| Heimir Eyvindarson

Spáð í spilin

Liverpool mætir Swansea í deildabikarnum í kvöld. Swansea sigraði keppnina 2013 og sló þá einmitt okkar menn út í fjórðu umferð.

Við stuðningsmenn Liverpool þekkjum vonbrigði orðið nokkuð vel. Kannski sérstaklega um þetta leyti árs, þegar aðeins er liðið á veturinn. Hver kannast ekki við að hafa verið fullur bjartsýni í ágúst og eitthvað aðeins fram í september, en vera svo farinn að fyllast ákveðnu vonleysi í vetrarbyrjun.

Eftir frábæra frammistöðu á síðustu leiktíð, þar sem Liverpool var í fyrsta sinn í mörg ár í alvöru titilbaráttu - og spilaði þar að auki stórskemmtilegan fótbolta - voru vonir stuðningsmanna ansi miklar fyrir yfirstandandi tímabil. Jafnvel þótt besti maður liðsins væri horfinn á braut. Menn höfðu trú á hugmyndafræði stjórans og bundu vonir við að nýir menn gætu gengið inn í það kerfi - og allt yrði áfram eins gott og á síðustu leiktíð.

En það hefur því miður ekki gengið eftir. Liverpool liðið hefur verið ósannfærandi í flestum leikjum og lítið hefur farið fyrir þeim eldmóði sem einkenndi liðið á síðasta tímabili. Í raun er algjört lán hversu stutt liðið er þó frá toppliðunum, þrátt fyrir dapurt gengi. Liðið er hvergi nærri úr leik í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni. Því fer fjarri.

Dagskráin hjá okkar mönnum eftir þennan leik er ansi strembin, á einni viku mætir liðið Newcastle, Real Madrid og Chelsea. En í kvöld er smá frí frá Úrvals- og Meistaradeild og það verður að teljast líklegt að Brendan Rodgers noti tækifærið og gefi mönnum eins og Raheem Sterling og Steven Gerrard kærkomið frí. Þótt það sé vissulega yfirlýst markmið hjá Liverpool að standa sig vel á öllum vígstöðvum hlýtur að teljast skynsamlegt að hvíla a.m.k. þessa tvo leikmenn í kvöld. 

Það er ekki eins víst að Swansea hvíli sína máttarstólpa. Liðið sigraði deildabikarinn 2013 og komst með því í Evrópudeildina þannig að það er næsta víst að forráðamenn liðsins leggja talsvert upp úr því að ná árangri í þessari keppni. Liðið er sem stendur í 6. sæti Úrvalsdeildar, með jafnmörg stig og Liverpool, þannig að það er alveg ljóst að ef Svanirnir stilla upp sæmilega sterku liði bíður okkar manna afar erfitt verkefni í kvöld.

Það má velta upp allskonar tölfræði fyrir leikinn. Sú sem kemur hvað best út fyrir okkur Púlara er sú staðreynd að Swansea hefur einungis tvisvar sinnum landað sigri á Anfield, í 19 tilraunum. Síðast í deildabikarnum 2012-13. Það kemur hinsvegar ekki eins vel út fyrir okkur að rifja það upp að það þarf að fara heil 8 ár aftur í tímann til þess að finna sigur Liverpool á öðru Úrvalsdeildarliði í deildabikarleik á Anfield. Það var árið 2006 þegar Liverpool sigraði Reading 4-3. Swansea hefur aftur á móti fjórum sinnum mætt Úrvalsdeildarliði í deildabikarnum - og alltaf unnið. 

Eins og allir vita var Brendan Rodgers við stjórnvölinn hjá Swansea áður en hann tók við Liverpool. Arftakar hans í starfi hafa haldið sig nokkuð staðfastlega við hugmyndafræði Rodgers. Sama á hverju gengur reynir liðið að láta boltann vinna verkið. Það hefur fest félagið í sessi sem farsælt Úrvalsdeildarlið.

Liverpool fylgir í grunninn sömu hugmyndafræði, að láta boltann ganga, sækja hratt þegar það á við, pressa og hörfa þegar það á við. Sýna áræði og þolinmæði í senn. Það hefur bara ekki gengið alveg nógu vel að framfylgja planinu það sem af er þessari leiktíð.

Fyrir hvern einasta leik vonumst við stuðningsmenn liðsins til þess að núna fari þetta að koma. Núna muni liðið smella og sýna hvað í því býr.

Það er ekkert víst að það gerist endilega í kvöld. Hugsanlega verðum við meira að segja að sætta okkur við tap. Það er erfitt prógramm framundan og þrátt fyrir að liðið vilji standa sig í öllum keppnum er staðan einfaldlega þannig að það verður að hvíla lykilmenn í kvöld, fyrir átökin sem framundan eru í Úrvals- og Meistaradeild.

Gleymum því samt ekki að hópur Liverpool er mun breiðari en undanfarin ár og nóg er af leikmönnum í okkar herbúðum sem eiga að geta komið inn í liðið og gert góða hluti. Þeir sem fá traust stjórans í kvöld standa vonandi undir því. Mest er þó um vert að við stuðningsmennirnir höldum áfram að styðja við liðið í blíðu og stríðu. Eins og alvöru Púlarar.

Skynsemin segir mér að búast við tapi í kvöld. Hjartað segir hinsvegar áfram Liverpool, eins og alltaf. Þessvegna spái ég sætum 2-0 sigri. Mörkin koma frá Lambert og Markovic.

YNWA!   

 



 
     
         
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan