Martin Skrtel lék sinn 260. leik með Liverpool. Hann hefur skorað 16 mörk.

- Kolo Toure lék sinn 30. leik.

- Í dag voru 16 ár liðin frá því Steven Gerrard lék sinn fyrsta leik fyrir hönd Liverpool. Hann kom þá líka inn á sem varamaður. 

- Steven lék í dag sinn 687. leik í búningi Liverpool. Mörkin hans eru 176.

Hér eru myndir úr leiknum af Liverpoolfc.com.

Hér er greint frá gangi leiksins á vefsíðu Liverpool Echo.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan