| Grétar Magnússon

Spáð í spilin

Eftir langa bið mæta leikmenn Liverpool aftur til leiks í síðasta leik fjórðu umferðar ensku Úrvalsdeildarinnar.  Haldið er á fornar slóðir knattspyrnustjórans að þessu sinni.

Eins og allir vita stjórnaði Brendan Rodgers liði Swansea áður en hann kom til Liverpool og hann heldur með lærisveina sína á sinn gamla heimavöll, Liberty Stadium á mánudagskvöldið næsta.  Flautað verður til leiks kl. 19:00 að íslenskum tíma.

Síðast þegar liðin mættust á þessum leikvangi lauk leiknum með 0-0 jafntefli en sá leikur var engu að síður fjörugur þó mörkin hafi vantað.  T.d. þrumaði Raheem Sterling í þverslána í fyrri hálfleik og mark var dæmt af José Enrique vegna rangstöðu þó vissulega hafi það verið tæpt og oftar en ekki hafa slík mörk fengið að standa.

Margt hefur breyst hjá báðum liðum síðan að þessi leikur fór fram, nánar tiltekið þann 25. nóvember í fyrra.  Af þeim 11 byrjunarliðsmönnum Liverpool hafa tveir haldið á braut, Jose Reina er jú reyndar á láni frá félaginu en Stewart Downing var seldur.  Á bekknum þennan dag sátu þeir Jones, Coates, Carragher, Shelvey, Sahin, Suso og Cole og nú tæpu ári síðar eru allir nema tveir farnir á braut eða nánar tiltekið þeir tveir fyrstnefndu.  Suso er reyndar á láni og kemur nú líklega aftur til félagsins næsta vor.

Jonjo Shelvey er svo núna í herbúðum Swansea en hann var seldur til liðsins í sumar.  Mjög líklegt verður að teljast að hann byrji gegn sínum gömlu samherjum.

Þeir Kolo Toure og Daniel Sturridge ættu að vera klárir í slaginn fyrir þennan leik, þó er óvíst með hvort Sturridge geti byrjað en hann gat ekkert tekið þátt í leikjum enska landsliðsins í síðustu viku.  Glen Johnson verður frá í u.þ.b. mánuð eftir meiðslin gegn Manchester United og líklegt er að Andre Wisdom taki sæti hans í hægri bakverði, eða jafnvel að Kolo Toure fylli það skarð.  Sem fyrr er Luis Suarez í banni en þetta er leikur númer 9 af 10 leika banni hans.

Spennandi verður að sjá hvort Rodgers gefi Mamadou Sakho tækifæri í byrjunarliðinu.  En þar sem liðið hefur ekki ennþá fengið á sig mark í deildinni og sú staðreynd að Sakho er nýlega genginn til liðs við félagið þá gefur það undirrituðum tilefni til að trúa því að Rodgers haldi sig við þá Skrtel og Agger í miðverðinum.  Sakho gæti þá jafnvel komið í stað José Enrique í vinstri bakverði en það verður jú allt að koma í ljós.

Alls léku Liverpool og Swansea þrjá leiki á síðasta tímabili þar sem skiptin urðu jöfn, Swansea unnu sigur á Anfield í Deildarbikarnum, Liverpool vann sigur á Anfield í deild og eins og áður sagði var jafnt á heimavelli Swansea í deild.  Swansea fóru svo alla leið í Deildarbikarnum og eru núverandi handhafar þess ágæta bikars.

Ef litið er á leiki liðanna á heimavelli Swansea í gegnum tíðina þá má sjá að Liverpool hafa ekki oft náð góðum úrslitum þar.  Þess ber þó að geta að þegar liðin mættust þann 13. maí árið 2012 voru 30 ár frá því að liðin mættust síðast í Wales !  Á heildina litið hefur Liverpool 12 sinnum mætt Swansea á þeirra heimavelli og hafa leikar farið þannig að gestirnir hafa aðeins unnið 2 leiki, 3 hafa endað með jafntefli og Swansea unnið 7.  Sagan er því ekki með okkar mönnum þegar kemur að þessum leik en hinsvegar er sagan gríðarlega hliðholl þegar litið er á síðustu deildarleiki en þar hafa okkar menn verið á góðu róli á meðan Swansea hafa ekki náð góðum úrslitum. En sagan kemur auðvitað til með að skipta engu máli þegar leikmenn beggja liða ganga út á leikvöllinn annað kvöld.


Þegar kemur að því að spá fyrir um úrslit leiksins má segja að maður sveiflist á milli þess að vera viss um að gott gengi liðsins haldi áfram eða þá að Swansea komi sterkir til leiks á heimavelli og gefi okkar mönnum engin grið.  A.m.k. þykir mér líklegt að nú fái liðið á sig mark í deildinni í fyrsta sinn og því er þetta spurning um hvort það takist að skora nógu mörg á móti til að tryggja sigur.

Að þessu sinni verður það ekki og lokaniðurstaðan verður 1-1 jafntefli.


TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan