| Heimir Eyvindarson

Markalaust gegn Stoke

Liverpool fékk Stoke í heimsókn á Anfield í dag. Eins og við var að búast lágu gestirnir í vörn allan tímann. Svo fór að þeir uppskáru stig fyrir þéttan varnarleik.

Brendan Rodgers stillti upp sama byrjunarliði og sigraði Norwich um síðustu helgi. Athygli vakti að Stewart Downing var ekki á meðal varamanna Liverpool í dag. Downing lýsti því yfir í viðtali í gær að honum hefði sárnað gagnrýni stjórans á frammistöðu sína og væri ekki allskostar sáttur. Spurning hvort það hefur haft áhrif á liðsval Rodgers. Þá var Joe Cole á bekknum, en hann hefur verið frá vegna meiðsla.

Það kom fátt á óvart í leik Stoke í dag. Þeir stilltu upp hörðum og þéttum varnarmúr og léku eins fast og dómarinn leyfði.

Liverpool var meira með boltann framan af en fyrsta umtalsverða færi leiksins kom í hlut Stoke á 20. mínútu. Þá sendi Reina frá markinu í átt til Nuri Sahin, en ekki vildi betur til en að Steven N´Zonzi náði boltanum og reyndi umsvifalaust að lyfta boltanum yfir Reina. Sem betur fer tókst Reina að slá boltann yfir markið.

Á 27. mínútu átti Steven Gerrard glæsilegt skot að marki Stoke, en Begovic gerði vel í að verja boltann í horn. Aðeins tveimur mínútum síðar átti Suso frábæra sendingu innfyrir vörnina þar sem Daniel Agger náði að reka tána í boltann. Boltinn hafnaði í stönginni. Liverpool aðeins hársbreidd frá því að komast yfir.

Þegar hér var komið sögu réð Liverpool lögum og lofum á vellinum, en harkalegur varnarleikur gestanna kom í veg fyrir að almennileg hætta skapaðist upp við markið. Svo mikið var um tæklingar og óheiðarlegan leik af hálfu leikmanna Stoke að Steven Gerrard var nóg boðið og kvartaði sáran í Lee Mason dómara, sem hafði að dómi fyrirliðans sýnt gestunum allt of mikið umburðarlyndi. Robert Huth mátti til að mynda á þessum tímapunkti teljast stálheppinn að vera ennþá inni á vellinum.

Þegar haldið var til hálfleiks var staðan 0-0 og gestirnir höfðu einungis fengið tvö gul spjöld. Bæði markaleysið og spjaldafæðin nokkuð gegn gangi leiksins.

Liverpool hóf síðari hálfleikinn af krafti og nokkur hálffæri litu dagsins ljós í upphafi hálfleiksins. Á 52. mínútu komst Glen Johnson síðan í gott færi eftir góða sendingu frá Gerrard, en til allrar óhamingju sópaði bakvörðurinn boltanum yfir frá markteigshorni.

Á 59. mínútu hefði Suarez getað gert tilkall til marks ársins. Þá tók hann frábæran sprett frá miðlínu, með hóp Stoke-trölla í kringum sig. Spretturinn endaði inni í vítateig Stoke þar sem Úrúgvæinn lét ágætt skot ríða af með vinstri fæti, en boltinn fór rétt framhjá. Frábær tilþrif hjá þessum magnaða leikmanni.

Á 72. mínútu stormaði Daniel Agger inní teig gestanna. Eftir nokkurt at barst boltinn til Sterling á fjærstönginni, en skot hans lenti í stönginni. Ágætt skot, en heppnin ekki með okkar mönnum.

Á 75. mínútu lét Suarez sig falla með tilþrifum inni í vítateig Stoke eftir að hafa fíflað varnarmenn gestanna í dágóða stund. Ekki var annað að sjá en Wilson hefði farið aðeins aftan í Suarez, en líklega hefur Lee Mason dómari ekki verið allt of hrifinn af leikrænum tilburðum Úrúgvæans. Ekkert dæmt og Suarez má sjálfsagt prísa sig sælan með að hafa ekki fengið gult spjald fyrir fallið. Annað eins hefur hann fengið spjald fyrir.

Á 83. mínútu var Suarez enn og aftur á ferðinni inní vítateig Stoke. Eftir talsverðan darraðadans átti hann þrumuskot sem hafnaði í utanverðri stönginni úr mjög þröngu færi. Þriðja stangarskot Liverpool í leiknum.

Á 90. mínútu leiksins var Liverpool grátlega nálægt því að gera út um leikinn. Þá sendi Joe Cole, sem hafði komið inn á sem varamaður fyrir Suso nokkru áður, boltann á fjærstöngina. Þar tókst Martin Skrtel að lyfta boltanum í áttina að hinni stönginni, framhjá Begovic í marki Stoke. Boltinn hafnaði í stönginni og fór þaðan út af, sem var sérstaklega svekkjandi því Suarez hafði tekið sér stöðu við stöngina tilbúinn að taka frákastið, en misreiknaði greinilega stefnu boltans. Fjórða stangarskot okkar manna í leiknum staðreynd og leikurinn að fjara út.

Niðurstaðan á Anfield í dag markalaust jafntefli og Liverpool á því enn eftir að landa deildarsigri á heimavelli undir stjórn Brendan Rodgers.

Liverpool: Reina, Wisdom, Skrtel, Agger, Johnson, Sahin (Assaidi 75. mínútu), Allen, Gerrard, Fernandez Saez (Cole 65. mínútu), Sterling og Suarez

Stoke: Begovic, Wilson, Cameron, Huth, Shawcross, Walters, Whelan (Whitehead 22. mín.), N´Zonzi, Kightly, Adam og Crouch. Ónotaðir varamenn: Sørensen, Etherington, Edu, Upson og Jerome

Gul spjöld: Wilson, Huth, Whitehead, Shawcross, Adam, Kightly.

Maður leiksins: Það er ekki hægt að líta framhjá Luis Suarez. Þetta var kannski ekki besti leikur hans fyrir Liverpool, enda tókst honum ekki að skora í dag, en hann fær prik fyrir mikinn baráttuvilja. Hann skapaði oft á tíðum mikinn usla, þrátt fyrir að fá það oft á tíðum óþvegið hjá varnartröllum gestanna. Daniel Agger var einnig mjög traustur, sem og Joe Allen. Þá óx Sterling mjög ásmegin eftir því sem leið á leikinn og eins er vert að fagna líflegri innkomu Joe Cole.

Brendan Rodgers: Við vorum óheppnir að vinna ekki í dag. Ég get ekki kvartað yfir frammistöðu leikmannanna. Þeir gáfu sig alla í leikinn og reyndu eins og þeir gátu. Því miður tókst okkur ekki að brjóta sterka vörn Stoke á bak aftur. Ég er sérstaklega ánægður með hvað ungu strákarnir náðu að standa í lappirnar gegn sterkum leikmönnum Stoke. Ef þeir geta sýnt lipurleg tilþrif gegn svona liði þá er bjart framundan.

Fróðleikur:

- Liverpool hefur ekki unnið heimaleik í deildinni það sem af er leiktíðar.

- Liverpool hefur í gegnum tíðina gengið afar vel á móti Stoke á heimavelli. Þetta er þó annað markalausa jafnteflið í röð milli liðanna á Anfield.

- Það eru 2794 vikur frá því að Stoke fór síðast með sigur af hólmi á Anfield. Árið var 1959 og Stoke sigraði Liverpool 3-4 á Anfield. Nokkrum mánuðum síðar tók Bill Shankly tók við Liverpool. Svo langt er síðan.

- Eftir tapið 1959 hefur Liverpool unnið 29 af 34 leikjum gegn Stoke á Anfield.  

- Öðru máli gegnir um tölfræðina á Brittania vellinum, en þar hefur Liverpool ekki unnið leik í 28 ár!

- Þegar allt er talið hafa liðin mæst 127 sinnum síðan árið 1894. Liverpool hefur sigrað rétt rúman helming leikjanna, eða 64 alls. Stoke hefur sigrað 28 sinnum.

Hér eru myndir úr leiknum af opinberri heimasíðu félagsins.

Hér ræðir Brendan Rodgers um leikinn á sömu síðu.

Hér má horfa á viðtal við Brendan á vefsíðu BBC.

 

 
TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan