| Heimir Eyvindarson

Stórsigur á Swansea

Liverpool gjörsigraði Swansea á Anfield í dag. Lokatölur urðu 5-0 í leik þar sem Svanirnir sáu aldrei til sólar.

Philippe Coutinho var í fyrsta sinn í byrjunarliði Liverpool og þá kom Daniel Sturridge inn í liðið að nýju eftir meiðslin sem hann hlaut í leiknum gegn Manchester City.

Michael Laudrup arftaki Brendan Rodgers hjá Swansea stillti upp hálfgerðu varaliði í dag, en hann gerði 7 breytingar á liðinu frá síðasta deildarleik liðsins.

Swansea leikur í úrslitum deildabikarsins um næstu helgi og væntanlega hefur Laudrup viljað hvíla sína sterkustu menn fyrir þau átök.

Liverpool byrjaði leikinn betur og strax á 2. mínútu fékk Downing ákjósanlegt færi þegar boltinn barst til hans eftir hornspyrnu. Downing tók boltann viðstöðulaust á lofti og þrumaði honum framhjá markinu.

Á 6. mínútu átti Suarez skot að marki Swansea sem Worm varði örugglega.

Á 9. mínútu fékk Swansea skyndilega gott færi eftir snarpt upphlaup, en skot Roland Lamah hafnaði í belgnum á Glen Johnson. Leikmenn gestanna vildu meina að boltinn hefði farið í hönd Johnson, en Howard Webb dómari leiksins var ekki á sama máli.

Þetta var eiginlega það síðasta sem sást til Swansea manna í hálfleiknum, slíkir voru yfirburðir okkar manna. Liverpool var mun meira með boltann og átti urmul af skotum í átt að marki gestanna. 

Á 23. mínútu átti Downing flotta fyrirgjöf fyrir markið, en skalli Sturridge frá markteig fór yfir markið. Tveimur mínútum síðar átti Suarez frábæra sendingu á Sturridge sem reyndi að prjóna sig í gegnum varnarlínu Swansea inni í teig gestanna. Sturridge féll við í hamagangnum og ekki var annað að sjá en það hefði verið brotið á honum, en Webb sá ekki ástæðu til að flauta. Boltinn barst til Coutinho sem renndi honum framhjá markinu úr góðu færi.

10 mínútum síðar dæmdi Webb hinsvegar vítaspyrnu þegar Augustien braut klaufalega á Suarez úti við endalínu. Snertingin virtist alls ekki mikil, en Úrugvæinn fór niður og aðstoðardómarinn veifaði á brotið. Steven Gerrard fór á punktinn og skoraði fram hjá Worm. Staðan 1-0 á Anfield.

Það sem eftir lifði hálfleiksins hélt Liverpool áfram að sækja og gestirnir hafa ábyggilega prísað sig sæla með að vera einungis einu marki undir í leikhleí.

Síðari hálfleikur hófst með miklum látum og strax á fyrstu mínútu skoraði Liverpool gott mark. Þar var á ferðinni Philippe Coutinho eftir góða sendingu frá Suarez. Staðan orðin 2-0. Einungis tveimur mínútum síðar var Coutinho nálægt því að bæta öðru marki við, aftur eftir góðan undirbúning Suarez, en skot hans fór rétt framhjá.

Á 50. mínútu skoraði síðan Jose Enrique þriðja mark Liverpool eftir frábært samspil við Sturridge. Virkilega laglegt mark. Staðan orðin 3-0 og sigurinn virtist í höfn.

Á 57. mínútu var komið að Luis Suarez sem skoraði glæsilegt mark með innanfótarskoti eftir sendingu frá Downing. Staðan orðin 4-0 og kátt á pöllunum á Anfield.

Á 64.mínútu átti Jordan Henderson sem var nýkominn inn fyrir Coutinho snilldar sendingu innfyrir vörn gestanna á Sturridge sem náði flottu skoti á markið. Worm varði en boltinn barst til Suarez sem skaut beint í Bartley í vörn Swansea. Gestirnir ljónheppnir að vera aðeins fjórum mörkum undir.Á 71. mínútu barst boltinn inn í teig Swansea og þar gerði Wayne Routledge sér lítið fyrir og blakaði honum með höndinni aftur fyrir endalínu. Howard Webb gat lítið annað gert en að dæma víti og úr vítinu skoraði Daniel Sturridge af öryggi. Staðan orðin 5-0. 

Það er of langt mál að fara yfir öll marktækifæri Liverpool í leiknum. Liðið átti yfir 40 skot að marki og þrátt fyrir að gestirnir hefðu skíttapað í dag þá er óhætt að fullyrða að Michel Worm markvörður hafi verið þeirra besti maður. Hann varði nokkrum sinnum mjög vel og kom í veg fyrir enn meiri niðurlægingu Swansea í dag.

Það er þó rétt að geta þess að á 84. mínútu átti Routledge ágætt skot að marki Liverpool sem Reina varði vel. Það var í raun það eina sem sást til gestanna sóknarlega í síðari hálfleik.

Liverpool spilaði síðan síðustu mínútur leiksins einum færri því Fabio Borini sem kom inn á sem varamaður fyrir Luis Suarez meiddist eftir að hafa verið 7 mínútur inná og varð að hætta leik. Brendan Rodgers sagði eftir leikinn að Borini hefði farið úr axlarliði og yrði líklega lengi frá.

Lokamínútur leiksins voru tíðindalitlar og lokatölur á Anfield 5-0 í góðum leik okkar manna.

Liverpool: Reina, Johnson, Carragher, Agger, Enrique, Lucas (Allen á 73. mín.), Gerrard, Coutinho (Henderson á 61. mín.), Downing, Suarez (Borini á 78. mín.) og Sturridge. Ónotaðir varamenn: Gulacsi, Allen, Skrtel og Wisdom.
 
Mörk Liverpool: Gerrard á 34. mín, Coutinho á 46. mín., Enrique á 50. mín, Suarez á 57. mín. og Sturridge á 71. mín.

Swansea: Worm, Tiendalli, Lamah (Routledge á 65. mín.), Shechter (Rangel á 83. mín.), Monk, Britton, Bartley, Davies, De Guzman, Augustien, Hernandez (Dyer á 77. mín.) Ónotaðir varamenn: Tremmell, Michu, Williams, Moore.

Gul spjöld: Hernandez og Routledge.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 44.832.

Maður leiksins: Luis Suarez var besti maður Liverpool í dag. Hann olli varnarmönnum gestanna miklum vandræðum og var sífellt að. 

Brendan Rodgers: Þetta var kærkominn sigur eftir áföllin í undanförnum leikjum. Við spiluðum mjög vel og sköpuðum mikið af færum. Það var það sem við lögðum upp með í dag. Ég er mjög ánægður með frammistöðu leikmanna og þann karakter sem þeir sýndu í dag. 


                                                                                   Fróðleikur

-
Þetta var fyrsti sigur Liverpool á Swansea í Úrvalsdeildinni.

-
Markið sem Steven Gerrard gerði á 34. mínútu var fyrsta mark Liverpool gegn Swansea í deildinni. Þetta var leikur númer 620 og markið var það 157. Átta hefur hann skorað á þessari leiktíð.  

- Þrátt fyrir að Liverpool hafi gengið brösuglega með Swansea að undanförnu hafa Svanirnir ekki enn lagt okkar menn að velli á Anfield. Þetta var 12. leikur liðanna á Anfield. Liverpool hefur nú unnið 9 leiki og þrisvar sinnum hefur orðið jafntefli. 

- Mark Philippe Coutinho á 46. mínútu var fyrsta mark Brasilíumannsins unga fyrir Liverpool. Hann lék sinn fyrsta leik í byrjunarliði í dag.

- Mark Jose Enrique á 57. mínútu var annað mark Spánverjans fyrir Liverpool. Hið fyrra kom í 3-0 sigrinum gegn Wigan í nóvember.

- Fyrir leikinn í dag hafði Swansea einungis fengið á sig 10 mörk á útivelli í Úrvalsdeildinni á tímabilinu. Fæst allra liða í deildinni. Mörkin eru nú orðin 15! 

- Mark Luis Suarez var fyrsta mark hans í síðustu fjórum leikjum. Hann er nú búinn að skora 23 mörk á sparktíðinni.

- Daniel Sturridge skoraði fimmta mark sitt fyrir Liverpool. 

- Tapið í dag var stærsta tap Swansea í meira en 10 ár.

Hér er viðtal við Brendan Rodgers af Liverpoolfc.com.

Hér eru myndir úr leiknum af sömu síðu.

Hér er viðtal við Brendan af vefsíðu BBC. 


 

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan