| Sf. Gutt

Jafnt gegn Hearts en það dugði

Seinni Bretlandsbardaga Liverpool og Hearts lyktaði með jafntefli 1:1 á Anfield Road. Þau úrslit dugðu til að Liverpool vann Bretlandsorrustuna og komst þar með í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. 

Brendan Rodgers tefldi fram sterku liði og það eina sem kom á óvart í liðsvali hans var að ungi markahrókurinn Adam Morgan fékk sæti í byrjunarliðinu. Hann kom inn á sem varamaður í Skotlandi fyrir viku. Andy Carroll var hvergi sjáanlegur og í miðjum leik bárust þær fréttir að búið væri að lána hann til West Ham United!

Adam átti þátt í fyrsta færi leiksins eftir stundarfjórðung. Stewart Downing, sem var vinstri bakvörður, sendi fyrir markið yfir á fjærstöng. Adam skallaði til baka á Luis Suarez en varnarmaður bjargaði skalla hans á markteig. 

Um miðjan hálfleikinn vildi Hearts fá víti eftir að Jamie Carragher hafði átt í viðskiptum við Skota en ekkert var dæmt og var það rétt. Adam var mjög grimmur og ætlaði greinilega að nýta tækifærið og láta að sér kveða. Á 27. mínútu átti hann skot utan vítateigs sem Jamie MacDonald varði. Hann hélt ekki botlanum en náði honum þó áður en illa fór. Nokkrum andartökum seinna braust Steven Gerrard inn í vítateiginn, lék framhjá þremur varnarmönnum en Jamie varði frá honum.  

Á 35. mínútu lá boltinn í marki Hearts. Luis kom boltanum fyrir við endamörkin hægra megin. Adam Morgan renndi boltanum í markið og fagnaði en ekki lengi. Línuvörður lyfti flaggi sínu og gaf merki um að boltinn hefði verið kominn aftur fyrir endamörk þegar Luis gaf fyrir. Litlu mátti muna í því en kannski hafði hann þó rétt fyrir sér. Ekkert löglegt mark í leikhléi en ljóst að Hjartarmenn voru ekki af baki dottnir.

Liverpool var sem fyrr sterkara liðið eftir hlé eins og fyrir en marktækifærin létu bíða eftir sér. Á 51. mínútu átti Jonjo Shelvey fast langskot sem sveif rétt framhjá vinklinum. Raheem Sterling leysti Adam af á 62. mínútu og það færðist strax meiri hraði í leikinn. Tveimur mínútum seinna kom hann sér inn í vítateig en varnarmenn náðu að stöðva hann á síðustu stundu og í kjölfarið komst Luis upp að markteig hægra megin. Hann beið full lengi og færið var orðið mjög þröngt þegar hann loksins skaut. Varnarmaður bjargaði á línu og af honum fór boltinn í stöngina. Nokkrum andartökum seinna fékk Luis boltann aftur inn í vítateignum en skot hans fór rétt framhjá fjærstönginni. 

Liverpool réði nú öllu og markið lá í loftinu. Á 70. mínútu sendi Jordan Henderson góða sendingu inn fyrir vörn Hearts. Luis skaust einn í gegn og var að búa sig í að leika á Jamie í markinu þegar þeir rákust saman. Báðir misstu af boltanum og ekkert varð úr. 

Jú, markið lá í loftinu og eins og svo oft þegar stuðningsmenn Liverpool biðu eftir að fagna þá voru það hinir stuðningsmennirnir sem fögnuðu. Hearts fékk allt í einu horn þegar fimm mínútur voru eftir. Martin Skrtel skallaði frá en David Templeton náði boltanum, lék á tvo og skaut að marki. Boltinn fór beint á Jose Reina sem missti boltann á óskiljanlegan hátt í markið. Skotarnir fyrir aftan markið trylltust og nú stefndi allt í einu í framlengingu!
 
Framlengingu var bjargað þegar tvær mínútur voru eftir. Sókn Liverpool var brotin á bak aftur við vítateig Hearts. Steven hljóp alla leið aftur að sínum teig til að stöðva framhlaup Hjartarmanna. Þar potaði hann boltanum til varamannsins Fabio Borini. Hann tók rispu fram sendi á Luis Suarez sem sneri af sér varnarmann og lék inn í vítateiginn vinstra megin með varnarmann á hælunum. Hann virtist vera kominn í of þrönga stöðu en náði samt að sparka boltanum framhjá Jamie og í markið fyrir framan The Kop. Mikið var fagnað og Luis var greinilega létt enda búinn að mistakast í góðum færum áður. 

Hér með var ekki aftur snúið og Liverpool hafði áframhald út úr þessari Bretlandsorrustu. Auðvitað var áframhaldið öruggt miðað við gang leiksins en líkt og svo oft áður stóðu mörk á sér og þess vegna var allt í járnum. En málið var klárað og það var fyrir mestu!

Liverpool: Reina, Kelly, Carragher, Skrtel, Downing, Henderson (Borini 76. mín.), Allen, Shelvey, Gerrard, Morgan (Sterling 62. mín.) og Suarez. Ónotaðir varamenn: Jones, Johnson, Enrique, Agger og Coates.
 
Mark Liverpool: Luis Suarez (88. mín.).

Hearts: MacDonald, Ryan McGowan, Webster, Zaliukas, Grainger, Novikovas (Carrick 75. mín.), Barr, Taouil, Paterson, Templeton og Sutton (Driver 66. mín.). Ónotaðir varamenn: Hamilton, Robinson, Holt, Dylan McGowan og McHattie.
 
Mark Hearts: David Templeton (85. mín.).

Gul spjöld: Darren Barr og Grainger.
 
Áhorfendur á Anfield Road: 44.361.

Maður leiksins: Steven Gerrard. Ekki tókst nú allt sem fyrirliðinn reyndi en hann var mjög duglegur og alltaf á ferðinni. Hann lék lykilhlutverk í jöfnunarmarkinu mikilvæga.

Brendan Rodgers: Við náðum takmarki okkar sem var að komast áfram. Báðir leikirnir voru mjög erfiðir og það lá alltaf fyrir. En mér fannst viðhorf og staðfesta leikmannanna í besta lagi. Við sýndum baráttuanda okkar undir lokin þegar við lentum undir. 

                                                                                         Fróðleikur.

- Liverpool komst áfram 2:1 samtals í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

- Hearts er lið númer 115 sem Liverpool mætir í Evrópukeppni frá því það mætti K.R. 1964.

- Luis Suarez skoraði annað mark sitt á leiktíðinni.

- Fabio Borini hefur einn leikmanna Liverpool tekið þátt í öllum leikjum leiktíðarinnar.

- Liverpool fékk á sig fyrsta Evrópumarkið í ár.

TIL BAKA
Nýlegar fréttir
Fleiri fréttir
Fréttageymslan