| Grétar Magnússon

Adam Lallana kominn til Liverpool

Nú rétt í þessu var formlega tilkynnt um kaupin á Adam Lallana frá Southampton.  Lallana verður í treyju númer 20. Kaupverðið er talið vera í kringum 23 milljónir punda sem gæti hækkað upp í 25 milljónir.

Þessi 26 ára gamli leikmaður skrifaði undir langtíma samning við félagið eftir að hafa staðist læknisskoðun á Melwood.  Lallana eru önnur kaup sumarsins en kaupin á Emre Can hafa ekki formlega verið staðfest.  Fyrstu kaupin voru auðvitað liðsfélagi hans hjá Southampton, Rickie Lambert.


Lallana hafði þetta að segja um vistaskiptin:  ,,Ég er mjög spenntur fyrir því að ganga til liðs við sérstakt félag eins og Liverpool og næsta kafla á mínum ferli.  Ég er auðmjúkur og get ekki beðið eftir því að byrja.  Vonandi verð ég fljótur að aðlagast og ég mun gera mitt besta allan þann tíma sem ég er hér.  Ég vona að ég geti bætt einhverju við liðið og vonandi vinnum við einhverja bikara því það er ástæðan fyrir því að ég er hér, velgengninnar vegna."

Lallana er eins og aðrir enskir landsliðsmenn nýkominn aftur heim frá Brasilíu þar sem hann kom við sögu í öllum þremur leikjum liðsins í riðlakeppninni.

Hann spilaði alls 250 leiki fyrir Southampton frá ágúst 2006 til maí 2014 og skoraði í þeim 58 mörk.  Árið 2012 var hann gerður að fyrirliða liðsins.  Hann var svo valinn í úrvalslið ensku Úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

Hér má sjá viðtal við Adam á vefsíðu BBC.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan